131. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2004.

Þriðja kynslóð farsíma.

160. mál
[14:38]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli öðru sinni fyrir frumvarpi til laga um þriðju kynslóð farsíma en frumvarpið var lagt fram á síðasta þingi og varð ekki útrætt þá.

Í ársbyrjun 2004 skipaði samgönguráðherra stýrihóp til að vinna að gerð fjarskiptaáætlunar fyrir árin 2005–2010. Með henni er stefnt að því að móta heildarstefnu í fjarskiptamálum á Íslandi til þess m.a. að kortleggja með hvaða hætti stjórnvöld geti komið að frekari uppbyggingu í fjarskiptamálum, m.a. í ljósi þess að fjarskiptafyrirtæki telja ekki markaðsforsendur fyrir uppbyggingu. Stýrihópnum er m.a. ætlað að skoða og gera tillögur um stefnu stjórnvalda er varðar gagnaflutninga, tengingar á landsbyggðinni, farsímasamband á þjóðvegum og fleira. Áætlanir mun ég leggja fyrir Alþingi þegar þar að kemur.

Með áætluninni munum við marka okkur stefnu til næstu ára sem ætlað er að leggja grunn að framþróun íslensks samfélags með því að bjóða bestu, ódýrustu og öruggustu rafrænu samskiptin með breytingu fjarskipta- og upplýsingatækni.

Við lifum á tímum örra breytinga fjarskiptatækninnar. Upplýsingatækni og fjölmiðlun er að renna saman í einn farveg þar sem aukinn hraði gagnasendinga og lækkun kostnaðar opnar nýja möguleika fyrir dreifingu og móttöku efnis. Þetta gjörbreytir hefðbundnu fyrirkomulagi fjölmiðlunar, talsímaþjónustu og gagnaflutnings sem allt getur nú runnið í gegnum sama tækið. Þróun þessara mála er hröð og stjórnvöld verða að fylgja henni eftir og leggja hönd á plóginn þegar á þarf að halda. Ég minni á þátttöku ríkisins í lagningu sæstrengs á vegum fyrirtækisins Farice þar sem samgönguráðherra hafði forgöngu um þá framkvæmd þegar framtak fjarskiptafyrirtækjanna brast. Í dag er eignarhald á Farice í höndum símafyrirtækja á Íslandi og í Færeyjum og á vegum samgönguráðuneytisins. Engum blöðum er um það að fletta að það var bráðnauðsynlegt og þjóðhagslega hagkvæm framkvæmd sem, eins og fjarskiptin, leggur grunn að sjálfstæðu íslensku samfélagi.

Þetta rifja ég upp af því tilefni að ég mæli fyrir því frumvarpi sem er á dagskrá vegna þess að allt tengist þetta framförum og mikilvægum áföngum okkar í uppbyggingu fjarskiptakerfanna.

Frumvarpið sem hér er lagt fram er nokkru seinna á ferðinni en víðast annars staðar í Evrópu. Þegar litið er til reynslunnar þar af uppbyggingu þriðju kynslóðar farsíma er ljóst að það var rétt ákvörðun að flýta sér hægt við úthlutun og uppbyggingu hér á landi. Víða í Evrópu voru tíðnir fyrir þriðju kynslóð farsíma boðnar hæstbjóðanda. Mörg uppboðanna fóru fram þegar óhófleg bjartsýni var um afkomumöguleika net- og hátæknifyrirtækja, einnig þekkt sem dot-com-æði. Þessi mikla bjartsýni á möguleikum fjarskipta og upplýsingatækninnar leiddi til óraunhæfra tilboða í tíðnir fyrir þriðju kynslóð farsíma. Mörg fjarskiptafyrirtæki lentu í vandræðum þegar bólan sprakk og á daginn kom að langt væri í land með þjónustu sem byggði á þriðju kynslóð farsíma, þ.e. að hún næði fótfestu á markaðnum. Þetta leiddi til verulegrar skuldsetningar og jafnvel gjaldþrota fyrirtækja og skertrar fjárhagslegrar getu annarra til uppbyggingar neta og þjónustu auk þess sem leyfum var skilað. Að auki hafa þessi uppboð leitt til dýrari þjónustu vegna mikils kostnaðar af leyfunum þannig að allt lenti þetta fyrir rest á neytendum, þ.e. notendum fjarskiptatækninnar.

Í dag býr fjarskiptamarkaðurinn við allt önnur ytri skilyrði. Það hefur orðið veruleg uppbygging neta og reynsla er að komast á fjöldaframleiddan notendabúnað fyrir hina svokölluðu þriðju kynslóð farsíma. Einnig hefur orðið nokkur þróun og aukið framboð á þjónustu sem krefst afkastagetu þriðju kynslóðarinnar, svo sem myndsímaþjónusta, margmiðlun og gagnaflutningaþjónusta. Markaður fyrir slíka þjónustu er að sjálfsögðu frumskilyrði fyrir velgengni þessarar þriðju kynslóðar farsíma.

Í Bretlandi er þegar starfrækt þriðju kynslóðar þjónusta sem nær til allra helstu borga þar í landi og þar er nú þegar á aðra milljón áskrifenda. Annars staðar í Evrópu er þriðja kynslóðin að taka verulega við sér þótt útbreiðslan sé enn langt undir upphaflegum væntingum. Þriðju kynslóðar farsímaþjónustan hefur hins vegar náð verulegri útbreiðslu í Asíu, sérstaklega í Japan og Kóreu en þar hefur orðið sprenging í útbreiðslunni eftir nokkuð erfiða byrjun. Þetta m.a. má þakka lækkandi verði á notendabúnaði og fjölbreyttari þjónustu.

Ríflega níu af hverjum 10 Íslendingum nota farsíma í daglegu lífi og internetnotkun hér á landi er meðal þess mesta sem þekkist í heiminum. Þess er að vænta að Íslendingar taki vel við framboði á nýrri kynslóð GSM-síma og nýti sér þá tækni þegar hún verður fyrir hendi. Með þriðju kynslóðinni er aukin áhersla lögð á gagnaflutninga og nýir möguleikar opnast fyrir samskipti með háum sendingarhraða og fjölbreytta þjónustu sem ugglaust mun hugnast Íslendingum vel sem eru afskaplega áhugasamir um alla þessa tækni að því er virðist. Þegar við skoðun notkunina blasir það við.

Ljóst er að þróunin í Evrópu er veruleg vísbending um að þessi tækni sé að taka við sér og verða almennari. Nauðsynlegt er að löggjafarvaldið hér tryggi að til staðar sé nauðsynlegur lagarammi um þessa nýju tækni þegar fjarskiptafyrirtæki sjá sér hag í því að byggja upp þjónustuna. Þá er nauðsynlegt að það sé gert með þeim hætti að til hagsbóta sé fyrir almenning alls staðar á landinu.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir hófsamri gjaldtöku en þar er lagt til að efnt verði til útboðs, þ.e. svokallaðrar fegurðarsamkeppni, þar sem m.a. er tekið tillit til hraða uppbyggingar og útbreiðslu ásamt þjónustu eftir mannfjölda á svæðum. Einnig verður að hafa í huga að um leið og þriðja kynslóð farsíma verður almenn erlendis munu ferðamenn gera kröfu um aðgang að sambærilegri þjónustu hér á landi.

Virðulegi forseti. Markmið frumvarps þessa er að afla heimildar til að úthluta tíðnum fyrir þriðju kynslóð farsíma, tryggja hagsmuni neytenda og virkja samkeppni á íslenskum farsímamarkaði. Frumvarpið er í litlu breytt frá því frumvarpi sem lagt var fram á síðasta þingi.

Frumvarpið sem hér er lagt fram kveður á um nokkur atriði er varða þriðju kynslóð farsíma sérstaklega, en að öðru leyti gilda almenn ákvæði fjarskiptalaganna. Frumvarpið gerir ráð fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun úthluti tíðnum, sem er í samræmi við lögbundið hlutverk stofnunarinnar samkvæmt fjarskiptalögum. Í frumvarpinu er sett fram það skilyrði að rétthafar tryggi útbreiðslu þriðju kynslóðar farsímaþjónustu til 60% íbúa eftirfarandi svæða hvers um sig:

a. höfuðborgarsvæðis,

b. Vesturlands, Vestfjarða og Norðurlands vestra,

c. Norðurlands eystra og Austurlands,

d. Suðurlands og Suðurnesja.

Rétthöfum er heimilt að hafa samstarf um að uppfylla þessa kröfu að uppfylltum skilyrðum fjarskiptalaganna um reiki og samkeppni. Nái þeir ekki samningum um reiki verða þeir að byggja upp þjónustuna sjálfir.

Í frumvarpinu er miðað við að tíðnigjald verði 190 millj. kr. á hvert leyfi, en afsláttur verður veittur fyrir aukna útbreiðslu utan höfuðborgarsvæðisins. Veittur er 10 millj. kr. afsláttur fyrir hvern hundraðshluta yfir 60% útbreiðslu og er hann veittur strax í upphafi leyfistímans. Leyfisgjaldið verður þó aldrei lægra en 40 millj. kr. Þessu ákvæði er ætlað að stuðla að aukinni útbreiðslu þjónustunnar. Til þess að fá hámarksafslátt af tíðnigjaldi, þ.e. að greiða 40 milljónir í tíðnigjald, þarf rétthafi að tryggja a.m.k. 75% útbreiðslu á hverju svæði. Það gefur augaleið að afslátturinn hvetur til aukinnar útbreiðslu og uppbyggingu þjónustunnar á landsbyggðinni og er það markmiðið með honum.

Ég legg áherslu á að uppbygging þjónustunnar á að taka mið af viðskiptaáætlun fyrirtækjanna, þannig að ekki felast í þessu kröfur um uppbyggingu sem ekki eiga sér markaðslegar forsendur.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir allt að fjórum tíðniúthlutunum og að undangengnu almennu útboði. Frumvarpið gerir ráð fyrir útboði í formi svokallaðrar fegurðarsamkeppni eins og fyrr er nefnt. Nokkrar ástæður eru fyrir þessu vali.

Í fyrsta lagi má benda á reynsluna í Evrópu, þar sem niðurstaða útboðanna leiddi til fjárhagslega veikari fyrirtækja sem getur leitt til dýrari þjónustu og hægari uppbyggingu vegna skerts fjárhags. Tíðni fyrir farsímaþjónustu er verðmæt. Íslensku fyrirtækin eru misjafnlega fjárhagslega burðug eða vel í stakk búin til þess að bjóða í tíðnirnar. Því þykir hvorki ástæða né sanngjarnt að keppt sé um tíðni á fjárhagslegum forsendum einum, eins og ýmsir hafa lagt áherslu á.

Það er einnig vilji minn að frumvarpið stuðli áfram að hagkvæmum gjöldum fyrir fjarskiptaþjónustu hér eftir sem hingað til. Með því að rétthafar greiði hóflegt gjald miðað við 75% útbreiðslu er stuðlað að því að helstu farsímafyrirtækin ráði við að tryggja sér tíðni. Einnig að þeir hafi eftir sem áður góða burði til að byggja upp þjónustuna enn frekar af þeim metnaði sem felur það í sér að tryggja hér bestu fjarskiptaþjónustu.

Frumvarpið miðar að því að tíðni fyrir þriðju kynslóðar farsímaþjónustu verði boðin út með það að markmiði að tryggja bestu fáanlegu þjónustu sem víðast á landinu. Gert er ráð fyrir að bjóðendur sendi inn viðskiptaáætlun um hvernig þeir ætla að haga uppbyggingu þjónustunnar. Í útboðslýsingu verða settir fram þeir þættir sem ráða munu vali á bjóðendum og vægi þeirra skilgreint. Þó er ljóst eins og fram kemur í greinargerð að tilboðin verða annars vegar metin á grundvelli hversu mikil útbreiðslan verður og hins vegar hvenær áskrifendur umsækjenda muni njóta aðgangs að svokallaðri UMTS-neti hans. Þessar upplýsingar skulu koma fram í viðskiptaáætlun bjóðanda sem er hluti af tilboðsgögnum hans. Með þessu er best tryggt að sem flestir landsmanna njóti þjónustunnar sem fyrst.

Frumvarpið miðar við að gildistími leyfanna takmarkist við fimmtán ár, sem er nokkuð lengri tími en leyfi fyrir ýmsa aðra þjónustu er. Mikill kostnaður fylgir því að byggja upp þriðju kynslóðar farsímaþjónustu. Fimmtán ára gildistími eykur lýkur á að fjarskiptafyrirtækin vinni að frekari uppbyggingu farsímaþjónustunnar og að fjárfestingin beri sig.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til samgöngunefndar.