131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[15:04]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég heyri það á öllu í umfjöllun hæstv. fjármálaráðherra um hið stóra mál Grettis sterka að það er engu líkara en að Glámur hafi tekið sæti í fjárlaganefndinni.

Ég kveð mér nú hljóðs fyrst og fremst til að gefa ráðherra kost á því að halda hér sína þriðju ræðu og fara yfir þær skýringar sem hann hefur fram að færa. Það er eðlilegt að hæstv. fjármálaráðherra þurfi að koma ítrekað í ræðustólinn til að gera grein fyrir þeim margvíslegu aukafjárveitingum sem hér er verið að fjalla um. Ég lýsi ánægju minni með að heyra undirtektir hans við því að þessar aukafjárveitingar séu of miklar og að við eigum að stefna að því að ná þeim niður. Mér finnst að með þeim orðum taki hann að sumu leyti undir þann málflutning sem við höfum haft uppi hér í fjárlagaumræðunni undanfarið um að þetta séu óhóflegar aukafjárveitingar og að við þurfum að vinna að því að ná þeim niður.

Fyrst að ég er kominn hingað í ræðustólinn langar mig að tjá mig aðeins um vinnubrögð. Hæstv. ráðherra nefndi þann möguleika að setja potta út til framkvæmdarvaldsins þannig að það gæti bara jafnað þessar framúrkeyrslur í einhverjum peningapottum sem það hefði til ráðstöfunar. Hann talaði um að það væri út af fyrir sig aðferð. Ég er sammála honum um það. Ef það er vilji manna að aukafjárveitingar séu bara heimilaðar með tiltölulega einföldum hætti af framkvæmdarvaldinu, það eigi ekki að vera flókið að sækja aukafjárveitingar og það eigi bara að geta gengið svona tiltölulega hratt og vel áfram að menn fái þær, held ég að menn eigi að gera það þannig. Ég held samt að það geti verið ákveðið aðhald í því að beita fjáraukalögum til að veita aukafjárveitingar. Gallinn í þessu fyrirkomulagi hér er sá að þó að fjáraukalögin komi nú miklu fyrr en þau gerðu á síðustu öld held ég að engu að síður séum við að taka afstöðu, eða öllu heldur að afgreiða það sem þegar hefur verið ákveðið í ráðuneytunum. Það er í raun og veru búið að taka þessar ákvarðanir áður en málið kemur til þingsins. Ef það á að nota fjáraukalögin sem stjórntæki væri framför í því að hér væru fjáraukalög afgreidd, ein á vorþingi og önnur á haustþingi. Þegar menn sæju að inn á árið væru komin verkefni sem ráðast þyrfti í ættu þeir þess kost að sækja um þau á vorþingi, fá fjárveitinguna og fara síðan í þau. Þann kost eiga stofnanirnar í raun og veru ekki í dag vegna þess að fjáraukalögin eru afgreidd svo seint á árinu að eftir að þær heimildir væru veittar, þá auðvitað í framkvæmdum svo sem eins og við hús Halldórs Laxness, væri ekki hægt að vinna framkvæmdirnar innan ársins.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann teldi ekki að því bragarbót í fjárlagaferlinu ef það verklag væri uppi að hægt yrði að sækja aukafjárveitingar í fjáraukalögum inn í þingið að vorinu til, m.a. áður en helsti framkvæmdatíminn í landinu fer í hönd, sumarið, og væntanlega þegar skólarnir eru farnir að sjá betur hvernig skólaárið leggst út o.s.frv. Gott væri að fá fram afstöðu hans til þess.

Hitt er mál sem ég rak hér í fyrra og kom mér mjög á óvart sem nýjum þingmanni en þá spurðist ég fyrir um hvað lögreglan í Reykjavík hefði beðið um í fjárveitingu, hverjar þarfir lögreglan teldi sig hafa til fjárframlaga á þessu ári. Ég átti ekki von á öðru sem nýr nefndarmaður í fjárlaganefnd en að ég bara fengi þær upplýsingar. Því var þó ekki að heilsa. Það var leyndarmál sem ekki mátti upplýsa og mér var formlega neitað með bréfi frá lögreglustjóranum í Reykjavík um upplýsingar um hvaða fjárveitingar lögreglan hefði farið fram á fyrir yfirstandandi ár.

Ég tel algjörlega óviðunandi fyrir þingmenn sem sitja í fjárlaganefnd að hafa ekki aðgang að slíkum upplýsingum vegna þess að það gerir okkur einfaldlega erfitt fyrir að rækja eftirlitshlutverk okkar og rýna í það sem fyrir okkur er lagt.

Ég hafði fyrir ári síðan ástæðu til að ætla að þær fjárveitingar sem í fjárlögum voru til lögreglunnar í Reykjavík væru ekki nægar. Þess vegna vildi ég grennslast fyrir um það hvernig lögreglan sjálf hefði metið það mál. Hvað kemur nú á daginn í frumvarpi til fjáraukalaga? Ég sé eða veit að þar er inni fjárveiting upp á 35 millj. kr. til lögreglunnar í Reykjavík. Ég á í starfi fjárlaganefndar eftir að grennslast fyrir um ástæður þeirrar framúrkeyrslu en mér finnst það styðja þær röksemdir sem ég setti hér fram fyrir ári um að það er algjörlega nauðsynlegt fyrir okkur sem eigum að vinna að fjárlögunum, ef eitthvert mark á að vera takandi á þeirri vinnu, að hafa fullan aðgang að upplýsingum frá stofnunum ríkisins og vera ekki synjað um jafnsjálfsagðar grundvallarupplýsingar og hvað stofnanir sem starfa í þágu almennings hafa sjálfar talið sig þurfa.

Það er auðvitað ekki heilagur sannleikur sem þær hafa farið fram á en það er sjónarmið í málinu, og það er sjónarmið sem þarf að koma fram til þess að málefnaleg umfjöllun geti farið fram um fjárlagafrumvarpið. Málefnaleg umfjöllun um það er væntanlega forsenda þess að það geti verið sem næst réttu lagi og að síður þurfi að koma til þeirra umfangsmiklu og verulegu aukafjárveitinga sem við erum hér ár eftir ár í fjáraukalögum að afgreiða.