131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Atvinnuvegaráðuneyti.

15. mál
[18:46]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Ég vil byrja mál mitt á því að lýsa yfir stuðningi við þingsályktunartillöguna og tel löngu orðið tímabært að endurskoða verkaskiptingu ráðuneytanna. Ég tel að menn ættu að hraða þessu þannig að vinnan liggi fyrir þegar jarðvegur verður fyrir því að skipta ráðuneytunum upp. Við sáum að það var mjög erfitt að fækka ráðherrum annars ríkisstjórnarflokksins um einn og hvað þá ef farið verður í þessa breytingu, það gæti orðið enn erfiðara. Þess vegna hef ég þá trú að það verði ekki farið í breytinguna fyrr en við ríkisstjórnarskipti.

Mönnum hefur verið tíðrætt um matvælaeftirlit og matvælaöryggi og telja að matvælaöryggi yrði betra með einni allsherjarstofnun, matvælastofnun, og vissulega má fara yfir þann málaflokk. En ég tel mikilvægast af öllu varðandi matvælaeftirlit að farið sé úr því fari að atvinnuvegaráðuneytin séu með eftirlitsstofnanir sínar, við sjáum að landbúnaðarráðuneytið er með yfirdýralækni og sjávarútvegsráðuneytið er með Fiskistofu. Ég tel að menn gætu farið þá leið án þess að breyta nokkru í verkaskiptingu ráðuneyta, að flytja allt matvælaeftirlit yfir í umhverfisráðuneytið. Ég tel öll rök hníga að því að neytendavernd verði tryggð þar.

Þó að eftirlit sé allra góðra gjalda vert er það ekki endilega svarið við matvælaöryggi. Það þekki ég. Það liggur oft í menningu og ég er á því að stofnun húsmæðraskólanna hafi skipt hvað mestu hvað varðar matvælaöryggi á Íslandi, þ.e. að þeir hafi innleitt virðingu og skilning á þrifum og góðu hreinlæti.

Eins tel ég að við ættum að huga að því að aflétta þessum ströngu reglum. Menn ættu að íhuga, sérstaklega hvað varðar landbúnaðinn, að skoða hvort ekki eigi að leyfa heimagerð matvæli í meira mæli en nú er gert. Erlendis, t.d. í Frakklandi og víðar, eru heimagerð matvæli á mörkuðum en hér er hæstv. landbúnaðarráðherra mjög á móti því að sameina ráðuneyti en hins vegar mjög fylgjandi fækkun sláturhúsa og sameiningu þeirra og að koma öllum sláturhúsum og slátrun í útflutningshús. Ég tel að það sé misráðið.

Ef hæstv. landbúnaðarráðherra er umhugað um sparnað ætti hann einmitt að skoða þá tillögu sem hér liggur fyrir með opnum huga. Ég tel að hún geti verið mun vænlegri leið til sparnaðar fyrir almenning í landinu og geti skilað mun meiri árangri en t.d. sú stefna að sameina sláturhús í einhver útflutningshús. Hæstv. landbúnaðarráðherra notar einhverjar matvælareglugerðir til þess að gera minni sláturhúsum ókleift að starfa. Ég er á því að sú ráðagerð sé eitt dæmi um að landbúnaðarráðuneytið sé að misnota eftirlitsþáttinn til þess að framkvæma pólitíska stefnu. Þess vegna eru það enn ein rökin fyrir því að landbúnaðurinn fari í atvinnumálaráðuneytið og ég tel einfaldlega að landbúnaðinum yrði betur borgið þar en að vera sér og sérstaklega í höndum hæstv. landbúnaðarráðherra, Guðna Ágústssonar.

Að lokum vil ég enn og aftur lýsa yfir stuðningi við málið og tel að það sé vel þess virði að fara sem fyrst í vinnuna svo hún liggi fyrir þegar jarðvegur verður fyrir breytingar.