131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

7. mál
[11:27]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Talandi um láglaunafólk. Ég ætla að gera því kleift að hækka launin sín, hætta að vera láglaunafólk, hætta að vera skjólstæðingar hv. þm., sem lifir á því að til séu nægilega margir láglaunahópar í þjóðfélaginu. Hvað ætlar hann að gera ef engir láglaunahópar eru lengur til? Hann yrði væntanlega atvinnulaus.

Ég vil að menn hætti að tala um fólk sem fátæklinga eins og það sé persónueinkenni. „Hann er bláeygur og fátækur.“ Þannig eigum við ekki að tala. (Gripið fram í.)

Við eigum að tala um að hann sé hugsanlega fátækur í dag en að við ætlum að hjálpa honum að breyta því.

Varðandi öryrkjana, það er fullt af fólki sem er virkilega öryrkjar og þarf virkilega á bótunum að halda. En það eru líka margir sem eru á mörkunum, sem hugsanlega gætu ef þeir fengju tækifæri til þess, ef þeir fengju vinnu t.d., breytt stöðu sinni. Ég vil vinna að því. Ég vil ekki að kerfið sé þannig að menn tapi á því að bæta stöðu sína, tapi á því að fara í háskólann, tapi á því að vera duglegir, tapi á því að vinna á hálendinu eða eitthvað slíkt. Það vil ég ekki og ég vil ekki að þeir sem eru atvinnulausir tapi á því að fara að vinna vegna þess að kerfið sé þannig uppbyggt. Þetta eru hinar svokölluðu fátæktargildrur sem menn hafa talað um, fjálglega stundum, en gleyma því að skattprósentan er einmitt hluti af því.

Þess vegna er það markmið ríkisstjórnarinnar að lækka skatta á einstaklinga, fyrst um 1% og svo 4%, til að minnka fátæktargildrurnar, hvetja fólk til að bæta stöðu sína.