131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

fjárhagur sveitarfélaganna og tekjuleg samskipti þeirra og ríkisins.

[11:02]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Í raun þarf engan að undra að vaxandi tortryggni sé í samskiptum ríkis og sveitarfélaga af hálfu sveitarfélaganna gagnvart ríkinu. Við skulum líta á dæmi.

Í árslok 2002 var gert samkomulag á milli ríkis og sveitarfélaga um að kostnaðarmeta skyldi öll lagafrumvörp, reglugerðir og stjórnvaldsákvarðanir sem ríkið eða Alþingi samþykktu og legðu á sveitarfélögin. Ákveðið var að kostnaðarmeta breytingarnar með hliðsjón af áhrifunum á útgjöld sveitarfélaganna. Þetta átti að vera tilraunaverkefni og fyrst voru valin félagsmálaráðuneytið og umhverfisráðuneytið.

Sveitarfélögin hafa hvað eftir annað farið fram á að Alþingi og ráðuneyti samþykktu ekki stöðugt lög og sendu fyrirmæli sem hafa í för með sér kostnaðarauka fyrir sveitarfélögin án þess að þau hafi nokkuð um það að segja eða viti um það fyrir fram. Mér er ekki kunnugt um að nein lög hafi verið kostnaðarmetin frá því að samkomulagið var gert. Hæstv. ráðherra hristir höfuðið og ég hristi líka höfuðið yfir þessum vinnubrögðum.

Samkomulagið gilti aðeins um þessi tvö ráðuneyti. Það má vel vera að ráðherra geti tínt til eitt og eitt dæmi. Mér er samt ekki kunnugt um að nokkuð hafi verið gert.

Gert hafði verið ráð fyrir því að önnur ráðuneyti mundu fylgja í kjölfarið. Er að furða að sveitarfélögin séu tortryggin gagnvart ríkinu? Hvað þurfa þau að gera og hverju standa þau frammi fyrir? Halda menn að það sé gaman að þurfa að selja skólana eða íþróttahúsin?

Nú er komin fram ein viljayfirlýsingin enn sem segir: Við skulum skoða málin. Nei, við þurfum tímasettar aðgerðir fyrir sveitarfélögin.