131. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2004.

Skráning nafna í þjóðskrá.

17. mál
[18:52]

Flm. (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Herra forseti. Ég tala fyrir máli sem lagt var fyrir 130. löggjafarþing, þ.e. í fyrra, en ekki vannst tími til að mæla fyrir því. Það felur í sér að Alþingi álykti að fela hæstv. ráðherra Hagstofu Íslands að ráða bót á því að löng nöfn skuli ekki vera skráð fullum stöfum í þjóðskrá.

Hvert skráð nafn má nú einungis taka 31 stafbil. Fjölmörg íslensk nöfn sem teljast ekki óvenjuleg á nokkurn hátt, t.d. nafnið Sigríður Kristbjörg Sigurðardóttir, eru of löng til þess að uppfylla þessi ströngu skilyrði. Málið varðar að öllum líkindum ekki mjög marga en þó má gera ráð fyrir að það skipti þá er málið varðar mjög miklu.

Ef vilji er fyrir hendi hlýtur að vera unnt að finna tæknilega lausn á skráningarvandanum svo að fólk sem heitir löngum nöfnum, jafnvel þremur fornöfnum, sem er ekki óalgengt, fái nöfn sín skráð rétt í þjóðskrá. Málið er einfalt og auðskilið réttlætismál sem óþarfi er að fjölyrða frekar um.

Herra forseti. Að lokum vil ég óska þess að málinu verði vísað til hv. allsherjarnefndar.