131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Skipan nefndar á vegum fjármálaráðuneytis.

[15:07]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur fyrir að hreyfa þessu mikilvæga máli. Það er alls ekki rétt sem hæstv. fjármálaráðherra segir, að það sé aukaatriði hvernig skipist í slíka nefnd á vegum hins opinbera. Það er algjört meginmál og algjört aðalatriði að fulls jafnræðis kynjanna sé gætt og það er að sjálfsögðu hneyksli á árinu 2004 að hið opinbera skuli ekki hafa komið sér upp vinnureglum sem tryggi jafna skipan kynjanna í allar slíkar nefndir. Það er ástæða til að benda á mikilvægi þess að taka upp breytt vinnubrögð við slíka nefndarskipan til að koma í veg fyrir að svo óheppilega skipist til sem gerir í því tilfelli sem hér um ræðir, að eintómir karlar séu skipaðir í nefndina.

Til að mynda hefur hv. þm. Jóhann Ársælsson á öðrum vettvangi viðrað ágætar hugmyndir sem kæmu í veg fyrir að svo hallaði á annað kynið eða, eins og hér um ræðir, að það sé engin kona í nefndinni. Þær reglur eru þess eðlis að dregið sé um skipanina þannig að öðrum hvorum aðilanum beri að skipa aðila af öðru kyninu og þá hinum af hinu kyninu. Með því væri algjörlega útilokað að slíkt hneyksli eins og hér um ræðir ætti sér stað. Þannig er fullt jafnræði kynjanna í nefndunum tryggt að fullu og öllu og engin leið að við þurfum að horfa fram á að slíkir hlutir gerist sem hér um ræðir.

Ég skora á hæstv. fjármálaráðherra að taka málið upp aftur, endurskoða skipan í nefndina og tryggja jafnan hlut kynjanna í þessari nefnd sem og öðrum.