131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[17:51]

Guðmundur Hallvarðsson (S):

Herra forseti. Því miður gat ég ekki verið viðstaddur í upphafi umræðunnar um þetta gagnmerka mál. Engu að síður sé ég mig knúinn til þess að taka þátt í lokaumræðunni áður en málinu verður vísað til samgöngunefndar eða efnahags- og viðskiptanefndar. (Gripið fram í.) Að vísu er salan undir fjármálaráðherra, það er rétt.

Við getum tekist á um eitt í þessu máli sem er spurning sem mikið hefur verið fjallað um: Hvað kemur þjóðinni best? Þar greinir okkur á og ekkert að því. Við munum eftir því að einu sinni hét fyrirtæki Viðtækjaverslun ríkisins og lifði ágætu lífi. Það var ekkert útvarp selt á landinu öðruvísi en það færi í gegnum þá stofnun. Við munum eftir fyrirtæki sem hét Bifreiðaeftirlit ríkisins og það mátti enga bifreið skoða af öðrum aðila.

Viðtækjaverslun ríkisins er ekki til lengur sem betur fer og Bifreiðaeftirlit ríkisins er komið í hendur einkaaðila og hefur gengið vel. Það hlýtur að vera umhugsunarefni þegar hv. þm. Vinstri grænna spyrja og leggja fyrir okkur andstæðinga í pólitískum þankagangi hvað kemur þjóðinni best. Gæti það gerst að einkafyrirtæki sem nú þegar eru komin á þennan markað næðu meirihlutaviðskiptum í grunnneti og í sambandi við Símann?

Þá hljóta menn að spyrja: Gerðu Vinstri grænir, að því gefnu að þeir hafi náð máli sínu fram, þjóðinni best gagnvart Símanum, sem væri þá kominn í þá stöðu að vera minnsti rekstraraðili hvað áhrærir þjónustu Símans á Íslandi? Nei, Vinstri grænir gerðu ekki þjóðinni best. Og í því umhverfi sem Síminn starfar í mundum við gera þjóðinni best með því að veita Símanum sams konar rekstrarumhverfi og aðrir aðilar starfa í núna, t.d. Og Vodafone og fleiri aðilar. Það er a.m.k. mín skoðun.

Svo má alltaf toga og teygja hvernig halda eigi á málum en það er alveg ljóst að grunnnetið er hið viðkvæma mál í þessu. En þar hefur nú verið rætt um að eðlilegt sé að sá aðili sem keypti Símann sæi um grunnnetið líka, það kæmi til góða. Jafnvel hafa menn rætt um að eðlilegt væri ef fyrirtækið væri selt í heild sinni, að skipta upp rekstrarreikningi þar sem annars vegar væri Síminn og hins vegar grunnnetið. Þetta er allt undir og þarf nokkurrar umræðu við og kemur væntanlega til umfjöllunar í nefndum þingsins þar sem um málið verður fjallað.

En ég ítreka, og þar greinir okkur á, að ég tel að það komi þjóðinni best að selja Símann.