131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[11:28]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Vissulega er það fagnaðarefni að tekist hafi að leiðrétta um 250 milljónir sem ég dreg þó í efa að sé nóg og við eigum eftir að fá frekari upplýsingar um það í meðferð fjáraukalaga nú í haust.

En ef hæstv. ráðherra áttar sig á hvernig á að vinna fjárlög, þessar upplýsingar lágu allar fyrir í fyrrahaust og þá átti þetta að koma inn en ekki valda því umróti sem það gerði í sumar þegar ljóst var að skólarnir gátu ekki tekið inn nemendur af því að þá vantaði fjármagn. Nákvæmlega sama og þeir sögðu í fyrrahaust. Þetta olli mikilli óvissu og enn hafa ekki allir nemendur fengið skólavist sem þeir höfðu gert ráð fyrir að fá og lög kveða á um.

Þetta er eitt dæmi um það hvernig verið er kerfisbundið að þrengja að framhaldsmenntun í landinu þó að hér sé lítillega verið að reyna að rétta hlut.

En við sjáum til við meðferð fjárlaga og fjáraukalaganna hvort ekki þurfi að koma meira inn til þess að mæta þeim raunveruleika sem við stöndum frammi fyrir.