131. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2004.

Vegalög.

19. mál
[17:47]

Flm. (Þuríður Backman) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka jákvæðar undirtektir hv. þm. sem hafa tekið til máls og tjáð sig um frumvarpið. Til þess að taka af allan vafa er frumvarpið á engan hátt gagnrýni á Vegagerð ríkisins, heldur miklu frekar til að styðja það góða starf sem Vegagerðin vinnur og styðja og styrkja þá vinnu sem snýr að öryggismálum, enda er Öryggisstofan hjá samgönguráðuneytinu og Vegagerðin ber m.a. ábyrgð á þeim þætti. Við flutningsmenn frumvarpsins teljum því að með því að setja þetta í vegalögin styðjum við Vegagerðina í þeirri vinnu sem hún vinnur í dag.

Ef gæta á ýtrustu öryggisþátta og bestu hönnunar er það því miður þannig að það er oft dýrari útfærsla og dýrari framkvæmd. Þá standa menn frammi fyrir vali: Á að setja upp 3+2, eða þriðju akreinina í þann vegarkafla sem verið er að leggja nýjan eða bæta? Við skulum taka sem dæmi svæðið í kringum Selfoss eða þéttbýliskjarnana eða eigum við að láta núverandi staðla á þjóðvegi 1 duga? Á að hanna breytingu á vegi með tilliti til þess að hægt sé að koma þar fyrir vegriði, eða eigum að láta það duga eins og hefur verið í gegnum árin að vona hið besta, að ekkert slys verði?

Þetta kallar á aukið fé í mörgum tilvikum og er styrkt sú vinna sem Vegagerðin vinnur í dag, þ.e. að horfa á hönnunina með tilliti til öryggisþátta. Þetta er brýning í vegalögin, en engin gagnrýni á Vegagerðina.

Verið er að skera niður fjárframlög til samgöngumála. Það tel ég mjög miður, því ef við viljum sinna þeim brýnu málum sem við tölum um og eins að halda áfram eðlilegri uppbyggingu þjóðvegakerfisins megum við illa við því að dregið sé úr fjárframlögum til samgöngumála eins og verið er að gera núna.

Ég tel að við þurfum líka að horfa mjög heildstætt á samgöngumál. Það er ljóst að verið er að leggja niður strandflutningana þannig að þungaflutningarnir eru allir að fara yfir á þjóðvegina. Það er hluti af þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir, álagið mun aukast enn frekar.

Ég tel ekki rétt að undirbúa vegakerfið fyrir að taka á móti meiri umferðarþunga, m.a. með því að gera áætlun um þriðju akreinina þar sem ástæða er til í erfiðum brekkum o.s.frv., heldur eigi miklu frekar að horfa til þess að halda uppi strandflutningunum og halda þungaflutningunum á sjó eins og verið hefur því það er líka dýrt að setja alla flutningana yfir á land.

Bil á milli akbrauta til þess að draga úr slysahættu finnst mér vera hönnun sem við höfum ekki nýtt okkur til þessa. Þetta sér maður víða erlendis, annaðhvort með vegriði á milli eða þéttum gróðri. Það ættum við sannarlega að geta gert.

Hvað varðar þætti eins og einbreiðar brýr erum við með um 60 brýr á þjóðvegi 1. Það er mikil slysahætta og líður varla það sumar að ekki verði alvarleg slys við þessar brýr. Við Íslendingar sem keyrum þjóðvegina og þekkjum vel aðstæður vörum okkur betur en erlendir ferðamenn. Því miður lenda þeir frekar í alvarlegum slysum en Íslendingar.

Það má líka horfa til malarveganna og öryggisþáttanna þar. Það er auðvitað ekki verið að leggja það til í frumvarpinu að allir malarvegir verði malbikaðir, en að hafa góðar merkingar í vegaköntunum þegar breytingar verða frá malbiki yfir í malarvegi og með það góðum fyrirvara að bílar geti hægt á sér. Þær merkingar sem við höfum í dag eru bæði of smáar og alls ekki nógu áberandi, heldur ekki á þeim köflum þar sem verið er að laga malbikið á því tímabili þegar lausamölin er enn þá hættuleg ofan á nýlögðu malbikinu. Þá kafla þarf að merkja miklu betur. Frumvarpið tekur í sjálfu sér ekki til þess, en ég tek sannarlega undir allar þær ábendingar sem fram hafa komið um það.

Af því að mislæg gatnamót eru nefnd í frumvarpinu sem þáttur í samgönguöryggi þjóðveganna verður líka að horfa til hönnunar gatnamótanna. Það er ekki nóg að þau séu mislæg, því við höfum líka tiltölulega ný mislæg gatnamót þar sem hönnunin er með þeim hætti að umferðin er svo flókin að þeir sem hafa farið þar um tala um lítið öryggi eða flóknar umferðarleiðir. Við erum að tala um alla þætti, ekki bara mislæg gatnamót heldur líka hvernig þau eru hönnuð.

GSM-fjarskiptasambandið á þjóðvegum landsins er sannarlega öryggistæki. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum margsinnis í þessum ræðustóli ítrekað það og flutt um það þingsályktunartillögu að efla GSM-fjarskiptasambandið. Þó það sé ekki hluti af öryggisþáttum samgöngumannvirkja í dag er þetta samt sem áður samtvinnað og þarf að horfa á GSM-fjarskiptasambandið með tilliti til þess.

Að lokum vil ég þakka fyrir góðar undirtektir og brýna fyrir hv. fjárlaganefnd að horfa vel til vegáætlunar við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins og til þeirra öryggisþátta allra sem við þurfum að bæta, ekki bara í ár heldur á komandi árum og varast að draga svo úr framkvæmdafé að það komi niður á öryggi þjóðveganna.