131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Jöfnun starfsskilyrða atvinnuveganna milli landshluta.

84. mál
[14:32]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég spurði hæstv. forsætisráðherra fyrr í umræðunni um fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni en því miður varð lítið um svör. Ég ætla samt að reyna aftur og spyrja nú hæstv. iðnaðarráðherra.

Hún ræddi um að ein aðgerð í byggðamálum væri að jafna raforkuverð. Nú erum við að ræða um starfsskilyrði atvinnuveganna. Þess vegna væri fróðlegt að fá fram hjá hæstv. ráðherra hvort þessi aðgerð muni þá lækka raforkuverð til fyrirtækja frá því sem nú er. Sér hún það svo? Nú greiða fyrirtæki á landsbyggðinni 30% hærra verð fyrir orkuna og það væri fróðlegt að fá fram hjá hæstv. ráðherra hvort þetta muni leiða til einhverrar lækkunar, þessi aðgerð sem hún boðaði. Þá ég við lækkun til fyrirtækja.