131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Virðisaukaskattur.

6. mál
[16:26]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Að vilja eða ekki vilja, það er spurningin. Hv. þm. Dagný Jónsdóttir fór hér yfir samskipti ríkisstjórnarflokkanna og helst gat maður skilið af þeirri lýsingu að hér væri um miklar ástir samlyndra hjóna að ræða. En það er svolítið erfitt að ímynda sér það þegar maður horfir utan frá hvernig þeir reka hornin hverjir í aðra þessa dagana. Nokkuð viss er ég þó um að þeir Spaugstofumenn munu gera því betur skil en ég get gert.

Það er ekki undarlegt þó að við spyrjum um stefnu Framsóknarflokksins varðandi lækkun matarskatts vegna þess að hæstv. fjármálaráðherra og flestallir þeir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem talað hafa í skattaumræðu frá því að við komum hér saman segja það sama. Þeir segjast vilja gera þetta en að Framsóknarflokkurinn standi í vegi fyrir því.

Miðað við þau svör sem við höfum fengið hér við þeim spurningum sem lagðar hafa verið fram bæði í fjárlagaumræðunni og eins hér þá finnst mér að í raun sé búið að staðfesta að það er Framsóknarflokkurinn sem þvælist fyrir því að hægt sé að lækka matarskattinn núna um helming. Hann er að velta fyrir sér einhverjum öðrum leiðum varðandi virðisaukaskattinn og ekki er undarlegt kannski þó að ég velti þeirri spurningu upp í ræðu minni hvort verið gæti að þegar fjallið tæki jóðsótt og mús fæddist þá mundi vaskur á lúxusvörum lækka, einfaldlega vegna þess að það er það sem hefur gerst í tekjuskattinum. Þar er verið að lækka skattinn á þá sem langhæstar tekjur hafa og það svigrúm sem er fyrir hendi, þeir 5 milljarðar kr. sem eru fyrir hendi núna samkvæmt því sem ríkisstjórnin leggur til, eiga að fara að langmestu leyti til þeirra sem hæstu tekjurnar hafa.

Því verð ég að spyrja, herra forseti, hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur: Er það samkvæmt stefnu Framsóknarflokksins að ef lækka skuli skatt á einstaklinga þá skuli þeir njóta sem best hafa það?