131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[15:51]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það hefur verið forvitnilegt að fylgjast með umræðum í dag. Þær hafa verið með nokkuð svipuðu sniði kannski og hið fyrra ár sem ég var við þessa umræðu þótt ég verði að segja að maður sakni þess sárt að hafa ekki hér í salnum hv. þm. Einar Odd Kristjánsson, varaformann fjárlaganefndar. Hann hefur fram að þessu verið einn þingmanna stjórnarliðsins til að tala hér nokkuð fyrir aðhaldi og reglufestu í ríkisfjármálunum. Ég verð að segja, þegar litið er yfir þróun útgjalda ríkissjóðs, að ekki væri vanþörf á því að ekki bara hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson væri hér í salnum, heldur að fleiri þingmenn stjórnarliðsins boðuðu slíkan boðskap við þessa umræðu um nauðsyn aðhalds og ráðdeildar en raun ber vitni. Sá fagurgali og sú glansmynd sem hér er upp dregin er auðvitað á ákveðinn hátt óábyrg skilaboð frá stjórnvöldum út í samfélagið, til fjölmiðla og til almennings. Hún á sér í fyrsta lagi ekki stoð í veruleikanum. Hins vegar er á tímum sem þessum þegar þensluskeið er, og sérstaklega er fram undan, nauðsyn að stjórnvöldin, að ég ekki tali um hæstv. fjármálaráðherra, séu talsmenn aðhalds, ráðdeildar og reglufestu í ríkisrekstrinum og hafi uppi áminningarorð um það að menn haldi þar áætlanir, að þar sé fjárlögum fylgt, fjárlögum hlítt sem lög væru.

Það er nokkuð einkennileg upplifun að sjá hér í opinberri umræðu hæstv. fjármálaráðherra, Geir Haarde, aftur og aftur ekki vera talsmann aðhalds og reglufestu í ríkisrekstrinum. Þvert á móti heldur hann því fram að hér sé allt í himnalagi, góðærið svo að segja í hámarki og að smjör drjúpi af hverju strái. Hvaða skilaboð eru það út í samfélagið, til einstaklinganna og fyrirtækjanna? Eru það skilaboð um að fólk eigi að gæta aðhalds núna í þenslunni? Að við þurfum að gæta þess að ráðast ekki í offjárfestingar eða það að skuldsetja okkur um ekki of? Til þess að taka ekki kollsteypu eins og tekin var eftir svipaðan söng hjá hæstv. fjármálaráðherra Geir Haarde rétt um aldamótin síðustu þegar gengið allt í einu kollsteyptist þrátt fyrir allan sönginn um góðærið og að allt væri í himnalagi í ríkisfjármálunum, þegar verðbólgan rauk hér upp eitt árið í nærfellt 10% með tilheyrandi hækkun á skuldum allra heimila í landinu?

Virðulegur forseti. Nei, það er einkennilegt að sjá Ríkisendurskoðun rísa á fætur í sumar og segja einmitt það sem við, fulltrúar Samfylkingar í fjárlaganefnd, höfum verið að segja undanfarna daga, að það sé langur vegur frá glansmyndum eða fjárlagafrumvörpum hæstv. fjármálaráðherra til niðurstöðunnar í ríkisreikningi. Þegar ríkisendurskoðandi kemur með aðvörunarorð og bendir m.a. á að 120 af 500 fjárlagaliðum séu verulega fram úr heimildum sínum um síðustu áramót rís hæstv. fjármálaráðherra ekki upp og þakkar Ríkisendurskoðun góðar ábendingar. Hann áminnir ekki forstöðumenn ríkisstofnana um það að fjárlög skuli halda. Nei, hann ver framúrkeyrsluna. Hann fullyrðir hér æ ofan í æ að allt sé í lagi og að ekkert sé að.

Auðvitað er það ekki í lagi þegar jafnvel stofnanir eins og sjálft Alþingi Íslendinga, jafnvel forsætisráðuneytið og fjármálaráðuneytið eru oftar en ekki á sl. fimm árum með aukafjárveitingar á fjáraukalögum. Auðvitað er slík stjórn ekki í lagi.

Það má til sanns vegar færa í málflutningi hæstv. fjármálaráðherra að ófyrirséð útgjöld geta komið upp. Til þess eru fjáraukalög að mæta slíkum útgjöldum. Að þau skipti hins vegar milljörðum á milljarða ofan nær auðvitað engu lagi. Að mismunurinn á afkomu ríkissjóðs sé að meðaltali yfir ákveðin tímabil yfir 20 milljarðar kr. frá frumvarpi til fjárlaga, að niðurstöðu ríkisreiknings, og að útgjöldin séu nærfellt 30 milljörðum hærri nær ekki nokkurri átt. Það kunna að vera einstök atriði sem hæstv. fjármálaráðherrann getur borið fyrir sig í því. Sem eðlilegt er í slíkri framúrkeyrslu hlýtur eitthvað að vera sem telja má eðlilegt. En slíkar skekkjur í rekstri ríkissjóðs eru auðvitað algjörlega óþolandi. Það þýðir ekki fyrir hæstv. fjármálaráðherra að tala hér um að þetta séu bara óreglulegir liðir. Hversu óreglulegir eru þessir liðir? Hæstv. fjármálaráðherra hefur talað um að ósanngjarnt sé að líta til afskrifta skattkrafna því þær séu óreglulegir liðir. Þessar sömu skatttekjur hefur hann engu að síður tekjufært undir reglulegum liðum. Það borgaði bara aldrei neinn þá álögðu skatta. Eigum við þá að horfa á töluna sem var tekjufærð en aldrei borguð en líta alveg fram hjá því að það varð að afskrifa þessar áætlanir um skatta einhverra sem ekki urðu gjaldfærðir þegar upp var staðið? Nei, auðvitað verður að horfa á það hvað kemur inn í kassann og hvað fer út úr honum.

Í þessu efni ætti hæstv. fjármálaráðherra auðvitað að vera talsmaður aðhalds og aga og halda hér þær ræður sem stjórnarandstaðan heldur um það að menn eigi að fylgja fjárlögum og um það að ekki sé viðeigandi að yfir 100 af 500 fjárlagaliðum séu langt fram úr við síðustu áramót. Hann ætti ekki að tala hér með þeim óábyrga hætti sem hann hefur gert og í raun og veru ýta undir neyslu og fjárfestingar úti um allt samfélag með því að draga hér upp glansmyndir á þeim tíma þegar mestrar er þörf aðhalds og aðgætni í fjármálum heimilanna, fyrirtækjanna og ekki síst ríkissjóðs Íslands.

Ég vil, virðulegur forseti, halda hér til haga tveimur atriðum sem ég fjallaði um fyrir ári við umræður um fjárlögin sem ég held að við þurfum að færa til betri vegar um verklag okkar.

Annað er að það er skoðun mín að við þurfum hér á Alþingi að fjalla um rammana sem úthlutað er til málaflokkanna á vorþingi á ári hverju þannig að þingið hafi lagt meginlínurnar um fjárlögin með pólitískri umræðu á vorþingi og þannig tekið þátt í því að móta þessar meginlínur, en ekki eins og nú er að taka einfaldlega við því sem næst fullsköpuðu frumvarpi 1. október og hafa í sjálfu sér ekki annað hlutverk í því en að auka nokkuð á útgjöldin, eins og reynslan hefur verið hér í meðförum Alþingis á fjárlagafrumvarpinu eftir því sem ég best veit hin síðustu ár. Og ég tel að ef þingið tekur ákvörðunina um rammana á vorþingi þá hljóti þingið að vera nokkuð bundið af þeim römmum þegar fjárlögin koma síðan inn að hausti og hafi ekki þær heimildir og kannski ekki þann vilja að auka í útgjöldin eins og verið hefur og það yrði þess vegna til farsældar fyrir alla fjárlagagerðina og framkvæmd fjárlaganna að breyta verklaginu með þessum hætti.

Sömuleiðis vil ég halda því til haga að mér virðist skorta mjög á langtímaáætlanagerð hjá ríkissjóði. Sveitarfélögunum hefur verið gert að gera þriggja ára áætlanir um framkvæmdir og rekstur með mjög nákvæmum hætti. Það þekkja þeir sem starfað hafa í sveitarstjórnum að það er gríðarlega öflugt stjórntæki í fjármálum sveitarfélaganna.

Hér er þessi langtímaáætlanagerð af mjög skornum skammti og ég hygg að það sé (Forseti hringir.) ein af ástæðunum fyrir því að svo illa hefur til tekist við að ná tökum á ríkisútgjöldunum að menn takast ekki á við það að hausti bara fyrir komandi ár, menn verða að fara að horfa til lengri tíma.

En um málefni öryrkja og öryrkjasamninginn verð ég að fá að fjalla um síðar í umræðunni, virðulegur forseti.