131. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2004.

Þriðja kynslóð farsíma.

160. mál
[16:01]

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara út í umræðu um ISDN Plús í Stykkishólmi og hvort ráðherrann hafi nógan tíma til að nota það, það er þá allt í lagi og getur vafalaust verið rétt. Hins vegar vitum við, og ég hygg að hæstv. ráðherra viti það líka, að töluverður munur er á því, hvort sem um er að ræða gagnasendingar sem menn ná sér í eða niðurhölun eða hvað menn kalla þetta, þegar hann talar um misjafnar óskir byggðarlaga. Það er alveg rétt, þær geta verið það. En það eru ekki misjafnar óskir byggðarlaga, milli Hríseyinga og Reykvíkinga eða Stykkishólmsbúa, um að sitja við sama borð, þ.e. að hafa möguleika á að kaupa þessa þjónustu af Símanum sem er með miklu meiri markaðshlutdeild en aðrir, það er bara svoleiðis. Þetta er bara nútíminn í fyrirtækjarekstri þegar menn eru farnir að reka fyrirtæki á mörgum stöðum á landinu. Þetta bauð Síminn ekki upp á.

Ég tel, virðulegi forseti, að Síminn hafi ekki staðið sig feiknalega vel gagnvart þessum litlu byggðarlögum út um landið. Ég tek Hrísey sem dæmi vegna þess að þar voru frumkvöðlar sem tóku forustu, byggðu þetta upp, borguðu stofnkostnað. Það er það sem ég er að gagnrýna og er ósáttur við en ég heyri að samgönguráðherra er ekki ósáttur við, og þar er kannski munurinn á jafnaðarmanni og kapítalista í Sjálfstæðisflokknum. Jafnaðarmenn líta þannig á að þetta séu jöfn skilyrði og fólk eigi að sitja við sama borð. Það er hægt að inna þessa þjónustu af hendi og það hefði Síminn getað gert. Hvers vegna hann gerði það ekki, hvers vegna hann notaði ekki gervihnattasamband er mér algerlega óskiljanlegt.

Ég vil í lokin, virðulegi forseti, spyrja hæstv. samgönguráðherra hvort fyrirtæki sem hefur staðið sig svona feiknarlega vel gagnvart litlu stöðunum á landsbyggðinni, í mínu kjördæmi og í kjördæmi ráðherrans, neiti að vera með aðra tækni en ljósleiðara. Er ómögulegt að fá Símann til að athuga gervihnattasendingar?