131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[13:30]

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Einkennisorð fjárlagafrumvarps fyrir árið 2005 eru fyrst og fremst traust fjármálastjórn. Sá stöðugleiki sem ríkt hefur í efnahagsmálum og góð stjórn ríkisfjármála, undir forustu Sjálfstæðisflokksins, mun halda áfram út þetta kjörtímabil í samstarfi núverandi stjórnarflokka. Ríkisstjórnin mun leggja mikið á sig til þess að verja stöðugleikann.

Hæstv. fjármálaráðherra Geir H. Haarde leggur fram fjárlagafrumvarp sem lýsir stefnu ríkisstjórnarinnar 2005–2008. Þar er því lýst hvernig ríkisstjórnin mun með styrkum hætti leiða þjóðarbúskapinn í gegnum þau boðaföll sem óneitanlega geta myndast með miklum framkvæmdum á skömmum tíma. Stefnumörkun til lengri tíma styrkir trúverðugleika efnahagsstefnunnar og stuðlar að stöðugleika í efnahagslífinu. Þanþol fjármálastjórnar verður að vera býsna gott þegar á reynir vegna vaxandi frelsis á fjármálamörkuðum auk þess að mestu framkvæmdir Íslandssögunnar standa yfir á Austurlandi.

Ríkisstjórnin mun hér eftir sem hingað til leggja mikið á sig til að verja stöðugleikann. Stöðugleikinn er mikilvægastur fyrir þjóðfélagsþegnana og fyrirtækin í landinu þegar til lengdar lætur. Stöðugleiki og aftur stöðugleiki. Íslendingar hafa vanist stöðugleikanum á undanförnum árum. Fyrir 20 árum leyfðu menn sér ekki að vona að sú tíð gæti komið á Íslandi að stöðugleiki gæti haldist í íslensku efnahagslífi, m.a. vegna þess hve háð við erum duttlungum náttúrunnar, hvað þá að við gætum kveðið niður verðbólgudrauginn.

Það var svo fyrir 13 árum, með aðkomu Sjálfstæðisflokksins og samstarfsflokka hans, undir forustu Davíðs Oddssonar, að menn lögðu í það mikla verk að takast á við efnahagsmálin af alvöru. Með öflugri og ábyrgri aðkomu aðila vinnumarkaðarins tókst að færa Íslendinga í framvarðasveit þeirra landa sem það gera og færa þar með landsmönnum bestu kjör sem þekkjast.

Ég ætla, hæstv. forseti, einkum að fjalla um lífeyrisskuldbindingar ríkisins, skattalækkanir og fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga.

Svigrúmið sem skapast hefur með bættri afkomu ríkissjóðs hefur að stærstum hluta verið notað til að borga niður skuldir ríkissjóðs annars vegar en hins vegar til að búa í haginn fyrir framtíðina, eins og fjármálaráðherra gjarnan orðar það, þ.e. að gjaldfæra fyrir lífeyrisskuldbindingum. Ekki þarf að hafa mörg orð um hve skynsamlegt er að greiða niður skuldir og nota peningana í annað en vaxtagreiðslur. Vaxtagreiðslur ríkissjóðs voru á tímabili, að því er mig minnir, jafnháar framlögum til menntamála. Þar hefur orðið mikill viðsnúningur. Það að greiða inn á framtíðarskuldbindingar vegna lífeyrisgreiðslna er ótvírætt afar skynsamlegt þegar horft er til þeirra sem erfa landið. Staða okkar að þessu leyti er mikið betri en víðast hvar annars staðar. Lífeyrissjóðakerfið hér á landi er mun öflugra en í nálægum löndum. Hér er það að verulegu leyti byggt á sjóðssöfnun en ekki gegnumstreymi. Þar með þarf ekki að grípa til sérstakra ráðstafana hér á landi til að mæta hlutfallslegri fjölgun ellilífeyrisþega, hvorki hækkun skatta né skerðingu lífeyrisréttinda.

Ásmundur Stefánsson, ríkissáttasemjari og fyrrum forseti ASÍ, flutti athyglisvert erindi á morgunverðarfundi Tryggingastofnunar ríkisins í síðustu viku, sem hann nefndi „Aldraðir – yfirstétt framtíðarinnar“. Fáir þekkja lífeyrissjóðakerfið og sögu þess betur en Ásmundur Stefánsson. Í upphafi gerði hann samanburð við Norðurlöndin. Síðan kom hann að hinni almennu skoðun í umræðunni. Ég vil, með leyfi forseta, vitna í erindi hans, þar sem hann segir:

„Það er almenn, viðtekin skoðun í umræðum um aldraða í samfélagi framtíðarinnar, að við stöndum frammi fyrir óyfirstíganlegu vandamáli. Helstu rök eru þessi:

Öldruðum fjölgar hratt.

Þeir virku á vinnumarkaði hafa sífellt fyrir fleirum að sjá.

Heilbrigðiskerfið verður stöðugt dýrara.

Fjárhagur hins opinbera versnar stig af stigi.

Unga fólkið mun ekki standa undir kostnaði við umönnun aldraðra.

Aldraðir munu búa við fátækt og fá ekki viðunandi hjúkrunarþjónustu.“

Hæstv. forseti. Hér er staðan önnur. Fólk á vinnumarkaði axlar fyrir fram ábyrgð á elliárunum. Um það hafa aðilar vinnumarkaðarins samið. Sjóðssöfnun og ávöxtun hennar mun standa undir launum aldraðra í framtíðinni.

Ásmundur horfði til ársins 2040 og komst að þeirri niðurstöðu að lífeyrisþegar framtíðarinnar mundu almennt standa undir framfærslu sinni og standa straum af þeirri opinberu þjónustu sem þeir munu nýta mest með skattgreiðslum.

Ég vil fá að vitna áfram í erindi Ásmundar Stefánssonar. Hann segir, með leyfi forseta:

„Lífeyrisþegar framtíðarinnar munu almennt sjálfir standa straum af framfærslu sinni og með skattgreiðslum munu þeir sem hópur gera meira en standa undir þeirri opinberu þjónustu sem þeir nýta mest. Án úttektar á því hvernig aðrir þjónustuþættir hins opinbera nýtast ellilífeyrisþegum verður ekki einhlítt fullyrt um það hvort þeir muni greiða meira til hins opinbera en það kostar til þeirra vegna. Niðurstaðan að ofan er vísbending um að svo verði. Ellilífeyrisþegar framtíðarinnar munu ekki verða samfélaginu byrði heldur þvert á móti. Þeir munu hafa stöðugar tekjur nánast óháð dyntum stjórnvalda á hverjum tíma og óháð hagsveiflum. Framfærsla þeirra verður ekki vandamál í hörðu árferði. Því verður öfugt farið. Ellilífeyrisþegar munu viðhalda eftirspurn á samdráttartímum með reglubundnum tekjum sínum. Þeim mun líkt farið og jarðeigendum miðalda sem lifðu á jarðarrentunni.“

Hæstv. forseti. Þetta er staðan þegar horft er til lífeyrissjóðakerfis okkar. Hún segir þá sögu að menn hafa haft framsýni til lengri framtíðar þegar aðilar vinnumarkaðarins voru að semja um laun og kjör.

Fyrir nokkrum árum var tekið til við að breyta lífeyriskerfi opinberra starfsmanna. Nú er LSR skipt upp í A-deild sem er nokkuð sambærileg við hið almenna lífeyrissjóðakerfi og B-deild sem er hið gamla kerfi hjá ríkisstarfsmönnum.

Ríkisstjórnin tók þá ákvörðun fyrir nokkrum árum að hefja innborganir í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins til þess að takast á við framtíðarskuldbindingar sjóðsins. Hefði ekki hefði verið gripið til þessara ráðstafana hefði fé B-deildar lífeyrissjóðsins verið uppurið árið 2014 og þá hefði reynt á bakábyrgð ríkissjóðs til greiðslu eftirlaunanna. Á árunum 1999–2005 námu greiðslur ríkissjóðs með þessum hætti 80 milljörðum kr. með vöxtum og verðbótum. Sjóðurinn hefur því styrkst verulega og mun geta staðið undir greiðslum, a.m.k. til ársins 2025. Þá mun ávöxtun innborgana fara að skila sér verulega og vega á móti auknum skuldbindingum sjóðsins. Áfallnar lífeyrissjóðsskuldbindingar eru mjög háar. Þær eru taldar um 183 milljarðar kr. um þetta leyti.

Hæstv. forseti. Við höfum horft mjög vel fram á veginn. Með því að færa greiðslur úr ríkissjóði inn í Lífeyrissjóðs ríkisstarfsmanna erum við að takast á við framtíðina og þá sem taka við af okkur.

Hæstv. forseti. Stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum kallar á ýtrasta aðhald í almennum rekstri, bæði launamálum og öðrum rekstrarútgjöldum. Stefna ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum er einnig forsenda fyrir því að skattalækkunaráform nái fram að ganga. Fyrsti áfangi í þessari atrennu burt séð frá því sem áður hefur náðst fram er 1% lækkun tekjuskatts á næsta ári. Stefnt er að því að á árinu 2006 verði tekjuskattur aftur lækkaður, auk þess sem eignarskattur verður felldur niður það ár. Á árinu 2007 kemur til síðasti hluti lækkunarinnar og verður á því ári búið að lækka tekjuskatt um 4%.

Með því að lækka tekjuskattinn er verið að ná beint til hins vinnandi manns. Skattleysismörkin hækka einnig með þessu móti. Þau verða þannig komin í um 80 þús. kr. árið 2007. Við þetta bætist að trúlega verða barnabætur einnig hækkaðar á því ári.

Einnig er mikilvægt að það gangi eftir að lækka virðisaukaskatt af matvælum. Hinir tekjulægri og barnafólk eyða hlutfallslega meiri upphæðum af ráðstöfunarfé sínu í matarinnkaup en þeir sem hafa hærri tekjur. Því er það mjög ákjósanleg leið að bæta kjör þeirra sem lægri hafa launin að lækka virðisaukaskatt af matvælum.

Það er mjög skýr pólitísk áhersla okkar sjálfstæðismanna að lækka skattálögur. Við treystum heimilunum í landinu mun betur til þess að ráðstafa sjálfsaflafé sínu með skynsamlegri hætti en ríkinu. Það á því ávallt að vera markmið okkar að beita ýtrasta aðhaldi í ríkisrekstrinum og hafa skatta sem lægsta. Það að birta núna áform um skattalækkanir til næstu ára er liður í að skapa stöðugt umhverfi í efnahagsmálum og draga úr óvissu. Það er gömul saga og ný að skattalækkanir eru olía sem smyr hjól efnahagslífsins. Við höfum einnig reynslu af því að þegar tekjuskattur á fyrirtæki var lækkaður þá skilaði hann hærri upphæðum í ríkissjóð heldur en hann hafði áður gert.

Hæstv. forseti. Fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga hafa verið nokkuð til umræðu að undanförnu. Um þessar mundir fer fram átak til eflingar sveitarstjórnarstiginu. Í því felst sú stefnumörkun að flytja beri í auknum mæli verkefni frá ríkinu til sveitarfélaganna. Sú stefna gerir auknar kröfur til sveitarfélaga um ábyrgan rekstur. Ábyrgðin gildir um rekstur einstakra málaflokka en ekki síður í vaxandi mæli gagnvart efnahagsstjórn.

Ljóst er að með flutningi á fleiri verkefnum hins opinbera til sveitarfélaganna knýr það sveitarfélögin til meiri ábyrgðar í rekstri. Aðhald í opinberum rekstri, hvort sem ríki eða sveitarfélög veita þjónustuna, verður alltaf að vera til staðar.

Að störfum eru nefndir ríkis og sveitarfélaga sem eiga að vinna að eflingu sveitarstjórnarstigsins. Nefndirnar fjalla um yfirfærslu verkefna, tekjustofna sveitarfélaga og um sameiningu sveitarfélaga. Á dögunum var undirritað samkomulag fjármálaráðherra og félagsmálaráðherra annars vegar og sveitarfélaganna hins vegar.

Fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga eru stöðugt til umræðu. Fundir forráðamanna Sambands íslenskra sveitarfélaga, fjármálaráðherra og félagsmálaráðherra eru fastir liðir. Einnig er skemmst að minnast tekjustofnanefndarinnar svokölluðu sem skilaði niðurstöðum sínum í nóvember 2000 og jöfnunarsjóðsnefndinni sem skilaði niðurstöðum sínum í október 2002.

Sameiginleg viljayfirlýsing hefur verið gefin út til leiðbeiningar fyrir tekjustofnanefndina sem nú er starfandi, um það í hvaða farveg hennar starf mun fara. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að haldið verði áfram að færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga og í upphafi verði lögð sérstök áhersla á verkefni á sviði velferðarmála.

Í öðru lagi er hvatt til að lagt verði mat á fjárhagsleg áhrif tillagna um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og áætlun gerð um gildistöku þeirra breytinga. Jafnhliða verði tekin afstaða til mismunandi leiða til þess að tryggja sveitarfélögunum nægilegt fjármagn til að sinna nýjum verkefnum.

Í þriðja lagi mun tekjustofnanefnd fjalla um horfur í fjármálum sveitarfélaga með sérstakri áherslu á að skoða þau sveitarfélög og svæði sem standa höllum fæti fjárhagslega og meta ástæður fyrir þeim vanda og gera tillögur sem leitt geti til úrbóta. Í þeirri vinnu verði einkum tekin afstaða til eftirfarandi atriða:

1. Hvort rýmka beri heimildir sveitarfélaga til nýtingar núverandi tekjustofna.

2. Hvort til álita komi að marka sveitarfélögunum nýja tekjustofna.

3. Hvort ójafnvægis gæti í tekjumöguleikum sveitarfélaga og hugsanlegrar breytingar á jöfnunarkerfi í því sambandi.

4. Hvort Jöfnunarsjóði sveitarfélaga verði markaðir nýir tekjustofnar m.a. í tengslum við fækkun undanþágna frá fasteignaskatti.

Allt eru þetta atriði sem verða til nánari skoðunar, hæstv. forseti, en ég vil einnig nefna að í samkomulaginu kemur fram að í tengslum við fækkun og eflingu sveitarfélaga getur skapast aukin þörf fyrir fjármagn í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga til að aðstoða einstök sveitarfélög við sameiningu í samræmi við reglur sjóðsins. Þeirri fjárþörf þarf þá sérstaklega að mæta hjá jöfnunarsjóðnum og hugsanlega með framlagi úr ríkissjóði á árunum 2005–2009 og gæti það komið inn hjá okkur í umræðum um fjárlagafrumvarpið.

Í síbreytilegu þjóðfélagi verður auðvitað stöðugt að horfa á tekjur, rekstur og afkomu sveitarfélaganna. Nú er það svo að ónýttir tekjustofnar sveitarfélaganna eru um 1,2 milljarðar sem sveitarfélög sem vel standa hafa ákveðið að nýta ekki. Önnur sveitarfélög eru hins vegar verr haldin og hjá þeim verður auðvitað bæði að skoða rekstur og tekjumöguleika til þess að koma í veg fyrir viðvarandi hallarekstur.

Það sem komið er í vinnu verkefnisstjórnar um eflingu sveitarstjórnarstigsins er ljóst að horft verði til þess að flytja velferðarmálin til sveitarfélaganna og þá væntanlega fyrst og fremst málefni fatlaðra og aldraðra. Í þeim sveitarfélögum þar sem það hefur verið reynt hefur fengist mjög góð reynsla af því og nefni ég þá Akureyri, Hornafjörð og Þingeyjarsýslur í því sambandi.

Hæstv. forseti. Ég ákvað að fara yfir þetta þar sem umræða hefur skapast hér um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga og það mun væntanlega verða verkefni okkar í fjárlaganefnd nú á haustdögum. Það verður einnig verkefni okkar í fjárlaganefnd að fara ofan í þær forsendur sem fjárlagafrumvarpið byggist á. Við þurfum öll að leggjast á eitt um að auka festu í fjármálum ríkisins. Stofnanir þurfa að bæta áætlanagerð sína og taka reksturinn fastari tökum og vil ég þá einnig nefna að fleiri verkefni frá stofnunum mega örugglega fara út á einkamarkaðinn og verða leidd þar.

Að síðustu vil ég fagna því að ákveðið hefur verið að setja á stofn ráðherranefnd til að endurskoða stofnanakerfi ríkisins. Þar má víða taka til hendinni og væntum við góðrar niðurstöðu af því starfi.

Hæstv. forseti. Ég vil svo að lokum óska góðs samstarfs í fjárlaganefnd við aðra nefndarmenn og ráðuneyti og stofnanir ríkisins.