131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[11:29]

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2004. Það er rétt að taka fram í upphafi að að mínu mati eru hér færri liðir og þar af leiðandi lægri upphæðir en oft áður sem vafa getur valdið að sé fyllilega í samræmi við lög um fjárreiður ríkisins. Ég mun víkja nánar að því á eftir. En það er ljóst að vegna þess mikla hagvaxtar sem við lifum nú, aukinnar einkaneyslu og mikils innflutnings og þar af leiðandi mikils viðskiptahalla, hafa tekjur ríkissjóðs aukist verulega fram yfir það sem gert var ráð fyrir í fjárlögum þessa árs. Raunar svo mikið að þar munar rúmlega 8 milljörðum kr. Útgjöld hafa síðan aukist um rúmlega 6 milljarða þannig að þarna er munur upp á tæplega 2 milljarða og bætir það hag ríkissjóðs.

Í þessu samhengi er hins vegar eðlilegt að velta upp hvort það sé ekki sérstakt umhugsunarefni hvernig áætlunargerð er háttað. Það kemur sem sagt í ljós að tekjur eru verulega vanáætlaðar sem skeikar ansi miklu á einstökum liðum og hlýtur það að vera umhugsunarefni sem ég ætla þó ekki að gera að umræðuefni í ræðu minni að þessu sinni. Það er hins vegar augljóst mál að aðstæður sem þessar kalla á þá hættu að slakað sé á aganum og festunni og menn láti þá ýmislegt fara inn í fjáraukalagafrumvarp sem ella yrði mikil tregða við þar sem tekjur hafa aukist svo mjög að það eru út af fyrir sig nægilegir fjármunir til staðar.

Við skulum heldur ekki gleyma því að þó að frumvarpið líti svona út núna er þetta ekki endanleg niðurstaða. Það hefur auðvitað oft og tíðum gerst að í meðförum Alþingis hafi bæst verulega við útgjöldin, það hefur að vísu oftast verið vegna óska ríkisstjórnarinnar sjálfrar að slíkt hefur komið fram. Við skulum vona að svo verði ekki að þessu sinni og að við fáum að sjá þann afgang sem frumvarpið gerir ráð fyrir halda sér allt til loka.

Herra forseti. Það er ástæða til að fjalla örlítið í byrjun um lög um fjárreiður ríkisins. Hæstv. ráðherra fullyrti í andsvari við mig áðan að nú væri þeim merka áfanga náð, og hugsanlega að hans mati eitthvað fyrr, að fyllilega sé farið eftir lögum um fjárreiður ríkisins varðandi framlagningu frumvarpsins. Ég vil byrja á því að rifja upp ákvæði í 33. gr. laga um fjárreiður ríkisins en þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Fjármálaráðherra er skylt að gera fjárlaganefnd Alþingis grein fyrir slíkum ófyrirséðum greiðslum strax og ákvörðun hefur verið tekin um þær og leita heimilda til þeirra með frumvarpi til fjáraukalaga.“

Vissulega er verið að leita heimilda til margs konar greiðslna í því frumvarpi sem hér liggur fyrir en ég verð að gera ráð fyrir því að engin greiðsla af þeim sem flokkast undir það að vera ófyrirséð að mati hæstv. ráðherra og þeirra ráðuneytismanna allra hafi verið greidd út því við fjárlaganefndarmenn könnumst ekki við það að hafa fengið eina einustu tilkynningu um slíkt, ekki eina einustu kynningu. En eins og þessi orð bera með sér er það afskaplega skýrt að það er skylt að gera slíkt og því hlýt ég að gera ráð fyrir að engar greiðslur hafi átt sér stað úr ríkissjóði af þeim sem við flokkum undir ófyrirséð, ella verður hæstv. ráðherra að rökstyðja hvernig á því standi að sú kynning sem þar á að fara fram hafi farið fram hjá okkur fjárlaganefndarmönnum.

Herra forseti. Það er 2. gr. laga um fjárreiður ríkisins sem skiptir kannski ekki síður máli og jafnvel meira máli. Það er sú grein sem fjallar um það sem á að vera í frumvarpi til fjáraukalaga, þ.e. hin margumræddu ófyrirséðu atvik, nýir kjarasamningar eða ný löggjöf og það er auðvitað yfirleitt skýrt með kjarasamningana og nýju lögin. Það eru þau ófyrirséðu sem eru kannski oft og tíðum matsatriði.

Í 2. mgr. 44. gr. um fjárreiður ríkisins segir, með leyfi forseta:

„Öðrum óskum“ — þ.e. en því sem ég nefndi áðan um ófyrirséð, kjarasamninga eða nýja löggjöf — „um breyttar heimildir til fjárráðstafana en getur í 1. mgr. skal jafnan vísað til ákvörðunar Alþingis í tengslum við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár.“

Herra forseti. Það er helst þarna sem mér sýnist enn einu sinni halla heldur á, þ.e. að það séu nokkur atriði í frumvarpinu sem eigi í raun og veru frekar heima í fjárlögum næsta árs vegna þess að þau falla ekki undir skilgreininguna í 1. mgr. Þetta er auðvitað deila sem hægt er að taka og menn geta verið með mismunandi skoðanir á en ég held að þetta séu atriði sem við í fjárlaganefnd hljótum að fara sérstaklega yfir og ég vænti þess að nokkur af þeim atriðum sem ég mun síðar í ræðu minni minnast á verði hugsanlega skýrð í þessari umræðu. Ef ekki munum við að sjálfsögðu fara fram á, fulltrúar Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd, að það komi mjög nákvæmar skýringar og yfirlit yfir það hvernig þessar ákvarðanir hafa verið teknar.

Það er fleira sem má minnast á í þessu sambandi og við getum tínt til fleiri atriði en ég mun hins vegar fyrst og fremst fjalla um það sem ég hef nefnt en vek sérstaka athygli á því að það er auðvitað mikið vald sem ríkisstjórnin fer með þegar hún leggur mat á hvað er ófyrirséð eða hvað á að vera í fjáraukalögum eða hvað á hreinlega að greiða út áður en fjáraukalög eru samþykkt. Vissulega gerir ríkisstjórnin það í skjóli þess að hún hefur meiri hluta á Alþingi og það er afar ólíklegt þegar slíkur meiri hluti er til staðar að hann gangi þvert gegn vilja slíkrar ríkisstjórnar.

Hins vegar er umhugsunarefni hvernig með það vald er farið og við verðum að átta okkur á því að þegar slíkar ákvarðanir eru teknar er í raun og veru verið að færa fjárveitingavaldið frá Alþingi til ríkisstjórnarinnar. Við því hefur verið varað og ég hef nokkrum sinnum áður vitnað í skýrslu sem Ríkisendurskoðun tók saman og gaf út í apríl árið 2001 þar sem fjallað er sérstaklega um þetta og færð rök fyrir því að raunverulega hafi ríkisstjórninni með þessum hætti oft og tíðum verið framsalað fjárveitingavaldið þó svo að það sé formlega í höndum Alþingis. Það er auðvitað nauðsynlegt að þetta sé rætt sérstaklega á þessum tímum þegar ýmsir telja fulla ástæðu, og að gefnu tilefni, til að ræða um stöðu Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu t.d. vegna þess að því miður virðist manni sú þróun eiga sér stað að framkvæmdarvaldið sé stöðugt að seilast lengra og Alþingi þurfi þess vegna að verja sig eins og kostur er. Það er ljóst að við munum eins og ég sagði áðan, fulltrúar Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd, fara sérstaklega yfir þessi mál og byggja þann varnarmúr sem við teljum nauðsynlegan og við getum gert í þeirri stöðu sem við erum, þ.e. að vera í minni hluta í nefndinni.

Við munum síðan að sjálfsögðu óska eftir ýmsum sundurliðunum og minnisblöðum varðandi einstaka þætti, sérstaklega þá þætti sem ekki verða fyllilega skýrðir í þeirri umræðu sem nú stendur yfir.

Herra forseti. Ég sagði að ég mundi stikla á stóru varðandi það frumvarp sem hér liggur fyrir og vekja athygli á nokkrum þáttum sem ég tel að séu að minnsta kosti á gráu svæði varðandi það að standast fjárreiðulögin.

Fyrst vil ég víkja að því sem getur vissulega fallið undir ófyrirséð en hlýtur að vekja umhugsun um það hvernig staðið er að undirbúningi útboða og tilboðsgagna á vegum hins opinbera. Það eru sérstaklega tvö tilvik sem vekja alveg sérstaka athygli og það er eðlilegt af því að við erum stödd í þessum sal að byrja á því sem snýr að því húsi sem við erum stödd í. Á fjárlögum voru áætlaðar 75 millj. kr. til þeirra framkvæmda sem hér fóru fram í sumar en nú er beðið um 44 millj. kr. til viðbótar, þ.e. tæplega 60% aukningu. Það er alveg ljóst að atvik höguðu því svo til í sumar að það er eðlilegt að þær hafi farið eitthvað fram úr áætlun því ekki var hægt að vinna verkið á þeim tíma sem áætlað var. En það kemur ekki fram í frumvarpinu hversu hátt hlutfallið er vegna þess og hversu hátt það er vegna þess að verkið sem slíkt fór fram úr áætlun. Það er nauðsynlegt að það verði upplýst vegna þess að ég trúi ekki öðru vegna þeirrar reynslu sem Alþingi hefur sjálft af framkvæmdum en að það hljóti að vera sérstaklega vandað til þessara útboða og þessarar áætlunargerðar vegna þess að því miður höfum við dæmi um það frá því á árum áður að ekki hafi verið nægilega vel að verki staðið hvað það varðar. Það er þess vegna alveg nauðsynlegt að við fáum sundurliðun á því hvernig þetta fór fram úr áætlun, þ.e. hvað er verkið sjálft og hvað er vegna þess að hér þurfti að halda fundi á þeim tíma sem áætlað var að unnið yrði. En það er auðvitað of hátt hlutfall að þarna skuli vera farið fram úr um tæplega 60% og það af sjálfu Alþingi Íslendinga.

Annað atriði sem fellur undir þetta er alveg eins og það verk sem hér um ræðir, þarft verk sem slíkt, og svo að enginn misskilningur verði vil ég taka fram að þó að ég sé að vekja athygli á ýmsum þáttum og ýmsum málum snertir það ekki mikilvægi málanna sem slíkra. Það er allt annar handleggur. Við erum fyrst og fremst að ræða um hvort þessir þættir eigi heima í fjáraukalögum og skýringar á því hvers vegna þeir eru í fjáraukalögunum.

Sá þáttur sem ég ætlaði að vekja athygli á er minningaþátturinn um Halldór Laxness á Gljúfrasteini. Það verður að segjast eins og er að þó að hér hafi verið farið nokkuð glannalega fram úr í áætlunum þá er þar að því er virðist enn glannalegar farið fram úr vegna þess að í fjárlögum er áætlað 2,5 millj. kr. til viðhalds vegna þessa liðar. Hér er hins vegar farið fram á 20 millj. kr. til viðbótar þannig að hér er verið að tala um allt að 800%. Hér virðist því vera farið verulega út fyrir það sem ætlað var eða að áætlunin hafi verið svona kolröng. Skýringar vantar a.m.k. í fjáraukalagafrumvarpið því að hér segir aðeins, með leyfi forseta: „Kostnaður við lagfæringar og endurbætur hefur orðið meiri en ráð var fyrir gert í upphafi.“ Það virðist vera nokkuð ljóst að hann hafi verið nokkuð meiri. Það sem vekur athygli er að liðurinn í fjárlögum er inni á viðhaldi en liðurinn í fjáraukalögum nú er hins vegar færður á stofnkostnað þannig að hér er nauðsynlegt að fá skýringar á hvað gerðist.

Herra forseti. Annað sem vekur athygli mína líka er það sem ég hef flokkað undir það sem fallið hefur niður við afgreiðslu fjárlaga. Nú skulum við ætla að þegar fjárlög eru afgreidd komi vilji Alþingis í ljós þannig að það sem ekki er í fjárlögum og ég tala nú ekki um eins og í nokkrum tilfellum það sem fellt hefur verið út úr frumvarpi til fjárlaga fram að afgreiðslu þar hljóti að koma fram vilji Alþingis. Þess vegna vekur það auðvitað mikla athygli þegar nokkrir liðir koma svo fram í fjáraukalagafrumvarpinu og ég nefni fyrst dæmi sem er undir menntamálaráðuneyti og er Snorrastofa, þarft verk og mikilvægt, en hér segir, með leyfi forseta:

„Í fjárlagafrumvarpi 2004 var gert ráð fyrir 6 millj. kr. stofnkostnaðarframlagi sem síðan var fellt niður með breytingartillögu við 2. umræðu“ — og ef ég man rétt var þessi breytingartillaga frá meiri hluta fjárlaganefndar. Síðan segir hér áfram, með leyfi forseta: — „vegna þess að samningur um verkefnið var runninn út. Þeir sem að Snorrastofu standa höfðu hins vegar miðað áætlanir sínar við að þessi fjárheimild yrði til staðar, með tilvísun í frumvarpið.“

Herra forseti. Þessir ágætu ,,þeir sem að Snorrastofu standa“, ja, ég vissi ekki áður að þeir tækju fram fyrir hendur Alþingis og hefðu meira vald en Alþingi um það hvernig fjármunum ríkisins er ráðstafað. Miðað við þetta blasir það við að þeir ágætu menn sem vinna þetta ágæta verk hafa greinilega meira vald en meiri hluti Alþingis varðandi það hvernig með fjármunina er farið eða að einhver önnur skýring er hugsanlega á þessu og ég vænti þess að hæstv. fjármálaráðherra upplýsi það þá á eftir.

Svipað mál er einnig á ferðinni hjá félagsmálaráðuneytinu. Þar er um að ræða leigugreiðslur vegna hinnar ágætu starfsemi sem fram fer á vegum Byrgisins að Efri-Brú í Grímsnesi. Hér segir í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Upphæð þessi“ — þ.e. þær 8 milljónir sem farið er fram á í fjáraukalagafrumvarpinu — „féll niður við afgreiðslu fjárlaga 2004 en þegar hefur verið skrifað undir leigusamninga.“

Upphæðin féll niður við afgreiðslu. Það er væntanlega vegna þess að meiri hluti Alþingis hefur ekki talið ástæðu til að hafa hana inni, en af því að búið er að skrifa undir leigusamningana, miðað við þær upplýsingar sem hér koma fram, þá er þessi upphæð komin inn í fjáraukalög. Herra forseti. Ég vænti þess að hæstv. fjármálaráðherra gefi okkur fullnægjandi skýringar á því sem hér er á ferðinni.

Herra forseti. Fleira vekur athygli í samhengi við það sem ég var að lesa í fjárreiðulögunum áðan, að hér eiga eingöngu að vera inni í frumvarpinu hlutir sem sannarlega komu upp á árinu 2004. Það vekur þess vegna athygli að nokkrir liðir eiga við árin þar áður. Nokkur dæmi eru m.a. um að bættur sé upp uppsafnaður halli ríkisstofnana frá fyrri árum. Miðað við fjárreiðulögin hefði sú leiðrétting átt að vera á fjárlögum næsta árs fyrst niðurstaða var komin í að þann vanda bæri að greiða.

Hjá sjávarútvegsráðuneytinu er óskað eftir 8,5 millj. kr. vegna taps af hrefnuveiðum, taps sem sannarlega varð árið 2003. Ég vil þar að auki segja að það hefur væntanlega verið fyrirséð. Þær veiðar voru rökstuddar með því að þær væru miklar vísindaveiðar sem ættu að skila miklu en ekki hagnaði. Þar er því að mínu mati farið á skjön við fjárreiðulögin. Ef þetta er niðurstaðan þá hefði átt að gera ráð fyrir þeim fjárhæðum í fjárlögum 2003 eða í fjáraukalögum ársins 2003 en fyrst svo var ekki þá a.m.k. í fjárlögum næsta árs.

Undir sjávarútvegsráðuneytinu er einnig afar sérkennilegur liður sem varðar Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Það er vegna atburða frá árinu 1998. Málið hefur hugsanlega verið í skoðun og vangaveltum til fjölda ára og nú er komin niðurstaða í það. En það á sannarlega ekki við árið 2004. Þetta eru um 10 millj. kr. vegna Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins vegna athugasemda sem bárust frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Svo virðist sem Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins hafi gert samning við íslenskt fyrirtæki um framkvæmd og svo segir, með leyfi forseta:

„Að mati Ríkisendurskoðunar var framkvæmdin ekki í samræmi við ákvæði samningsins og ríkislögmaður mat að forsendur fyrir endurkröfu styrksins á hendur samstarfsaðila væru ekki fyrir hendi.“

Stofnunin verður þar af leiðandi að taka þetta á sig. En ég held að það sé nauðsynlegt að við fáum upplýsingar um það hvað gerðist í raun þannig að menn geti lært af slíkum mistökum.

Herra forseti. Það er auðvitað líka rétt að vekja athygli á því, þrátt fyrir að það hafi sannarlega gerst á árinu 2004, að hið mikla ævintýri í kringum fjölmiðlalögin svokölluðu kostaði töluvert. Það er nauðsynlegt að fá nákvæma útlistun á því hvernig þessar 10,5 millj. kr. skiptust á milli þeirra sem að því máli komu. Ég vænti þess að við getum fengið það upplýst annaðhvort hjá hæstv. fjármálaráðherra nú eða í fjárlaganefnd fljótlega.

Síðan er nauðsynlegt, eins og fram kom í andsvari hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni, að fá upplýst hvernig það getur gerst að 1.100 nemenda gap sé á milli fjárlaganna og raunveruleikans. Framlag til framhaldsskólanna var hækkað um 800 millj. kr. vegna fjölgunar nemenda sem áætlað var að lægi fyrir. Það var gert við 2. umr. fjárlaga í fyrra. En nú er þar 1.100 nemenda gap sem nauðsynlegt er að fá upplýsingar um, og hvernig þeim útreikningum er háttað þar sem þessum mismun er mætt. Það er augljóst að verið er að lækka meðaltalið sem var hins vegar hækkað í fyrra.