131. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2004.

Kjör og vinnuskilyrði blaðburðarfólks.

116. mál
[14:13]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka ráðherra svörin og þær undirtektir sem komu fram hjá síðasta ræðumanni. Ég geri mér alveg ljóst að hæstv. ráðherra hefur ekki vald til að vera með neinar fyrirskipanir til aðila vinnumarkaðarins en engu að síður spurði ég um það sem ráðherrann svaraði ekki, hvort kjör og vinnuskilyrði blaðburðarfólks væru í samræmi við lög og reglur og vitnaði þar til laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Það er brotalöm að því er varðar kjör og vinnuaðstæður blaðbera og ég vitnaði til bæði launa, veikindaréttar, vinnufatnaðar o.s.frv. Ég spyr því hvort ráðherrann hafi ekki kannað það sérstaklega. Ég spyr líka af því að ráðherrann nefnir að það sé mismunandi hvernig brugðist hafi verið við kröfum Vinnueftirlitsins: Hvaða úrræði hefur Vinnueftirlitið til þess að þvinga fram að brugðist sé við þeim kröfum sem það gerir varðandi aðbúnað blaðburðarbarna?

Málið er í ólestri, það er alveg ljóst. Ég las nýlega grein sem birtist í Morgunblaðinu þar sem fram kemur að kjör hjá blaðberum séu mjög mismunandi eftir því hvort um er að ræða þá sem eru í vinnu hjá Morgunblaðinu eða hjá Fréttablaðinu eða DV og það þarf auðvitað að taka á því. Það er ótækt að ekki náist fram ásættanleg niðurstaða að því er varðar vinnuaðstæður og kjör blaðbera og að þar ríki bara geðþóttaákvarðanir atvinnurekenda. Þarna verða að vera til eðlilegar og sanngjarnar leikreglur þannig að blaðberar þurfi ekki að láta yfir sig ganga ósanngjörn kjör og standi vanmáttugir frammi fyrir vinnuveitanda sínum.

Það er ágætt að úr þessum ræðustól komi hvatning frá hæstv. ráðherra til aðila vinnumarkaðarins að taka nú þegar á þessu máli. Það gengur ekki að ár eftir ár séu þessi mál í ólestri. Og ég ítreka fyrirspurn mína til ráðherra hvort hann hafi skoðað þessi kjör og vinnuskilyrði og vísa þá til laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.