131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[16:55]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að halda því fram að hv. þm. sé að skipta um skoðun eða áttir eftir því hvaðan vindurinn blæs. Mér finnst dálítið nöturlegt að hv. þm. kemur og slæst hér mjög fyrir hugsjónum frelsis en hann styður samt sem áður flokk sem í þessu tiltekna dæmi hefur purkunarlaust í krafti einhverra flokkshagsmuna misnotað aðstöðu sína innan Landssímans og innan Ríkisútvarpsins til þess að halda áfram einhverjum endalausum slag við risann á markaðnum, Norðurljós. Það birtist í því að Sjálfstæðisflokkurinn notar fé skattborgaranna í gegnum Landssímann til þess að fjármagna keppinaut Norðurljósa og hann notar síðan Ríkisútvarpið líka til þess að styðja þessa sjónvarpsstöð. Meira að segja er formaður útvarpsráðs í purkunarlausum hagsmunaárekstri á leynilegum fundum með forstjóra samkeppnisaðilans, þ.e. Skjás 1. Hv. þm. á að koma og fordæma þetta héðan úr þessum stól ef hann meinar eitthvað með því sem hann er að segja um samkeppnisfrelsi.