131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Rússneskur herskipafloti við Ísland.

[15:44]

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Hin langa vera rússneskra herskipa hér við land leiðir hugann að vörnum landsins og varnarsamningi okkar. Við höfum verið fullgildir meðlimir í NATO frá upphafi og verið í farsælu samstarfi við Bandaríkjamenn gagnvart vörnum landsins á grundvelli varnarsamnings okkar við þá. Sú uppákoma með veru rússneskra skipa upp við land sýnir enn á ný að mikilvægt er að standa vel að öllu NATO-samstarfi í framhaldinu og viðhalda traustum vörnum landsins, en við höfum átt í viðræðum um þann samning við Bandaríkjamenn. Ég tek undir þær raddir sem efast mjög um gildi þeirrar nýju stefnu Samfylkingarinnar. Ég tel að hún sé mjög hæpin einmitt gagnvart varnarsamningi okkar við Bandaríkjamenn.

Virðulegur forseti. Ég vil tengja veru rússneskra herskipa hér við land við umhverfisþátt málsins. Alla vega eitt þessara skipa var kjarnorkuknúið eins og fram hefur komið. Það er altalað að rússneska flotanum er mjög illa við haldið. Þar er um að ræða mikinn fortíðarvanda frá tíma Sovétríkjanna, frá tímum kommúnismans.

Virðulegur forseti. Við Íslendingar erum mjög háðir sjávarútvegi og markaðir okkar eru mjög viðkvæmir. Vera rússneska flotans getur haft neikvæð áhrif á þá markaði ef eitthvað kemur upp á. Við Íslendingar höfum mótað stefnu um aðaláherslur okkar varðandi baráttu á umhverfisvettvangi, alþjóðlega, og þar hafa aðalmálin verið loftslagsmál og varnir gegn mengun hafsins. Gagnvart mengun hafsins hefur aðalumræða verið geislamengun og mengun vegna þrávirkra lífrænna efna, gagnvart geislamengun hefur þar verið Sellafield og mengun frá Kólaskaga og fyrrum Sovétríkjunum.

Ég tel eðlilegt að fram komi úr þessum stóli á Alþingi að við teljum mjög óæskilegt að Rússar séu hér upp við land með flota sinn. Ég tel að (Forseti hringir.) það skipti máli að þau skilaboð komi héðan.