131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Atvinnuvegaráðuneyti.

15. mál
[17:54]

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um stofnun atvinnuvegaráðuneytis. Eins og fram kom í máli hv. framsögumanns, Össurar Skarphéðinssonar, standa allir þingmenn Samfylkingarinnar á bak við þetta mál og það sýnir kannski þann þunga sem við viljum setja á það og teljum að nú þurfi að taka þetta í alvöru á dagskrá.

Þetta mál snýst um að setja á laggirnar eitt nýtt og öflugt ráðuneyti atvinnumála í stað þeirra fjögurra sem nú eru fyrir hendi, þ.e. landbúnaðar-, sjávarútvegs-, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis. Við leggjum á það áherslu í þingsályktunartillögunni að þeirri uppstokkun verði hraðað eins og kostur er án þess þó að flanað sé að neinu og við leggjum til að undirbúningi stofnunar hins nýja ráðuneytis verði lokið fyrir árslok 2006. Við höfum því um það bil tvö ár til að gaumgæfa með hvaða hætti við getum best staðið að slíkri breytingu.

Af hverju erum við að flytja þingsályktunartillögu eins og þessa? Svarið við því er einfalt. Þessi ráðuneyti eins og þau standa í dag eru börn síns tíma þegar landbúnaður og sjávarútvegur t.d. voru nánast einu burðarásar atvinnulífsins í landinu. Báðar þessar greinar voru mjög miðstýrðar og sóttu mikið til ríkisins um sín daglegu rekstrarmál. Við munum t.d. að ekki er langt síðan verðlagsráð sjávarútvegsins var aflagt. Ætli okkur þætti ekki undarlegt í dag ef til væri eitthvað sem héti verðlagsráð sjávarútvegsins sem verðlegði alla titti sem upp úr hafinu kæmu eins og gert var áður fyrr?

Við aukinn iðnað og fjármálaumsýslu komu síðan ráðuneyti iðnaðar og viðskipta og ef við ætlum að halda okkur við það að atvinnuvegir sem vaxa upp og eru orðnir nokkuð stórir í efnahagslífi landsmanna þyrftum við núna að fara að huga að stofnun ferðamálaráðuneytis, hugbúnaðarráðuneytis jafnvel, líftækniráðuneytis, lyfjamálaráðuneytis og svo mætti lengi telja. Ætli öllum þeim sem þessu velta fyrir sér í alvöru þætti það ekki hálfundarleg áhersla ef við teldum að við þyrftum að setja upp sérráðuneyti fyrir hvern þann atvinnuveg sem fer að skipta verulegu máli í efnahagslífi landsmanna.

Nei, frú forseti. Núverandi skipulag er tímaskekkja og full ástæða er fyrir okkur að taka til endurskoðunar það kerfi sem nú er. Í greinargerð með tillögunni eru dregin fram ákaflega skýr rök um vægi einstakra atvinnugreina og hvernig þau hafa breyst í gegnum tíðina.

Sá sem hér stendur var 10 ára gamall þegar núverandi skipan var komið á að mestu. Ástandið hefur lítið breyst nema umhverfisráðuneytið hefur komið síðan. Veltum því fyrir okkur í alvöru hve margir hlutir á Íslandi hafa staðið óbreyttir nánast síðan árið 1969. Þeir eru ekki margir og full ástæða fyrir okkur að stjórnkerfi ríkisins taki einhverjum breytingum líka á svo löngum tíma sem hér um ræðir.

Við höfum heyrt það hjá þeim sem stjórna landinu í dag að nú sé mikil ástæða til og nauðsynlegt miðað við breytta tíma að sameina sveitarfélög í landinu. Rökin eru þau að nauðsynlegt sé að taka þetta upp reglulega og skoða hver verkefni sveitarfélaga séu og hvort við þurfum ekki að gera einhverjar breytingar á þeirri skipan sem verið hefur til langs tíma. Í raun og veru getum við talað á nákvæmlega sama hátt um ráðuneytin. Er ekki full ástæða til að skoða reglulega miðað við þær breytingar sem eru í þjóðlífi okkar hvort ástæða sé til að velta fyrir sér breytingu á ráðuneytaskipan?

Sveitarstjórnarmönnum hefur oft verið legið á hálsi fyrir að þeir séu seinir til, vilji helst ekki ræða sameiningu sveitarfélaga og rökin sem heyrst hafa eru þá þau að það séu einhverjar smákóngar heima í héraði sem passi sitt og haldi utan um sitt og engu megi breyta. Getur verið að við séum að horfa á einhverja hliðstæðu þegar kemur að því að velta fyrir sér hvort breyta mætti hlutverki ráðuneyta, fækka þeim, sameina eða breyta verkaskiptingu á einhvern hátt?

Hér talaði flutningsmaður um að hugsanlega gætu sparast einhverjir fjármunir við þetta og auðvitað ber að velta því fyrir sér í alvöru hvernig við getum farið best með það fé sem okkur er treyst fyrir að fara með. Ef við tökum saman þá fjármuni sem fara til aðalskrifstofa þeirra ráðuneyta sem um ræðir er gert ráð fyrir í fjárlögum ársins 2005 að til aðalskrifstofu landbúnaðarráðuneytis fari 204 milljónir, 172 til sjávarútvegsráðuneytis, 139 til iðnaðarráðuneytis og 122 milljónir til aðalskrifstofu viðskiptaráðuneytis. Samtals gera þetta 637 milljónir eingöngu til aðalskrifstofa þessara ráðuneyta. Ef við berum þetta saman við önnur ráðuneyti og tökum fjárveitingar sem ætlaðar eru til aðalskrifstofa hinna ráðuneytanna á sama ári þá eru það um það bil 3.370 millj. kr. Þar munar reyndar mestu um utanríkisráðuneytið með 832 milljónir en önnur ráðuneyti eru smærri. Við erum sem sagt að tala um væntanlegar fjárveitingar á árinu 2005 til aðalskrifstofu ráðuneytanna upp á 4 milljarða kr. Við hljótum að geta velt því fyrir okkur í alvöru hvort þarna sé ekki matarhola til að ná fram einhverjum sparnaði í stað þess að fara að eins og ríkisstjórnin sem ætlar nú fram með 1% sparnaðarkröfu á alla, flata sparnaðarkröfu á alla. Er ekki nær að velta því fyrir okkur hvort við getum ekki sparað frekar í aðalskrifstofum ráðuneyta eða með því að breyta hlutverki og jafnvel fækka ráðuneytum?

Þegar ráðuneyti sem eru fyrir hendi finna að verkefnum er að fækka er alltaf hætta á að það geti kannski orðið erfitt að réttlæta tilveru þeirra. Má þá ekki búast við að þau fari að leita verkefna, komi fram með ný verkefni sem þau telja eðlilegt og sjálfsagt að þau þurfi að sinna með þeim fjármunum sem þarf til þess þannig að í raun séu ráðuneytin að viðhalda sjálfum sér með því að finna upp ný verkefni þegar önnur detta af borðum þeirra?

Sá sem hér stendur tók þátt í því að flytja tillögu á síðasta þingi um að skoða fækkun ríkisstofnana og ég segi það sama í fullri einlægni með ráðuneytin. Að sjálfsögðu eigum við að skoða líka hvort ekki sé full ástæða til þess að fækka þeim. Alla vega tel ég, frú forseti, að það sé full ástæða fyrir okkur til að ræða hugmyndina í fullri alvöru. Ég sé ekki betur en að það sem við leggjum til í þessari þingsályktunartillögu falli mjög vel að málflutningi stjórnarliða hvað varðar aðrar stofnanir og aðra málaflokka en ráðuneytin sjálf. Við þurfum að passa upp á að það séu ekki bara einhverjir smákóngar að passa stólana sína heldur séum við í alvöru að velta fyrir okkur hvernig við gerum þetta best.

Það er kominn tími til þess, frú forseti, að við gerum eitthvað í þessu máli í alvöru og vona ég að stjórnarliðar taki þátt í umræðunni og þeirri vinnu með okkur við að ná fram breytingu. Í alvöru talað hefur verið óbreytt ástand nánast frá 1969 og ég sé þegar ég horfi yfir salinn að allir þeir eða flestir sem hér sitja inni muna vel eftir árinu 1969. Hvernig voru hlutirnir þá? Viljum við hafa þá svoleiðis áfram? (Gripið fram í.) Gott væri að fá Trúbrot aftur, það er alveg rétt, en við þurfum að taka á því að breyta þessu.