131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Atvinnuvegaráðuneyti.

15. mál
[18:23]

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka þær prýðisgóðu umræður sem hér hafa orðið í dag um þessa þingsályktunartillögu okkar þingmanna Samfylkingarinnar um að stofna eitt öflugt atvinnuvegaráðuneyti og leggja samhliða niður þau atvinnuráðuneyti sem fyrir eru, iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, sjávarútvegsráðuneyti og landbúnaðarráðuneyti. Mér þótti vænt um að heyra þær góðu undirtektir sem tillagan fékk hjá hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni, formanni þingflokks frjálslyndra, og 2. þm. Reykv. n., Ástu Möller. Mér þótti gott að heyra hv. þm. Ástu Möller segja það skýrt og skorinort að hún styddi tillöguna. Hún taldi meira að segja umhendis að komast að þeirri niðurstöðu að þarna væri stigið nægilega stórt skref, hún hefði viljað ganga lengra.

Eins og kom fram í máli hv. þm. Jóhanns Ársælssonar er í tillögunni lagt til að samhliða því að þetta nýja ráðuneyti verði búið til verði gerð stjórnsýsluúttekt á Stjórnarráðinu öllu með það fyrir augum að kanna hvort hægt væri að sameina fleiri ráðuneyti. Hv. þm. Ásta Möller taldi upp fjölmargar hugmyndir sem hefðu komið fram og við flestar þeirra kannaðist ég. Það er ekkert nýtt undir sólinni. Þessi hugmynd um atvinnuvegaráðuneyti var fyrst rökrædd af alvöru þar sem ég var viðstaddur í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks undir forsæti Davíðs Oddssonar. Ég held að það hafi verið 1994 sem menn ræddu hugmyndina í alvöru. Ef minni mitt brestur ekki held ég að það hafi jafnvel verið minnst á hana í hinni merku Viðeyjaryfirlýsingu, þeirrar ríkisstjórnar sællar minningar.

Ástæðan fyrir því að ég rek þetta hér er að ... (Gripið fram í: 1991.) 1991? Engu að síður minnist ég þess að þetta var rætt 1994 af alvöru í ríkisstjórninni sjálfri, þó óformlega. En því rifja ég þetta hér upp að þetta er mjög erfitt mál. Það er fyrirstaða innan Stjórnarráðsins, hjá embættismannakerfinu, sem er eðlileg miðað við gangvirki þeirrar flóknu vélar og sömuleiðis er alveg ljóst að það er líka pólitísk mótspyrna hjá t.d. ýmsum ráðherrum. Það hef ég alltaf vitað og við höfum alltaf vitað það sem að þessu höfum komið.

Ég rifja það upp, herra forseti, að ég viðraði þessar hugmyndir lítillega hér í fyrra af öðru tilefni. Þá stóð yfir umræða við hæstv. landbúnaðarráðherra og ég nefndi þetta þar sem verið var að tala um stofnanir sem tengdust honum. Eins og menn muna fuðraði hæstv. landbúnaðarráðherra upp. Honum fannst þetta alveg skelfilegt vegna þess að með þessu væri verið að leggja niður landbúnaðarráðuneytið.

Það er alveg hárrétt. Með þessu væri verið að leggja niður landbúnaðarráðuneytið. Eins og ég sagði í ræðu minni er þar um að ræða dvínandi grein hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Hlutfall landbúnaðar af landsframleiðslunni er einungis 1%, hlutfall ferðaþjónustunnar er 4,5% og, eins og ég gat um, upplýsingatækninnar 5,5% þannig að munurinn er alveg gríðarlegur. Samt höfum við landbúnaðarráðuneytið, sem hefur heilan ráðherra, sem hefur heilan háskóla, sem hefur margar undirstofnanir til að sinna þessari grein sem stöðugt færri hafa framfærslu af og minna umleikis. Samt sem áður tekst ekki innan þessa ráðuneytis að hlúa þannig að þessum vaxtarsprotum sem sannarlega teygja sig upp úr moldinni svo að viðunandi sé.

Ég er þeirrar skoðunar t.d. að ef það tækist að ná þessu ráðuneyti til fæðingar, atvinnuvegaráðuneytinu, yrði það miklu betra fyrir ýmsa vaxtarsprota í landbúnaði og hugsanlega hefðbundna grein eins og sauðfjárrækt en er í núverandi fyrirkomulagi. Ég held t.d. að í landbúnaði sjáist örla í framtíðargreinar sem kunni að skipta miklu í framtíðinni þar sem er samþætting á plöntukynbótum og ákveðinni erfðatækni sem ég held að gæti þættast við ólíka atvinnugrein sem er framleiðsla á lyfjum. Það er þegar vísir að þessu. En það er hvergi pláss fyrir þetta neins staðar, hvergi rými í Stjórnarráðinu til að taka nákvæmlega þetta sem sker á múra margra ráðuneyta. Það er ekki hægt að marka pólitíska stefnu um hvernig hægt sé að styðja svona nýjar hugmyndir á frumbýlingsárunum eins og gert var í árdaga þeirra hefðbundnu atvinnugreina sem í dag hafa malað gull inn í íslenskt samfélag.

Ég held t.d. að það sem kalla mætti hefðbundna en þó nýja atvinnugrein eins og hrossarækt gæti dafnað betur í skjóli stórs atvinnuvegaráðuneytis þar sem menn hefðu ákveðna sjóði til að styðja við nýsköpun, rannsóknir og framþróun en þyrftu ekki sjálfkrafa að veita þessum sjóðum öllum í hefðbundnu greinarnar. Ég dvel við landbúnaðarráðuneytið sem mér er síður en svo illa við en ég tel það einfaldlega dæmi um þessar miklu breytingar sem hafa orðið í atvinnulífinu. Hægt væri að fara lið fyrir lið yfir allar þær stofnanir sem eru innan landbúnaðarráðuneytisins og finna þeim stað annars staðar.

Ég er auðvitað þeirrar skoðunar t.d. að það sé sóun að Landbúnaðarháskólinn nýstofnaði sem vissulega var búinn til úr þremur skólum skuli vera þar undir en ekki undir menntamálaráðuneytinu sem kann að reka skóla og gerir það vel. Undir handarjaðri þess hafa t.d. orðið til fyrsta flokks háskólar á síðustu árum. Ég segi undir handarjaðri og meina þá í jarðvegi þeirrar pólitísku stefnu sem þar hefur verið mótuð um háskólana, að mörgu leyti skynsamlega. Ég tel að þetta umhverfi þurfi t.d. fyrir Landbúnaðarháskólann. Ég er þeirrar skoðunar að Skógrækt og Landgræðsla eigi að vera í sömu stofnun og að obbi þeirrar stofnunar, þ.e. eftirlits- og matshlutverkið, eigi ekki að vera í landbúnaðarráðuneytinu í dag, hvað þá heldur hinu nýja atvinnuvegaráðuneyti heldur í umhverfisráðuneytinu.

Ég er þeirrar skoðunar að kannski sjáum við hvergi hversu nauðsynlegt er að brjóta þetta upp eins og þegar við skoðum matvælaframleiðslu. Hvernig skilgreinum við Íslendingar okkur? Að minnsta kosti að hluta til sem matvælaframleiðsluþjóð enn þá. Við erum að framleiða fisk og hann hefur verið undirstaðan á uppbyggingu samfélagsins og það eru sífellt harðari kröfur um gæði matvælaframleiðslunnar. Við munum aldrei ná því að selja hágæðakjöt nema við stöndum undir öllum kröfum um eftirlit.

Þegar við skoðum matvælaframleiðslu á Íslandi kemur í ljós að eftirlit með matvælum er haft undir sjávarútvegsráðuneytinu, landbúnaðarráðuneytinu, umhverfisráðuneytinu og hugsanlega enn þá að hluta til undir heilbrigðisráðuneytinu. Þetta er ákaflega flókið og erfitt, og það er erfitt eins og þeir sem hafa staðið í matvælaframleiðslu vita að fylgja þeim kröfum og því pappírsverki öllu sem tengist þessu. Þess vegna viljum við setja upp eitthvað sem við gætum kallað matvælastofnun sem fylgir allri matvælaframleiðslu á Íslandi eftir. Hún væri t.d. vel staðsett undir slíku nýju ráðuneyti.

Það er þessi hugsun sem við þurfum að hafa að leiðarljósi, að gera hlutina einfaldari og skilvirkari, gera þá þannig úr garði að þeir hæfi betur atvinnulífinu og henti betur til að ýta undir aukna verðmætasköpun í samfélaginu. Það gera núverandi ráðuneyti atvinnumála ekki í nægilega ríkum mæli.

Ég nefndi það áðan að hægt væri að fara svona yfir landbúnaðarráðuneytið og ég er þeirrar skoðunar að hægt væri að fara yfir allar stofnanir landbúnaðarráðuneytisins og finna þeim stað annars staðar, hjá öðrum ráðuneytum. Ýmis verkefni væri hægt að vista út, hreinlega setja á markað eins og ýmiss konar eftirlit með fóðri og aðföngum, og líka þessar sjö ríkisstofnanir sem allt í einu hafa orðið til og heita „landshlutabundin skógræktarverkefni“. Hvers vegna er það ekki sett á almennan markað í upphafi með einhvers konar þjónustusamningum? Þarna er ekki um neitt annað að ræða en útþenslu ríkisins. Nýjar ríkisstofnanir eru að koma upp og það er allt í fínu lagi að ríkið taki ákvörðun um að verja fjármunum sínum með þessum hætti en það er skynsamlegast að gera það þá í krafti einhvers konar samninga þar sem ríkið kaupir ákveðna þjónustu eða framleiðslu af öðrum og notar hana síðan til að byggja upp þessa skóga. Þetta tel ég nú.

Þegar búið er að fara svona yfir landbúnaðarráðuneytið er eiginlega ekkert eftir af því — fyrirgefðu, hv. þm. Jón Bjarnason, þetta er ekki sagt ráðuneytinu til hnjóðs — nema þessir miklu búvörusamningar. Þá spyr maður sig: Erum við að verja fjármununum nægilega vel? Ég er þeirrar skoðunar að hægt væri að verja peningunum sem í dag fara í óþarfa yfirbyggingu og í það að reka of litlar stofnanir miklu betur í að styðja það sem ég tel að verði í framtíðinni vaxtarsprotar í landbúnaði. Allar atvinnugreinar rísa og hníga alveg eins og lifandi verur. Þær rísa alltaf upp aftur og ég tel að landbúnaður eigi öðruvísi en samt bjarta framtíð fyrir höndum.

Herra forseti. Ég ætla ekki að orðlengja frekar um þetta en ég er sem sagt þeirrar skoðunar að þarna væri hægt að spara fjármuni og, sem skiptir kannski mestu, búa til stoðkerfi fyrir atvinnulíf sem er miklu betra, sérstaklega betra fyrir vaxtarsprotana. Ég er þeirrar skoðunar almennt að við á Alþingi eigum að setja sem fæst lög sem varða atvinnulífið en við eigum hins vegar að hafa skilvirkt eftirlit, skilvirkar og sterkar eftirlitsstofnanir sem hafa eftirlit með því að atvinnulífið dafni en við eigum fyrst og fremst að leyfa atvinnulífinu að setja sínar eigin reglur eins og við sjáum í fjármálalífinu í vaxandi mæli. Það á hins vegar að vera hlutverk ríkisins að því er stuðning varðar og pólitísk nýmæli hvað stefnumótun varðar að einbeita sér fyrst og fremst að því sem nýtt er. Við eigum ekki að einbeita okkur að því sem hægt er að kalla sólarlagsgreinar heldur sólrisugreinar og þær eru svo sannarlega fyrir hendi. Þegar ég stóð fyrst í þessum ræðustól og talaði um atvinnumál fyrir 12 árum hafði ég ekki einu sinni hugmynd um að sumar af þessum greinum sem í dag eru byrjaðar að mala gull yrðu til þegar ég yrði orðinn 51 árs gamall og formaður Samfylkingarinnar og stæði hérna og malaði um þessa sömu hluti. Nema nú skil ég þá miklu betur.

Ég vil svo segja að ég er alveg sammála því sem hv. þm. Ásta Möller sagði. Það er hægt að fara svona í fleiri ráðuneyti. Ég tel t.d. miklum vafa undirorpið að það eigi að vera til ráðuneyti eins og samgönguráðuneyti. Ferðamálin eiga að vera undir atvinnuvegaráðuneytinu og samgöngur eru einfaldlega of veigalítill og einfaldur þáttur þrátt fyrir allt í samfélaginu til að þær verðskuldi heilt ráðuneyti. Ég er þeirrar skoðunar t.d. að það sem í dag er kallað dóms- og kirkjumálaráðuneyti eigi að efla töluvert þannig að það gæti t.d. tekið við málefnum sveitarfélaga, málefnum útlendinga sem núna eru undir félagsmálaráðuneytinu, þ.e. vinnumarkaðspartinum, og samgöngunum og ýmsu fleiru. Það er ráðuneyti sem ætti að styrkja og efla. Við gætum kallað það hvað sem við vildum, innanlandsráðuneyti eða hvað sem er, en það yrði stærra og þróttmeira.

Heimurinn hefur bara verið að breytast þannig að það er rökrétt að hnitmiða meira atgervi í því ráðuneyti og þannig væri hægt að fara yfir sviðið. Hv. þm. Ásta Möller benti t.d. á hvernig múrarnir millum ráðuneyta eins og heilbrigðisráðuneytisins annars vegar og félagsmálaráðuneytisins hins vegar koma niður á fólki, oft með sorglegum hætti. Það er alveg hárrétt hjá henni. Þeir múrar sem þarna eru á milli koma niður t.d. á geðsjúkum og geðfötluðum einstaklingum. Vegna þess að ekki hefur tekist að brjóta niður múrana einangrast menn innan þeirra og okkur tekst ekki að færa t.d. búsetu slíkra einstaklinga yfir á annan vettvang þar sem það er ódýrara fyrir samfélagið og miklu betra fyrir þá sjálfa, yki lífsgæði þessara einstaklinga. Þá erum við komin inn fyrir vébönd annars ráðuneytisins sem þar átti að taka að sér kostnaðinn, eða sveitarfélag.

Það er ekki gott þegar kerfið verður til þess að rýra möguleika fólks á lífshamingju og það er að gerast í því tiltekna máli sem hv. þm. drap hér á. Ég hef fullan skilning á því og hef kynnt mér það. Svona mætti í reynd lesa sig frá ráðuneyti til ráðuneytis og komast að því að það er hægt að sameina þau og þannig fækka þeim en miklu meira gildir þetta þó um stofnanir hinnar íslensku stjórnsýslu. Þær eru einfaldlega allt of litlar, allt of veikar til að geta sinnt af nægilegum þrótti þeim verkefnum sem margþætt og flókið tæknisamfélag er að kasta í fangið á þeim. Og ég tel að tillaga okkar sé a.m.k. mjög ærleg viðleitni til að svara þessum nýju kröfum, svara þessum breytingum, og svo er auðvitað hægt að spinna út frá henni. Það kann vel að vera að hér sé einungis um lítið skref að ræða en það er fyrsta skrefið og það er tekið að yfirveguðu máli.

Við horfum á þá staðreynd að ríkisstjórnin hefur — þrátt fyrir að hafa allar götur frá 1995 og þrátt fyrir allar samþykktir landsfunda einstakra flokka eins og Sjálfstæðisflokksins — ekki náð því að koma þessu í verk. Það er ástæða fyrir því og sú ástæða er ekki viljaleysi ráðherranna. Hún er miklu frekar að það er innbyggð mótspyrna, bæði mekanísk og hjá einstaklingum í kerfinu, og þá er spurningin: Er betra að byrja á þessu í minni skrefum? Í staðinn fyrir að segja: Við ætlum að stokka upp allt stjórnkerfið, gætum við sagt: Við ætlum að taka þennan ákveðna afmarkaða hluta. Það er sú nálgun sem við höfum kosið.

Ég gleymdi síðan að geta þess, herra forseti, að ég legg til að tillagan verði send til allsherjarnefndar að umræðu lokinni.