131. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2004.

Þriðja kynslóð farsíma.

160. mál
[15:03]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Á máli hæstv. ráðherra var að heyra að það lægju fyrir miklir útreikningar á því hvar mörkin væru og hvað borgaði sig og hvað ekki fyrir fjarskiptafyrirtækin. Það væri greinilegt að til að ná umfram þessi 60% þyrfti að hvetja þau með afslætti, ef ég skildi hann rétt. Þá væri fróðlegt að vera upplýstur um það hér hve stór sveitarfélög verða þá undanskilin þessari tækni, eru þau með íbúatölu undir 1.000 eða undir 1.500? Nú liggja þessir útreikningar fyrir.

Síðan er annað sem væri fróðlegt að fá fram í umræðunni og það er ákvörðun á leyfisgjaldinu. Hvað var haft til hliðsjónar við ákvörðun á því? Nú skilst mér að gjaldið sé talsvert hærra en t.d. í Noregi.