131. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2004.

Aðgerðir gegn félagslegum undirboðum.

94. mál
[13:58]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég verð að segja að hæstv. félagsmálaráðherra hefur í flestum málum öðrum sýnt meiri vaskleika en þeim sem tengjast erlendum starfsmönnum sem hingað koma í krafti starfsmannaleigna. Ég spyr, frú forseti: Hvernig stendur á því að hæstv. félagsmálaráðherra hefur ekki enn gert reka að því að efna þær yfirlýsingar sem hann gaf hér fyrir sléttu ári síðan, í fyrsta lagi um að kannað yrði hvort ekki ætti að setja sérstök lög á hinu háa Alþingi sem takmörkuðu möguleika þessara einkareknu starfsmannaleigna til þess að beita starfsmenn harðræði og í öðru lagi um að hafa frumkvæði að því á erlendum vettvangi að það færi af stað alþjóðlegt samstarf til að koma í veg fyrir að menn geti með þessum hætti framið mannréttindabrot, því þetta er ekkert annað?

Man ekki hæstv. félagsmálaráðherra að hann gaf yfirlýsingu um að hann hygðist taka málið upp t.d. á vettvangi erlendra félagsmálaráðherra og í því samstarfi sem hann á þar? Ætlar hann ekki að standa við það?