131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[18:06]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Við teljum mjög mikilvægt að halda vaktþjónustunni. Það er nútímaþjónusta og þægilegt fyrir fólk sem er í vinnu að geta farið eftir kl. 4 og sótt þjónustu heilsugæslunnar. Það hefur sýnt sig að komum þangað hefur fjölgað. Reyndar hefur komum á læknavaktina líka fjölgað, sem er athyglisvert. Maður hélt að það mundi færast eitthvað á milli. En hins vegar er ánægjulegt að geta sagt frá því að komum á bráðamóttökuna á Landspítalanum hefur ekki fjölgað að sama skapi. Það er einmitt það sem við viljum, að fólk sæki frumþjónustuna fyrst en sæki því næst inn á önnur stig heilbrigðisþjónustunnar þegar frumþjónustunni sleppir. Þetta er því jákvæð þróun.

Að vísu hefur bakþjónustan á heilsugæslunni eitthvað dregist saman en það kann að vera að fólk flytji viðtalstíma frá deginum og yfir á síðdegið eftir að fólk hefur lokið vinnu. En við leggjum á það mikla áherslu að halda þessari þjónustu. Við höfum reyndar gert ráðstafanir til þess til áramóta að halda henni. Við vonum að á næsta ári náist að halda henni í því formi sem hún hefur verið. Við leggjum á það mikla áherslu og teljum það bætta þjónustu við fólkið.