131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

7. mál
[12:20]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. er kjarkaður að hætta sér út í umræðu um frammistöðu Framsóknarflokksins varðandi barnabætur. Þegar ég og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fórum úr ríkisstjórn um miðjan síðasta áratug voru greiddar ótekjutengdar barnabætur til allra barna að 16 ára aldri. (BJJ: Þá var enginn fjármagnstekjuskattur, enginn.) Í dag eru greiddar ótekjutengdar barnabætur til barna upp að sjö ára aldri. Það var flokkur sem afnam það. (BJJ: Það var enginn fjármagnstekjuskattur.) Það var flokkur hv. þingmanns. Sami flokkur lofaði því fyrir síðustu kosningar að auka þetta þannig að greiddar yrðu ótekjutengdar barnabætur til 16 ára aldurs. Hann hefur svikið það.

Það var flokkur hv. þingmanns, Framsóknarflokkurinn, sem plokkaði sem svaraði 11,3 milljörðum af barnabótum, plokkaði sem samanlagt nam 11,3 milljörðum af íslenskum barnafjölskyldum á tímabilinu 1995–2003. Svo kemur fulltrúi þessa flokks og ber sér á brjóst yfir frammistöðunni. Nú ætlar hann að skila svolitlu af ránsfengnum til baka og hann er stoltur af því.

Menn eiga að tala um svona í lokuðum herbergjum ef þeir ætla að monta sig af þessu. Menn eiga ekki að koma hingað og bera svona vitleysu á borð fyrir þjóðina.

Það breytir ekki hinu að við vorum hér að ræða um matarskatt. Í því máli er einungis ein staðreynd og hún er þessi: Framsóknarflokkurinn er eini flokkurinn sem hefur komið í veg fyrir að hægt sé að lækka matarskattinn og þar með verð á brýnum nauðþurftum.

Það kom fram í umræðu hér í morgun milli mín og hæstv. fjármálaráðherra að óvíst væri að nokkur niðurstaða næðist í þeim samningum sem eru millum þessara tveggja flokka sem nú stýra ríkinu. Það kom fram hjá hæstv. fjármálaráðherra fyrir nokkrum dögum að það væri Framsóknarflokkurinn sem ekki felldi sig við tæknilega útfærslu á hugmyndum um að lækka matarskattinn.

Niðurstaðan er þessi: Það er Framsóknarflokkurinn sem stendur gegn því að matarverð á Íslandi lækki.