131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[15:16]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að gera neinn stórvægilegan ágreining við hæstv. fjármálaráðherra um svör hans en vil þó vekja athygli á því að rannsóknaskipið Dröfn er minnsta skip Hafrannsóknastofnunar og hefur hentað ágætlega til að stunda ýmsar rannsóknir, t.d. innfjarðarannsóknir, við þröngar aðstæður og önnur minni verkefni. Ég tek heils hugar undir það með hæstv. fjármálaráðherra að hið nýja rannsóknaskip Árni Friðriksson þarf að fá fleiri verkefni og það er fullt af verkefnum sem hægt er að vinna með því öfluga skipi og þeim tækjabúnaði sem þar er um borð. Ég held bara að sum þeirra verkefna séu þess eðlis sem þarf að setja í forgang og ég held að verkefni þess skips verði næg á komandi árum, m.a. í að auka þekkingu okkar á hafsvæðinu kringum Ísland, botnlægi o.s.frv. Hins vegar dreg ég mjög í efa að t.d. Árni Friðriksson henti til að taka við sumum verkefnum Drafnarinnar, sérstaklega innfjarðarannsóknum og minni verkefnum. Þar er einfaldlega um stórt skip að ræða og dýrt, og ekki er ástæða til að nota stærri og dýrari skip við minni innfjarðarannsóknir eins og t.d. rækjuveiðar innfjarða og hörpuskelsmælingar o.s.frv. en ástæða er til. Þetta vil ég bara láta koma fram.