131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:11]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. fjármálaráðherra hefur kynnt fjárlagafrumvarpið. Í því er svo sem ekkert nýtt. Áfram er réttur hlutur þeirra sem hæstar hafa tekjurnar og skertur hlutfallslega hagur þeirra sem hafa lægstar tekjur. Þetta er stefna þessarar ríkisstjórnar og hefur verið.

Hæstv. ráðherra var að hæla sér af meðferð fjárlaganna í ráðuneytinu. Ég leyfi mér að vekja athygli ráðherrans á því að á árunum 1999–2002 voru tekjur ríkissjóðs 38 milljarðar kr. og gjöldin 90 millj. kr. hærri en fjárlög gerðu ráð fyrir. Við erum þarna að tala um ráðherrafjárlög.

Ég hef ekki á móti því að vitlaus fjárlög séu leiðrétt. Þau hafa reynst mjög vitlaus. Það hefur skort verulega fjármagn til rekstrar einstakra stofnana og svo framvegis og þannig verið nauðsynlegt að leiðrétta þau. En það á að gera á þinginu. Hefur eitthvað gerst í fjármálaráðuneytinu eða hefur ráðherra farið á námskeið í áreiðanleika fjárlagagerðar sem sýnt gæti fram á aukinn trúverðugleika þeirrar vinnu sem í hönd fer varðandi fjárlagagerðina í ljósi síðustu ára þar sem fátt eitt hefur staðist nema skerðingin á kjörum þeirra sem lægra eru settir? Gæti hæstv. ráðherra upplýst um hver niðurstaða fjárlaganna síðastliðin fimm ár yrði ef sala ríkiseigna væri tekin út?