131. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2004.

Forræði yfir rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.

16. mál
[16:36]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hér erum við að ræða stórmál. Það hefði verið æskilegt og mjög fróðlegt að heyra viðbrögð hæstv. umhverfisráðherra við þessu þingmáli. Það er engin tilviljun að þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs stendur allur á bak við 1. flutningsmann þingmálsins, hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur, við flutning þessa máls. Málið snertir grundvallarstefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, þ.e. hvort nálgast eigi umræðu og ákvarðanir um nýtingu á orkulindum landsins út frá forsendum náttúruverndar og sjónarmiðum um sjálfbært samfélag eða á grundvelli iðnaðarhagsmuna. Að sjálfsögðu hljóta iðnaðarhagsmunir og efnahagslegir þættir í víðum skilningi að koma til álita við slíka ákvarðanatöku en spurningin er: Hvað á að vera í fyrirrúmi?

Ég er reyndar á því að ef efnahagslegir þættir hefðu verið krufnir til mergjar þegar ákvörðun var tekin um Kárahnjúkavirkjun á sínum tíma þá hefðu menn aldrei ráðist í það fyrirtæki. En hvað um það. Með þessu þingmáli leggjum við áherslu á að umhverfið, náttúran og sjálfbært samfélag eigi að vera í fyrirrúmi. Því er þessi tillaga sett fram. Við erum með öðrum orðum að segja: Það á að hugsa til langs tíma en ekki til skamms.