131. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2004.

Náttúruvernd.

184. mál
[14:22]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Það var beint til mín nokkrum spurningum og ég mun reyna að svara þeim eftir bestu getu.

Hv. þm. Sigurjón Þórðarson nefndi hvort til stæði að fram færi heildarendurskoðun á náttúruverndarlögunum. Það hafa ekki verið hugmyndir um heildarendurskoðun á lögunum en hins vegar er starfshópur að störfum sem er sérstaklega að fjalla um akstur utan vega, og þá munu þau atriði sem þingmaðurinn nefndi hér áðan í ræðu sinni vera tekin sérstaklega til skoðunar, t.d. skilgreining á því hvað er vegur og ýmislegt fleira.

Það er alveg hárrétt sem hv. þm. Sigurjón Þórðarson nefndi í ræðu sinni að það þarf að ríkja jafnræði á milli þeirra sem eru í efnistökunni. Ég tel að þar eigi samkeppnissjónarmið einmitt að ráða svo allir séu jafnsettir. Það getur auðvitað ekki gengið að hlutirnir séu með þeim hætti að þeir sem eru að fara að opna nýjar námur séu settir undir allt aðrar reglur en aðrir, þetta er auðvitað sanngirnismál.

Hins vegar hvað snertir dagsetningarnar sem hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir nefndi, og fannst vera gefinn of langur aðlögunartími, þá er það í raun og veru svo að fram að þessu hafa menn túlkað lögin á þann hátt að þau næðu ekki yfir eldri námur og þá er eðlilegt að gætt sé hófs og gefinn aðlögunartími. Það má svo auðvitað alltaf deila um hversu langur hann á að vera. Í þessu tilfelli var verið að reyna að þræða meðalhófið með því að setja dagsetningarnar niður með þessum hætti.

Það er alveg rétt sem hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir nefndi að þetta eru nokkuð margar námur. Í greinargerðinni kemur fram að þær séu yfir þrjú þúsund og af þeim er rúmlega helmingurinn ófrágenginn. Um helmingur ófrágenginna náma er í notkun, u.þ.b. 800 talsins. Sumar eru með leyfi en aðrar munu hins vegar verða aflagðar.

En ef við lítum á viðmiðanirnar sem eru settar fram í frumvarpinu þá eru það u.þ.b. 100 námur sem falla undir þessi ákvæði en það er ekki nákvæm tala, það eru u.þ.b. 100 námur.

Hvað snertir þá niðurstöðu starfshóps ráðuneytisins hvort allar námur verði matsskyldar í framtíðinni þá er það reyndar ekki svo. Þær sem eru matsskyldar eru þær námur sem eru yfir ákveðnum mörkum og eins og ég nefndi í ræðu minni áðan er það þar sem er fyrirhuguð stækkun efnistökusvæðis um 50 þúsund fermetra eða meira og þar sem fyrirhugað er að teknir verði yfir 150 þúsund rúmmetrar af efni. Þetta eru þessar viðmiðanir en í frumvarpinu er hins vegar verið að gera eldri námurnar tilkynningaskyldar með ákveðnum hætti.

Síðan nefndi hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir malarnám á friðlýstum svæðum og nefndi þar neyðarrétt, hvort hann ætti að vera fyrir hendi. Ég tel raunar að það eigi að vera hægt að sjá fyrir þessu með tilkynningaskyldunni en ég er hins vegar tilbúin að skoða málið og ég beini því til umhverfisnefndar að fara mjög vandlega yfir það í umfjöllun sinni og ég fagna umræðunni sem hefur farið hér fram. Hér um mál að ræða sem var alveg ljóst að þurfti að taka á og ég treysti því að málið verði skoðað mjög vel í umhverfisnefndinni.