131. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2004.

Kjör og vinnuskilyrði blaðburðarfólks.

116. mál
[14:12]

Guðjón Guðmundsson (S):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. fyrirspyrjanda og tel það aðkallandi að tryggja kjör og vinnuskilyrði blaðburðarfólks ekki síður en annarra launþega. Stór hluti blaðbera eru börn og unglingar og sá hópur er yfirleitt ekki í stakk búinn til að sækja rétt sinn. Við höfum séð það í lesendabréfum dagblaðanna á undanförnum mánuðum að foreldrar hafa verið að lýsa því að réttur þessara unglinga sé lítill sem enginn hjá sumum fjölmiðlum og á því þarf að verða breyting. Þessi hópur þarf eins og aðrir launþegar í landinu að hafa kjör sín og vinnuskilyrði á hreinu, líkt og er t.d. hjá Morgunblaðinu eins og hér kom fram í ræðu fyrirspyrjanda, þar sem samið var um kaup og kjör blaðburðarfólks þess fyrir nokkrum árum og blaðið á heiður skilinn fyrir það. Það er raunar með ólíkindum að aðilar vinnumarkaðarins skuli ekki hafa komið þessum málum á hreint og hlýtur að verða að hvetja þá til þess. Ég tek undir með hæstv. ráðherra að aðilum vinnumarkaðarins væri sómi að því að ljúka þessu máli og ganga frá samningum þessa fólks.