131. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2004.

Stimpilgjald við endurfjármögnun fasteignaveðlána.

106. mál
[14:42]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að flestir séu sammála um að hér er um afar ósanngjarna skattheimtu að ræða og ekki síst þegar um er að ræða endurfjármögnun. Við getum hugsað okkur núna þegar fólk er að endurfjármagna óhagstæð lán sín, það er kannski tiltölulega nýbúið að taka lán, eitt, tvö eða þrjú ár síðan, og borga 300 þús. kr. af því í stimpilgjald og ætlar svo endurfjármagna það hjá bönkunum og þarf þá aftur að borga sömu fjárhæð. Þarna er teygja menn sig ansi langt og það jaðrar náttúrlega við okurinnheimtu að standa þannig að málum.

Það er alveg ljóst að ríkisvaldið teygir sig langt og er raunverulega með þessum stimpilgjöldum að taka til baka ávinninginn af vaxtalækkunum hjá fólki því það líða oft 2–4 ár þar til vaxtalækkunin fer að skila sér til lántakenda. Hér er um mikla endurfjármögnun að ræða. Ég minni ráðherrann á að um er að ræða 127% hækkun á stimpilgjöldum sem ríkisvaldið fær til sín ef miðað er við september 2003 og september 2004. Við erum því að tala um verulega fjármuni sem ríkisvaldið hefur þarna af fólki.