131. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2004.

Umfang skattsvika.

127. mál
[14:54]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Það er allt rétt sem fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda að það hefur orðið dráttur á því að starfshópurinn lyki störfum og er skýringa m.a. og ekki síst að leita í því sem ég greindi frá í svari við sambærilegri fyrirspurn fyrir næstum því ári. Það er vissulega leitt að þetta hefur dregist og ég tek undir það með þingmanninum sem hefur haldið málinu vakandi og er upphafsmaður að þeirri þingsályktun sem verið er að framkvæma að það er mjög miður að það hefur dregist og mér þykir það leitt. Hins vegar hef ég það fyrir satt og treysti því að niðurstaðna frá starfshópnum sé að vænta um næstu mánaðamót. Vinnan hefur verið umfangsmeiri, tímafrekari og hefur kallað á athuganir sem var ekki alveg fyrirséð að gera þyrfti, eins og hv. fyrirspyrjandi nefndi einnig. Ég geri mér því vonir um að í skýrslunni verði vel unnið efni sem getur komið okkur öllum að gagni sem látum okkur þessa hluti varða og það gerum við að sjálfsögðu öll á hinu háa Alþingi vegna þess að skattsvik, skattsniðganga og dulin efnahagsstarfsemi eru auðvitað hlutir sem okkur ber skylda til að reyna að hafa hemil á. Ég tel þar með að fyrri hluta fyrirspurnarinnar sé svarað.

Varðandi síðara atriðið, um það hvort ráðherra muni gera Alþingi grein fyrir niðurstöðunum strax og þær liggja fyrir, verður þetta opinber skýrsla þegar hún kemur fram. Það hefur ekki verið endanlega afráðið með hvaða hætti hún verður kynnt á Alþingi en auðvitað verður það gert og ég mun hafa samband við hv. fyrirspyrjanda þegar það liggur fyrir eins og ég hef þegar sagt henni í einkasamtali, að vísu fyrir næstum því ári en það stendur enn.