131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Strandsiglingar.

161. mál
[15:31]

Flm. (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs flytjum tillögu til þingsályktunar um strandsiglingar. Flutningsmenn eru auk mín hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Þuríður Backman og Ögmundur Jónasson. Tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að undirbúa það að strandsiglingar verði eðlilegur hluti af vöruflutninga- og samgöngukerfi landsins. Ráðherra móti stefnu og aðgerðaáætlun og leggi fram lagafrumvörp í þessu skyni, ef með þarf, þannig að ríkið geti tryggt reglulegar strandsiglingar til allra landshluta með því að bjóða út siglingaleiðir. Ráðherra láti meta kostnað við að halda uppi reglulegum strandsiglingum um allt land miðað við skilgreinda þjónustu og geri tillögur um siglingaleiðir sem bjóða á út. Ráðherra skili niðurstöðum til Alþingis eigi síðar en 1. febrúar 2005.“

Í greinargerð með tillögunni segir:

Á síðustu árum hafa strandsiglingar smám saman verið að leggjast af hér á landi og allt útlit er fyrir að 1. desember nk. verði þær úr sögunni með öllu. Flutningsmenn telja að ekki verði við það unað enda má fullyrða að sjóflutningar meðfram strandlengjunni séu verulega vannýttur samgöngukostur. Því leggja þeir til að samgönguráðherra verði falið að undirbúa að strandsiglingar verði hafnar með tilstyrk hins opinbera á grundvelli útboða. Brýnt er að ráðherra grípi til aðgerða áður en Eimskipafélagið leggur af þennan þátt starfsemi sinnar þann 1. desember nk. enda gefur augaleið að eftir það verði róðurinn þyngri að tryggja slíkar samgöngur.

Á 128. löggjafarþingi lögðu flutningsmenn ásamt Árna Steinari Jóhannssyni, þáverandi þingmanni, fram tillögu til þingsályktunar um strandsiglingar. Þar var lagt til að samgönguráðherra yrði falið að skipa nefnd, strandsiglinganefnd, er léti gera úttekt á þjóðhagslegu gildi þess að hér við land væru öflugar strandsiglingar með sérstakri hliðsjón af umhverfis- og byggðaáhrifum, umferðaröryggi og fleiru. Samgöngunefnd lagði til að þeirri tillögu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar. Í svari við fyrirspurn frá mér til samgönguráðherra á síðasta löggjafarþingi um framgang þeirrar tillögu kom fram að ráðherra hefði ekki skipað strandsiglinganefnd en að ráðuneytið hefði í störfum sínum talið eðlilegt að stofnanir þess beindu athygli að strandsiglingum á grundvelli ábendinga og ágætra hugmynda í greinargerð með tillögunni. Ráðherra tók þá fram að hann teldi að tillagan hefði verið þarft innlegg í umræðuna og að við endurskoðun á samgönguáætlun hlyti að verða litið til ákveðinna þátta í henni.

Sú tillaga sem nefndarmenn nú leggja fram gengur lengra en sú sem lögð var fram á 128. löggjafarþingi að því leyti að í henni felst að hafinn verði beinn undirbúningur að því að ríkið bjóði út strandsiglingar og tryggi þannig öllum landshlutum þessa mikilvægu þjónustu. Það hefur líka breyst síðan í fyrra að boðað hefur verið að þær strandsiglingar sem voru þá í gangi leggist af.

Þess er vert að geta að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur fallist á að aðstoðarkerfi sem Bretar hafa komið á til að færa flutninga af vegum og yfir í siglingar og hóflegur styrkur ríkis til slíkra aðgerða brjóti ekki gegn samkeppnisreglum bandalagsins. Einnig hafa nýlega verið fluttar af því fréttir að Evrópusambandið sjálft hyggist nú stórauka framlög til að efla sjósamgöngur og auka flutninga á sjó, ám og vötnum og siglingaleiðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og annarri mengun og létta álagi af vegum. Í því sambandi má nefna að talið er að ending vega í sumum landshlutum verði helmingi minni en nú er ef þungaflutningar aukast sem svarar því vörumagni sem nú er flutt sjóleiðis.

Flutningsmenn telja mikilvægt að útboð á siglingaleiðum geti hafist eigi síðar en haustið 2005. Því er hér lagt til að ráðherra skili tillögum sínum sem allra fyrst og eigi síðar en 1. febrúar nk.

Með framangreindri tillögu til þingsályktunar um strandsiglingar frá 128. löggjafarþingi fylgdi ítarleg greinargerð og vísa flutningsmenn til hennar hvað varðar ýmis rök fyrir mikilvægi þess að strandsiglingar við allt landið verði tryggðar, svo sem hvað varðar umhverfissjónarmið, byggðaáhrif og samkeppnisstöðu sjóflutninga gagnvart landflutningum.

Frú forseti. Með þingsályktunartillögunni fylgja fylgiskjöl til frekari útskýringar, grein hv. þm. Ögmundar Jónassonar í Morgunblaðinu 4. ágúst sl., ritstjórnargrein Morgunblaðsins frá 5. ágúst, fréttatilkynning frá Landvernd frá 3. ágúst og grein undirritaðs í Morgunpósti VG 8. ágúst.

Ég ætla aðeins til viðbótar því sem ég hef þegar sagt vitna til fréttatilkynningarinnar frá Landvernd, með leyfi forseta:

„Í vikunni sem leið tilkynntu Eimskip að fyrirtækið hygðist leggja niður strandsiglingar við Ísland. Er þetta í beinu framhaldi af þeirri þróun sem hefur átt sér stað í vöruflutningum síðustu ár. Skipum í strandsiglingum hefur fækkað óðum á meðan sífellt hefur bæst í her vöruflutningabifreiða sem þeysa um vegi landsins. Ástæða þessarar þróunar er sögð vera sá flutningshraði sem krafist er í samfélagi okkar.

Umræðan í tengslum við þessa ákvörðun Eimskipa hefur fyrst og fremst beinst að áhrifum hennar á slit vega og aukna hættu í umferðinni. Stórir vöruflutningabílar geta valdið miklu tjóni og alvarlegum slysum lendi þeir í árekstri auk þess sem flutningur hættulegra efna á vegum getur verið varasamur. Vegaslit vörubíla er margfalt á við fólksbíla og svo virðist sem ekki hafi tekist að færa kostnaðinn við vegaslit yfir á vörubíla í samræmi við notkun þeirra.

Landvernd vill vekja athygli á því að neikvæðar afleiðingar vöruflutninga á landi eru ekki eingöngu bundnar við slys og vegaslit. Landflutningar fela í sér allt að sjöfalt meiri losun koldíoxíðs en strandflutningar og hefur losun koldíoxíðs frá landflutningum aukist um 67% á tímabilinu 1983–2002. Aukið magn koldíoxíðs í andrúmsloftinu er helsta ástæða þeirra hættulegu loftslagsbreytinga sem nú verða sífellt sýnilegri. Aukin áhersla Eimskipa á landflutninga er því afar neikvæð þróun í þessu samhengi.“

Þetta segir m.a. í ályktun Landverndar. Í grein sem ég skrifaði í Morgunpóst Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hinn 8. ágúst segir svo, með leyfi forseta:

„Samgöngur eru sá þáttur í þjónustu hvers samfélags sem ræður hvað mestu um grunngerð þess. Vöru- og fólksflutningar eru því ekkert einkamál einstakra fyrirtækja þótt margir haldi að svo sé. Samgöngur og flutningar til og frá landinu svo og innan lands eru ein af grunnstoðum sjálfstæðrar þjóðar. Framkvæmd þeirra getur eftir atvikum verið í höndum einkaaðila. Það er hlutverk löggjafans og framkvæmdarvaldsins að búa þessari þjónustu umgjörð á hverjum tíma sem er í samræmi við ábyrgð, hagsmuni, alþjóðlegar skuldbindingar og langtímastefnu stjórnvalda í samgöngumálum. Þetta var gert með stofnun Ríkisskipa og Flugfélags Íslands á sínum tíma. Þörfin og ábyrgðin á mikilvægi þessarar þjónustu fyrir þjóðina er óbreytt þótt hún sé á höndum einkaaðila.

Það þótti mikið framfaraspor og viss tímamót þegar Alþingi að tillögu samgönguráðherra Sturlu Böðvarssonar samþykkti á sl. ári samgönguáætlun til næstu 12 ára. Kostir þess vinnulags voru, að litið er samræmt á uppbyggingu samgöngumannvirkja og tilhögun samgangna á sjó, á landi og í lofti. Í þeirri áætlun eru tilgreind markmið í samgöngum með tilliti til umhverfiskrafna, öryggismála, hagkvæmni og byggðasjónarmiða m.a. Jafnt stjórnarliðar sem stjórnarandstæðingar lofuðu þau vinnubrögð og ræddu einmitt um mikilvægi sjóflutninga og samkeppnisstöðu þeirra við flutning á búlkvörum um landið. Með samræmdri samgönguáætlun væri hægt að fylgja eftir grunnstefnu hins opinbera í samgöngumálum þjóðarinnar.

Annað kemur svo á daginn. Tímabundin gróðafíkn þeirra ræður ferð og stefnu ríkisstjórnarinnar í samgöngumálum er gefið langt nef. En hún getur þó sjálfri sér um kennt.

Í skýrslu nefndar um flutningskostnað sem samgönguráðuneytið lét vinna 2003 er rakin gífurleg hækkun flutningskostnaðar á síðustu árum þrátt fyrir meinta hagræðingu:

„Samþjöppun aðila í landflutningum og þátttaka skipafélaga gerir það að verkum að tveir flutningsaðilar eru með nær alla landflutninga á Íslandi — fákeppni er því ráðandi í þessum flutningum. Samfara þessu hafa gjaldskrár flutningsaðila hækkað verulega umfram þróun neysluvöruvísitölu.“

„Í sumum tilfellum hafa sjávarútvegsfyrirtækin brugðist við með því að láta frystitogarana landa eins nálægt útflutningshöfn og hugsast getur. Aðilar kvarta yfir ógagnsæi gjaldskrár flutningsfyrirtækja og hafa tilfinningu fyrir því að ekki sé samkeppni í land- og sjóflutningum.“

Tveir aðilar, Eimskip og Samskip, eru nær allsráðandi í flutningum bæði á sjó og landi og geta í krafti þeirrar stöðu gert það sem þeim sýnist.

Það er afar óeðlilegt samkeppnislega séð að sami aðili eigi og reki flutningsnetið bæði á sjó og á landi. En eftir að bæði Eimskip og Samskip lögðu undir sig að mestu alla landflutninga hafa þau í krafti fákeppnisstöðu sinnar útilokað eðlilega og nauðsynlega samkeppni. Ekki bætir úr skák að sumir eigendur þessara fyrirtækja eru jafnframt ráðandi í öðrum stórfyrirtækjum landsins og geta beitt þeim til fjölþættari samþjöppunar og einokunar í atvinnulífinu. Það er afar brýnt að brjóta þessa samþjöppun upp og skapa eðlilegt samkeppnisumhverfi í vöruflutningum.“

Þetta er sú staða, frú forseti, sem við stöndum frammi fyrir. Verði nú eins og horfir til 1. desember leggjast strandsiglingar af þannig að við höfum bara höfnina á Grundartanga og síðan er engin önnur útflutningshöfn fyrr en á Eskifirði og svo aftur í Reykjavík. Ég trúi því ekki að þetta sé vilji þingsins í þróun samgöngu- og flutningsmála hér á landi. Þetta skerðir samkeppnisstöðu einstakra strandbyggða.

Það vill svo til að ég þekki til á Sauðárkróki. Formaður samgöngunefndar Skagafjarðar, Brynjar Pálsson, sagði mér að þessi breyting þýddi að 1.200–1.500 40 feta gámaeiningar sem nú fara um höfnina mundu ekki lengur gera það en það er reyndar aðalútflutningsvara steinullarinnar. Auk þess er þaðan flutt nærri þrefalt magn af steinull með bílum til Reykjavíkur sem áður var flutt á sjó. Við sjáum að bara þetta eitt þýðir fyrir þessa höfn 7–8 millj. kr. tap. Margfeldið er svo með auknu álagi á vegum og fari svo að flutningskostnaður verði hærri skerðir þetta samkeppnisstöðu þessa fyrirtækis.

Ef við tökum hafnirnar á Vestfjörðum er staðan enn verri þar því að það eru enn verri vegasamgöngur frá höfnunum á Vestfjörðum til Eskifjarðar, Reykjavíkur eða Grundartanga.

Frú forseti. Það er brýnt að tekið verði á þessum málaflokki, strandsiglingum, með samfélagslegri ábyrgð og því leggjum við til, flutningsmenn tillögunnar, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að ráðherra grípi til aðgerða og vinnu þegar í stað sem tryggi að strandflutningar, áætlunarflutningar meðfram ströndum landsins, verði fastur og ákveðinn liður í þjónustu landsmanna hringinn í kringum landið. Það má gera með þeim hætti að siglingaleiðin sé skilgreind, skilgreindar séu lágmarkskröfur og lágmarksþjónusta boðin út þannig að sem mestrar hagkvæmni verði þar gætt.