131. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2004.

afleiðingar kennaraverkfallsins fyrir þjóðlífið.

[13:32]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár til að ræða við hæstv. forsætisráðherra um þá alvarlegu stöðu sem ég tel að komin sé upp í verkfalli grunnskólakennara. Verkfallið hefur nú staðið á þriðju viku og ég fæ ekki séð að nokkur sé lausn í sjónmáli. Það hefur áhrif á 45 þúsund grunnskólabörn, ríflega 30 þúsund fjölskyldur eiga börn í grunnskólum þannig að segja má að nærfellt þriðjungur allra heimila í landinu verði með einhverjum hætti fyrir barðinu á verkfallinu. Þá eru ótaldir þeir 4.300 kennarar sem standa í verkfallinu og fjölskyldur þeirra. En mesta rótið er auðvitað hjá börnunum sjálfum. Það gildir um þau sem hafa þurft sérstaka umönnun í skólunum en það gildir ekki síður um þau sem eiga með einhverjum hætti erfitt fyrir og þola ekki það uppnám í daglegu lífi sem fylgir agaleysinu og aðhaldsleysinu þegar skólinn, miðpunktur tilverunnar hjá sumum, er allt í einu horfinn úr lífinu. Sum þessara barna sem eiga minnst athvarf utan skólans eru í hættu og langt verkfall er því miður líklegt til að ýta undir brottfall þrátt fyrir skólaskyldu í grunnskólunum.

Hæstv. forsætisráðherra sagði í stefnuræðu á dögunum að ríkisstjórninni kæmi málið ekki við. Ég verð að segja að það voru vægast sagt ákaflega óheppileg ummæli og ummæli hæstv. forsætisráðherra eru ekki líkleg til að greiða fyrir lausn verkfallsins. Þau voru fjarri því að hafa þann ábyrga tón sem vænta mátti frá manni í hans stöðu. Ríkisstjórnin getur ekki verið stikkfrí og hún getur ekki sagt að kennaraverkfallið komi sér ekki við. Ríkisstjórnin hefur reyndar margsinnis komið að lausn kjaradeilna þar sem hún hefur ekki átt beina aðild að og það nægir að vísa til síðustu samninga á almennum vinnumarkaði þar sem aðkoma ríkisins réð að sjálfsögðu ákaflega miklu um lyktir málsins.

Frá mínum bæjardyrum séð sýnist mér ríkisstjórnin bera þríþætta ábyrgð. Í fyrsta lagi hefur hún sjálf gert samninga við sína eigin kennara sem er fullkomlega eðlilegt að grunnskólakennarar noti sem viðmiðun við sín eigin kjör. Gleymum því ekki að þegar grunnskólinn var færður yfir til sveitarfélaganna í ágúst 1996 voru byrjunarlaun þau sömu í framhaldsskólum og grunnskólum. Eftir síðustu samninga ríkisins eru byrjendalaun mun lægri í grunnskóla og munurinn á heildarlaunum er orðinn verulegur. Ríkisstjórnin getur ekki fært sjálfa sig undan þeirri ábyrgð að hún hefur skapað þetta viðmið.

Í öðru lagi hefur ríkisstjórnin líka þrengt að fjárhagsstöðu sveitarfélaganna. Ég man ekki betur en það hafi verið sjálfur hæstv. núverandi félagsmálaráðherra sem benti á það þegar hann var varaformaður Sambands ísl. sveitarfélaga að vegna skattkerfisbreytinga sem þessi ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir hafi sveitarfélögin tapað rösklega milljarði á ári úr aski sínum og það hefur auðvitað skert getu þeirra til að ná samningi sem báðir aðilar gætu sæst á. Í þessu felst ef til vill stærsti hluti ábyrgðar ríkisstjórnarinnar.

Í þriðja lagi hafa kröfurnar til grunnskólans líka breyst verulega frá því að hann var færður yfir til sveitarfélaganna. Sveitarfélögin eiga reyndar lof skilið fyrir það að þau hafa svarað þessum kröfum með því að hækka þjónustustigið en við berum hins vegar öll samfélagslega ábyrgð á þróun grunnskólans og það er alls ekki of í lagt að ætla að þess vegna sé kallað eftir því að ríkið axli líka hluta af þessum viðbótarkostnaði.

Í þeirri erfiðu deilu gagnvart þessu þunga verkfalli berum við öll samfélagslega ábyrgð, Alþingi, sveitarfélögin og kennararnir. En ríkisstjórnin ber líka samfélagslega ábyrgð og hún verður að standa undir þeirri ábyrgð. Ríkisstjórnin hefur margsinnis komið með jákvæðum hætti að kjarasamningum sem hún á ekki beina aðild að og það hlýtur jafnt yfir alla að ganga í því efni. Í ljósi þeirrar erfiðu stöðu sem verkfallið er komið í er fullkomlega eðlilegt að við á hinu háa Alþingi göngum eftir afstöðu ríkisins.

Ég vil því leyfa mér að ljúka ræðu minni með því að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hefur ríkisstjórnin haft samband við deiluaðilana til að kanna hvort ríkisvaldið geti með einhverjum hætti aðstoðað eða auðveldað við að finna lausn á deilunni svipað og ríkið hefur margsinnis gert í erfiðum kjaradeilum?