131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[17:31]

Örlygur Hnefill Jónsson (Sf):

Herra forseti. Það mál sem er til umræðu er vissulega stórt mál og varðar marga. Ljóst er að nútímafjarskipti eru grunnþáttur í búsetu í hinum dreifðu byggðum. Það varðar einnig miklu að nútímafjarskipti eru grunnþáttur í uppbyggingu atvinnulífs á landsbyggðinni. Það er á grunni þessa sem það er þarft byggðamál sem flutningsmenn hreyfa hér.

Ég vil treysta ríkisstjórninni til að líta til þessara þátta og ég skil orð hv. 6. þm. Reykv. s., Jónínu Bjartmarz á þá leið að þeir vilji gera það. En við vitum að landsbyggðin býr víða ekki við góðan hlut í þessu. Hv. 5. þm. Norðvest., Guðjón A. Kristjánsson, vitnaði í bréf frá þeirri ágætu sveit þar sem ég hef búsetu og þar sem sá mæti maður Jónas frá Hriflu hafði búsetu áður, þar hafa menn efasemdir um þetta og svo er víða um byggðir landsins. Fólk býr við slæm skilyrði í fjarskiptamálum og er búið að búa lengi og það óttast mjög um sinn hag því ef landsbyggðarfólk getur ekki treyst á núverandi eiganda Símans, íslenska ríkið, hverjum á það þá að treysta?