131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

fjárhagur sveitarfélaganna og tekjuleg samskipti þeirra og ríkisins.

[10:48]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar endurtaka í sífellu þessa dagana, einkum í tengslum við umræðuna um kjaramál kennara í grunnskólunum, að fjármál sveitarfélaganna séu ekki sérstakur vandi ríkisvaldsins. Það hefur komið skýrt og ítrekað fram í viðtölum við sveitarstjórnarmenn að þeir telja mjög margir að sveitarfélögin hafi borið meiri kostnað af yfirtökunni á grunnskólunum á sínum tíma en ríkið samdi um við yfirtöku verkefnisins. Sveitarstjórnarmenn hafa einnig margbent á með rökum að margar breytingar á lögum og ný lög t.d. um umhverfismál og fleira hafi kostað sveitarfélögin veruleg fjárútlát umfram það sem gert er ráð fyrir við setningu viðkomandi laga. Oft sést þessi kostnaður ekki fyrr en síðar t.d. með útfærslu reglugerða eða ýmissa framkvæmda laga og verkefna. Mörg sveitarfélög hafa verið í hafnarbótum í góðri trú um að slíkt væri nauðsynlegt til þess að tryggja áframhaldandi útgerð og fiskvinnslu í sjávarplássunum. Til þess að taka dæmi hér um er best að fara sem styst frá Reykjavík svo að fjarlægðin valdi ráðherranum ekki vandræðum. Í Sandgerði töldu menn t.d. að nauðsynlegt væri að lagfæra höfnina svo þar yrði hægt að landa bæði fiski til bræðslu og vinnslu af stærri skipum og tryggja rekstur bæði bræðslu og frystihúss.

Þegar þessar ákvarðanir voru teknar voru 12 þúsund þorskígildi skráð á fyrirtæki í Sandgerði í aflamarkskerfinu. Kvótinn fór með sölu fyrirtækjanna og fiskiskipa burt af staðnum og eftir sátu menn með tugmilljónaframkvæmdir í endurbótum hafnargarða og dýpkun, en aflagjöldin af kvótanum voru komin til annarra fyrirtækja og byggða. Ætli kvóti Sandgerðis sé ekki kominn núna niður fyrir 500 þorskígildi í dag.

Einnig má spyrja, og hefur verið vakin sérstök athygli á því m.a. í heimsóknum sveitarstjórnarmanna til fjárlaganefndar, hvaða kostnaður hafi lent á sveitarfélögunum við eyðingu refa og minka. Mörg fleiri verkefni mætti nefna til. Ég vil líka vekja athygli á því að hæstv. félagsmálaráðherra var nú rétt áðan að viðurkenna að ríkið hefði þurft að greiða marga milljarða til sveitarfélaganna á undanfönum árum umfram lagaskyldu. Hvað er verið að viðurkenna þar? Vandann vonandi.