131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[11:24]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það vil nú svo vel til að mér er kunnugt um það að þetta mál hefur þegar verið rætt í fjárlaganefnd þingsins, þetta stóra og mikilvæga mál. En út frá prinsippinu sem um er rætt er ágætt að það komi hér upp. Málið var ófyrirséð að því leyti til að það var talið að það yrði unnt að mæta þessu tekjutapi með öðrum hætti innan ramma þessa ágæta rekstrarfélags.

Síðan gekk það bara ekki upp þannig að það verður fyrir óvæntu tekjutapi að þessu leyti sem því miður er ekki unnt að bregðast við nema með þessum hætti. Það er nú skýringin. Auðvitað er þetta hins vegar ekki skemmtilegt mál þó að það sé ekki stórt og það skal ég fúslega viðurkenna að þetta er ekki sá liður í þessu fjáraukalagafrumvarpi sem ég hef mestar mætur á. En eigi að síður er á því lögmæt skýring og ég tel að það sé ekki óeðlilegt að það beri svona að eins og lagt er til í frumvarpinu.