131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[12:29]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að endurtaka neitt af því sem fyrri ræðumenn fóru yfir í þessari umræðu og tel mig geta sparað mér þann tíma. Hv. þm. Jón Bjarnason minntist á framhaldsskólana og þá fjárveitingu sem þar er verið að leggja til í fjáraukanum og var auðvitað fjallað um við afgreiðslu fjárlaganna en ekki tekið til greina þá af ríkisstjórnarmeirihlutanum á hv. Alþingi að þar þyrfti aukafjárveitingar við en hún kemur svo síðan í fjáraukanum. Nóg um það. Það hefur verið rætt af öðrum.

Þar sem við höfum ekki fengið yfirferð á fjáraukalagafrumvarpinu í fjárlaganefnd frá fagráðuneytunum ætla ég aðallega við þessa umræðu að beina fyrirspurnum til fjármálaráðherra og annarra ráðherra ef þeir yrðu hér viðstaddir og málaflokkar sem ég ætla að koma að falla undir þá. Það eru nokkur atriði sem ég hefði gjarnan viljað fá upplýst ef hæstv. fjármálaráðherra hefur þær upplýsingar hjá sér en ég skal hins vegar virða það ef hann hefur þær ekki og getur upplýst það síðar eða fengið fulltrúa sína í fjármálaráðuneytinu eða fagráðuneytunum til þess að upplýsa það sem ég spyr um.

Í fyrsta lagi langar mig til þess að varpa fram þeirri spurningu hvað hið svokallaða Tetra-kerfi hafi kostað á undanförnum árum, þ.e. upptaka þess, hönnun og annað slíkt. Hér er farið fram 51 millj. kr. m.a. til viðbótarsamnings vegna Tetra-kerfisins. Við höfum heyrt í fréttum að menn telja að þetta kerfi standi alls ekki undir þeim væntingum sem gerðar voru til þess og þá vekur þetta auðvitað athygli. Ég held að ég muni það rétt að á undanförnum árum hafi verið settir í það allnokkrir fjármunir og menn hafi bundið vonir við að kerfið yrði fullnægjandi en það virðist ekki vera og hér er farið fram á aukafjárveitingu. Ég hefði talið það ákaflega fróðlegt fyrir okkur í þessari umræðu og umfjöllun á næstu vikum og mánuðum ef fjármálaráðherra gæti upplýst hvort gerð hefði verið einhver úttekt á þessu ferli, þeim kostnaði sem hefur fylgt þessari tæknivæðingu, ef við getum orðað svo, varðandi Tetra-öryggiskerfið. Því spyr ég um þetta og vona að fjármálaráðherra geti upplýst það, en ef ekki virði ég það en fer þá fram á það við hann að hann sjái til þess að þær upplýsingar berist okkur síðar eða við fáum þær þá örugglega eftir öðrum leiðum. Ég er í raun og veru að fara fram á það við hæstv. fjármálaráðherra að málið verði skoðað nokkuð gaumgæfilega, í hvaða farvegi það er og hver viðbótarkostnaður hefur verið á undanförnum árum og hvert við stefnum yfirleitt, hvort kerfið nægi til þess að uppfylla þá þjónustu sem við vildum vissulega fá út úr því varðandi öryggi o.s.frv.

Ég vil líka benda á, hæstv. forseti, að hér er gert ráð fyrir og farið fram á 300 millj. kr. til viðbótarfjárheimilda vegna Ábyrgðasjóðs launa. Það stafar væntanlega af því að Ábyrgðasjóður launa hefur fengið á sig umtalsvert hærri kvaðir en menn gerðu ráð fyrir í fjárlögum. Það kemur reyndar fram hér að á fyrstu sjö mánuðum ársins voru útgjöld sjóðsins 501 millj. kr. og gert er ráð fyrir því að heildarútgreiðslur á árinu nemi á milli 800 og 850 millj. kr. en fjárheimild sjóðsins var 527 millj. í fjárlögum. Ég tel að það sé mikið áhyggjuefni varðandi ábyrgðasjóðinn hve mikið fellur á hann í sambandi við gjaldþrot fyrirtækja þar sem launakröfur launamanna færast yfir á sjóðinn. Ég hefði gjarnan viljað að hæstv. fjármálaráðherra færi nokkrum orðum um þetta atriði sem ég geri ráð fyrir að hann þekki vel til.

Síðan er það áhyggjuefni sem hér er sett fram varðandi Atvinnuleysistryggingasjóð þar sem farið er fram á að fjárheimildir hans hækki um 948 millj. kr. Ástæður þess eru auðvitað af ýmsum toga. Í fyrsta lagi er atvinnuleysi meira en menn gerðu ráð fyrir. Er það náttúrlega í nokkurri mótsögn við það sem hæstv. forætisráðherra gerði að umræðuefni í stefnuræðu sinni þar sem hann taldi að atvinnuleysi væri að minnka. Ég held ég hafi upplýst það hér í umræðunni, m.a. með því að vitna til Vinnunnar, fréttabréfs ASÍ, um áhyggjur manna þar á bæ um hvernig atvinnuleysið hefur verið að þróast, að langtímaatvinnuleysi fari vaxandi og atvinnuleysi ungs fólks fari einnig vaxandi og ekki horfur miðað við framsetningu þeirra að það sé að breytast, því miður.

Það er mikið áhyggjuefni ef atvinnuleysið ætlar að verða meira en menn gerðu ráð fyrir á komandi árum, þrátt fyrir að menn séu, a.m.k. í ríkisstjórninni, að tala um þenslu sem þurfi að taka sérstaklega á og skera niður atvinnustig í landinu í því sambandi. Þetta stafar kannski líka af því að ríkisstjórnin gerði samkomulag í mars 2004 í sambandi við lausn kjarasamninga. Þar voru sjóðnum fengin ýmis verkefni sem hér er gerð grein fyrir að nemi alls 410 millj. fram til ársins 2007. Það er því ekki bara aukið atvinnuleysi sem leggst á sjóðinn, heldur önnur verkefni sem ríkið hefur samið um að sjóðurinn taki að sér. Það breytir ekki því að heildartalan sem sótt er um í sjóðinn er tæpur milljarður. En ég held að við þurfum sérstaklega að hafa áhyggjur af því ef atvinnuleysi er að þróast með þeim hætti sem var lýst í fréttabréfi ASÍ.

Þess vegna orða ég það hér og velti því fyrir mér hvort sú spá sem kemur fram um þróun atvinnuleysis á næstu árum fái staðist núna í ljósi reynslunnar. Það hefur ekki gengið eftir, því miður, sem menn gerðu ráð fyrir, atvinnuleysið er meira og það kostar auðvitað fjármuni. Það var líka gert að umræðuefni m.a. undir stefnuræðu forsætisráðherra og reyndar einnig við umræðuna um fjárlögin 2005 sem menn tala um sem kannski falið atvinnuleysi, þ.e. fjölgun öryrkja og kostnað því samfara sem lendir á þjóðfélaginu.

Það eru ákveðnar vísbendingar í fjáraukalagafrumvarpinu sem mér finnst nauðsynlegt, hæstv. forseti, að víkja að. Það kemur eiginlega best fram þegar skoðaður er kaflinn undir liðnum Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti og við horfum á tölur eins og endurhæfingarlífeyri. Þar er farið fram á 250 millj. kr. í hækkun. Þar er sagt, með leyfi forseta, um þetta:

„Árið 2003 voru útgjöld vegna endurhæfingarlífeyris 522 millj. kr. Í fjárlögum er gert ráð fyrir að hann nemi 582 millj. kr. en þróun innan ársins bendir til að útgjöldin verði um 832 millj. kr. Fjölgun bótaþega er verulega umfram það sem gert var ráð fyrir í forsendum fjárlaga. Á árinu 2003 nam fjölgun innan ársins 212 einstaklingum sem er um 50%.“ — Og svo segir: „Gert var ráð fyrir að á árinu 2004 dragi úr þessari aukningu.“

Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra að því og vissulega væri gott að geta líka spurt heilbrigðis- og tryggingaráðherra sem veit kannski meira um málið, en ég spyr fjármálaráðherra af því að hann er viðstaddur: Hvað vita ráðherrarnir um þetta mál sem styrkir það mat þeirra að það dragi úr þessum fjölda á þessu ári og þá vonandi einnig á komandi ári?

Ég sé ekkert í þeim vísbendingum sem við höfum verið að ræða, m.a. um fjölgum öryrkja, sem gefur tilefni til þess að draga þá ályktun sem hér er sett fram. Því spyr ég: Er það svo að þessi vísbending sé það skýr og klár að hægt sé að setja þennan texta inn í fjáraukalagafrumvarpið: ,,Gert var ráð fyrir að á árinu 2004 dragi úr þessari aukningu“? Ef svo er væri auðvitað gott að fá það upplýst ef vísbendingar eru um það. Ég held ég hafi séð hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hér áðan. Kannski heyrir hann orð mín og getur komið inn í umræðuna og upplýst þetta.

Ég geri þetta að umræðuefni vegna þess að það er verið að tala um að kostnaður vegna öryrkja hér á landi séu miklu meiri og þeim fjölgi meira en menn gerðu ráð fyrir. Þess vegna kem ég þessari framsetningu ekki alveg heim og saman.

Hér er talað um endurhæfingarlífeyrinn og undir liðnum Örorkulífeyrir er farið fram á 240 millj. kr. hækkun á fjárveitingum vegna örorkulífeyris.

Það vekur hins vegar athygli að undir liðnum Ellilífeyrir er talað um 70 millj. kr. lækkun og tekjutrygging ellilífeyrisþega lækkar um 211 millj. Ég spyr þá líka hæstv. fjármálaráðherra: Hvað er að gerast hér?

Tekjutryggingarauki ellilífeyrisþega lækkar um 40 millj. en allar vísbendingar varðandi örorkulífeyrisþega eru um hækkun. Tekjutrygging örorkulífeyrisþega hækkar um 201 millj. í fjáraukanum og tekjutryggingarauki örorkulífeyrisþega hækkar um 73 millj.

Allar vísbendingar í fjáraukalagafrumvarpinu benda því til þess að kostnaður sem snýr að öryrkjum sé að hækka, en kostnaður sem snýr að ellilífeyrisþegum sé að sumu leyti jafnvel að lækka frá því sem gert var ráð fyrir í frumvarpinu.

Ég vildi gjarnan að hæstv. fjármálaráðherra færi um þetta nokkrum orðum. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þetta sé rætt og gefin mynd af því hvaða samhengi er í þessum breytingum og þeirri umræðu sem hér hefur farið fram um að örorkulífeyrisþegum sé að fjölga mikið. Við höfum verið að víkja að því sum, alla vega í stjórnarandstöðunni, að það kynni að vera vegna þess að atvinnuleysi væri meira og atvinnumarkaðurinn væri harðari og þeir sem hefðu minna afl og getu, hefðu takmarkaða starfsgetu, sætu eftir á vinnumarkaðnum og fengju ekki vinnu og þar af leiðandi fjölgaði örorkulífeyrisþegum m.a.

Vísbendingarnar hér hníga í þá átt að allur kostnaður samfara örorkulífeyri og öðru slíku vaxi, endurhæfing og ýmislegt fleira þó að endurhæfing sé ekki bara til örorkulífeyrisþega, en t.d. tekjutrygging og tekjutryggingarauki til ellilífeyrisþega lækki.

Við vitum jú að tekjutryggingarauki og tekjutrygging ellilífeyrisþega er þannig útfærð að ef þeir eiga von á því að fá eitthvað úr lífeyrissjóði skerðir það þessar bætur. Það kann að vera tengt því að fleiri ellilífeyrisþegar fái meiri lífeyri. Ég vona sannarlega að svo sé, en ég veit hins vegar að það er talsvert mikill fjöldi ellilífeyrisþega sem mun búa við það á næstu árum að eiga mjög lítinn ellilífeyri. Ég kalla það lítinn ellilífeyri þegar menn eiga undir 50 þús. kr. í réttindum, svo ráðherra átti sig því hvað ég miða við. Þegar menn eiga undir 50 þús. kr. í lífeyrisjóðsréttindum kalla ég það lítinn lífeyri. Jafnvel sú upphæð skerðir bæturnar sem ég hef gert hér að umræðuefni.

Það er eitt annað atriði sem ég vildi gjarnan minnast á við hæstv. ráðherra og er í raun og veru til að fá upplýsingar ef hann veit það, en ég tek það til greina ef hann er ekki með þær upplýsingar á takteinum.

En hér framarlega í þessu frv. til fjáraukalaga er heimild til þess að selja rannsóknarskipið Dröfn og verja andvirðinu til kaupa á rannsóknartækjum fyrir Hafrannsóknastofnun. Ég spyr hæstv. ráðherra: Er vitað hvaða hagræðing er talin fylgja því að selja rannsóknarskipið Dröfn, þetta minnsta rannsóknarskip stofnunarinnar? Hefur Hafrannsóknastofnun lagt eitthvað fram um það? Skipið hefur sinnt ýmsum verkefnum, bæði innfjarðarannsóknum og einnig rannsóknum á úthafsrækju og humri o.s.frv., sennilega með minnstum útgerðarkostnaði Hafrannsóknastofnunar miðað við skip hennar. Ég geri ráð fyrir að kostnaðurinn við útgerð Drafnar sé töluvert minni en t.d. við hið nýja skip Árna Friðriksson og jafnvel gamla Bjarna Sæmundsson og að þau verkefni sem þetta skip hefur sinnt á undanförnum hafi þar af leiðandi kostað minna en það muni kosta með hinum tveimur skipunum sem eftir eru. Ég átta mig sannarlega ekki á því hvernig Hafrannsóknastofnun ætlar að spara í rekstri sínum með því að leggja þetta skip af og hvort þá eigi að láta stærri skipin sinna þessum verkefnum með mun meiri kostnaði. Fyrir utan að ég vil segja það við hæstv. fjármálaráðherra að ég held að markaður fyrir kvótalaus skip sem eru útbúin til fiskveiða sé ekki góður eins og staðan er hér á landi nú. Úr því að menn töldu ástæðu til að fresta símasölunni hérna um árið held ég að menn ættu nú að skoða það hvort þeir eru yfirleitt að fá nokkurn skapaðan hlut fyrir þetta skip sem er þó að sinna mörgum verkefnum sem dýrari skip verða svo látin sinna á næstu mánuðum og árum. Ég er nú bara vinsamlega að benda fjármálaráðherra á að ég er ekki viss um að þessi gerð Hafrannsóknastofnunar muni spara stofnuninni peninga og fjármuni á komandi árum og þess vegna spyr ég að þessu. Andvirði Drafnarinnar sem á að verja til tækjakaupa í hafrannsóknaskipin kann að verða eitthvað en ég er ekki viss um að það verði mjög mikið sem fyrir það fæst, virðulegi forseti.

Ég á nú lítið eftir af tíma mínum og ætlaði aðallega að nota þessa ræðu til að fá upplýsingar frá fjármálaráðherra. Það hef ég gert með því að beina þessum spurningum til hæstv. fjármálaráðherra og ég vona að hann leitist við að svara þeim eftir bestu getu en skal virða það ef hann hefur upplýsingarnar ekki handbærar hér en vænti þess þá að minni hans, sem ég veit að er afar gott, dugi til þess að hann komi þessum athugasemdum áleiðis.