131. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2004.

Þriðja kynslóð farsíma.

160. mál
[14:51]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni merkilegt mál og stórmerkilegt í samhengi samgöngu- og samskiptabyltingarinnar sem við erum að upplifa þessi missirin.

Það sem ég vildi spyrja hæstv. samgönguráðherra út í og hef mjög miklar efasemdir um er sú útboðsleið sem hér er lagt upp með og samgönguráðherra fjallaði nokkuð um í framsögu sinni og talaði um að ekki væri hagkvæmara eða betra að fara út í samkeppni á fjárhagslegum forsendum. Um þessa afstöðu ráðherrans hef ég miklar efasemdir og vil spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann telji tryggt að geðþóttaákvarðanir ráði ekki þarna um og hvernig reglum jafnræðis og sanngirni verði gætt í slíkri útboðsleið, eða fegurðarsamkeppni, sem hlýtur alltaf að vera háð fegurðarmati þess sem metur og velur inn í þetta og legg ég til að hann endurskoði þetta. Vísa ég í því sambandi til þess að Morgunblaðið benti á í leiðara sínum í mars í fyrra og brýndi þar hæstv. ráðherra mjög að fara leið uppboðs en ekki útboðs og er hægt að taka mjög eindregið undir þær hugmyndir Morgunblaðsins og hvet ég ráðherra til að endurskoða þessa leið.

Undir þetta tók hv. þm. Sjálfstæðisflokksins, núverandi hæstv. menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, í grein í Morgunblaðinu 8. desember árið 2000, þar sem hún segir, með leyfi forseta:

„Ekki er líklegt að tortryggni gæti við úthlutun leyfanna ef uppboð er valið, hvorki meðal almennings né farsímafyrirtækja.“

Þetta vegur, frú forseti, mjög þungt að mínu mati í þeim rökstuðningi mínum og byggir undir þá skoðun mína að það eigi að fara uppboðsleiðina en ekki útboðsleiðina. Það á í því andrúmslofti að koma í veg fyrir tortryggni sem gætir í garð stjórnmálamanna og stjórnvalda í dag. Það á að girða fyrir slíkar geðþóttaákvarðanir eins og samgönguráðherra leggur hérna til og fara leið hreins uppboðs þar sem allir hafa jafnan aðgang að kökunni.

(Forseti (JóhS): Forseta láðist að geta þess að þar sem þrír hv. þingmenn óskuðu að veita andsvar við ræðu hæstv. ráðherra, þá er ræðutíminn styttur í síðari umferð í eina mínútu.)