131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

fjárhagur sveitarfélaganna og tekjuleg samskipti þeirra og ríkisins.

[10:53]

Hjálmar Árnason (F):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið skiptast stjórnsýsluverkefni milli ríkis og sveitarfélaga þannig að ríkið rekur um 70% verkefnanna en sveitarfélögin um 30%. Í nágrannalöndum okkar er þetta hlutfall öfugt. Með öðrum orðum er að miðstýring verkefna mun meiri á Íslandi en við þekkjum frá nágrannalöndum okkar.

Tilgangur og meginmarkmið þess verkefnis sem hæstv. félagsmálaráðherra vísaði til um eflingu sveitarstjórnarstigsins er einmitt að draga úr þeirri miðstýringu og auka nærþjónustuna með flutningi verkefna frá ríki til sveitarfélaga. Til þess að sveitarfélög hin minnstu séu í stakk búin til að taka við slíkum verkefnum kunna þau að þurfa að sameinast og að þeim undirbúningi hefur verið unnið mjög ötullega í sérstakri sameiningarnefnd og ríkir full samstaða innan þeirrar nefndar. Ég furða mig þess vegna á þeim neikvæða tóni sem háttvirtur upphafsmaður umræðunnar hér slær hvað varðar sameiningu sveitarfélaga. Ég trúi því hreinlega ekki að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon muni leggjast gegn sameiningu sveitarfélaga og hunsa þar hugsanlegan vilja sveitarfélaganna. Það er nefnilega þannig að það verður ekki Alþingi sem ákveður það, það gera ekki einstakar sveitarstjórnir heldur verður lýðræðisleg afgreiðsla þar sem meiri hluti íbúa í hverju sveitarfélagi fær að ráða. (SJS: Þetta snýst um peninga.)

Það snýst um peninga, kallar hv. þm. fram í og það er nákvæmlega meginatriðið í þessu og liggur fyrir sú viljayfirlýsing sem hv. þm. gerði svo lítið úr. Hún felur í sér hvað? Hún felur í sér að algjör sátt ríkir milli talsmanns sveitarfélaga, fjármálaráðuneytis og félagsmálaráðuneytis. Og hvað? Að fara yfir þann vanda sem kann að vera uppi hjá sveitarfélögunum og leggja fram tillögur til úrbóta. Hvað annað þarf að gera? Það er nákvæmlega það sem er verið að kalla eftir hér. Það er nákvæmlega það sem er verið að vinna að og um það ríkir fullkomin sátt á milli fjármálaráðuneytis, félagsmálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga. (Forseti hringir.) Þessi tortryggnistónn sem hv. þingmaður slær hér í upphafi (Forseti hringir.) á þess vegna enga stoð í raunveruleikanum.

(Forseti (BÁ): Forseti vill vekja athygli ræðumanna á því að einungis er gert ráð fyrir að hver ræðumaður tali í tvær mínútur.)