131. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2004.

Þriðja kynslóð farsíma.

160. mál
[16:03]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski ekki auðvelt í stuttum andsvarstíma að fara út í skýringar á flóknum tæknilegum atriðum eins og þeim hvort betra sé að velja gervihnattasambönd eða fastlínutengingar. Það liggur í augum uppi fyrir flesta að fastlínukerfin, ég tala ekki um ljósleiðara, skapa miklu meiri möguleika. Það blasir við.

En í mörgum tilvikum duga gervihnattasambönd og ég veit ekki annað en Síminn hafi nýtt sér það. Vonandi tekst okkur að byggja þetta hægt og bítandi upp. En ég vil af þessu tilefni sem hv. þm. hefur gefið hér vekja athygli á að Síminn er að vinna að því og leggja á ráðin um að nýta koparinn til þess að koma á mjög öflugum gagnaflutningamöguleikum og m.a. þeim möguleika að tengja sjónvörp inn á símalínurnar um landið allt. Ég tel að þegar þetta verður að veruleika, sem fullyrt er að sé innan seilingar, muni margt breytast mjög mikið og að þá muni sannast að þetta ágæta fyrirtæki er að leggja sig mjög fram um að finna hagkvæmustu og bestu lausnirnar fyrir okkur, og ég er alveg jafnsannfærður um það að fyrirtækið Og Vodafone, svo fleiri fyrirtæki séu nefnd, er á höttunum eftir því að finna leiðir til að þjóna viðskiptavinum sínum.

Ég tel að þar liggi besta tryggingin fyrir okkur, að samkeppnin efli þessi fyrirtæki til átaka í þágu neytendanna en ekki að við stjórnmálamennirnir hringjum og skipum einhverjum ríkisforstjórum til verka.