131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Rússneskur herskipafloti við Ísland.

[15:50]

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Það er vissulega rétt að hagsmunir Íslendinga liggja í því að vernda efnahagslögsögu okkar fyrir mengun og koma í veg fyrir eftir þeim leiðum sem færar eru að slys verði og bregðast við ef slíkt á sér stað.

Í umræðunni sem fram hefur farið í dag hefur hins vegar komið fram afar mikill misskilningur af hálfu ýmissa hv. þingmanna sem hér hafa talað.

Í fyrsta lagi er vert að hafa í huga að flotaæfing af því tagi sem átti sér stað er fullkomlega heimil á þeim stað sem hún fór fram samkvæmt alþjóðalögum og alþjóðlegum sáttmálum. Tólf mílna landhelgin er friðhelg gagnvart slíkum aðgerðum, nema með fullu samþykki stjórnvalda, en efnahagslögsagan er það ekki. Það er klárt samkvæmt alþjóðalögum og alveg ljóst að íslensk stjórnvöld hafa ekki beinan íhlutunarrétt í aðgerðir eða æfingar á því hafsvæði. Ef hv. þingmenn eru að tala um að íslensk stjórnvöld hafi sýnt vanrækslu með því að hlutast ekki til um þessar aðgerðir eða hafa í frammi beinar íhlutunaraðgerðir, þá eru sömu hv. þingmenn að biðja íslensk stjórnvöld um að ganga á svig við alþjóðlegar reglur sem á þessu sviði gilda.

Þetta er mjög mikilvægt að hafa í huga af því að þær umræður sem hafa átt sér stað hérna hafa verið mjög villandi að þessu leyti.

Einnig er kannski rétt að taka fram af því menn hafa rætt um hættuna af rússneska flotanum og vitna til orða rússnesks flotaforingja. Ef menn leita vel á netinu munu þeir finna ummæli sama flotaforingja þar sem hann tók þau ummæli sín til baka að nefnt beitiskip gæti sprungið í loft upp. Menn ættu því að skoða þann þátt aðeins betur.

Hins vegar er athyglisvert að heyra af hálfu Samfylkingarinnar sem talað hefur í dag, (Forseti hringir.) að þá er annars vegar sagt að íslensk stjórnvöld vanræki eftirlitsskyldu en (Forseti hringir.) á sama tíma er talað um að hér eigi að afnema allar loftvarnir.