131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Uppgreiðslugjald.

87. mál
[14:47]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að taka þetta mikilvæga mál upp, ekki síst í ljósi þess að einmitt nú um stundir og vegna hraðra og mikilla breytinga á lánamarkaði, ekki síst er varðar húsnæðislán bankanna, stendur fjöldi manns frammi fyrir því að greiða upp lán og taka önnur sem lántakendur telja hagkvæmari og henta sér betur.

Ráðherra talaði um sanngirnisrök og að skoða það að reisa skorður við því að lánastofnanir geti innheimt uppgreiðslugjald þegar fólk greiðir skuldir sínar. Ég vil því nota þetta tækifæri og skora á hana að ganga lengra en það og vinna að lagaheimild sem gerir það óheimilt að innheimta uppgreiðslugjald af lánum. Þetta er ósanngjörn gjaldtaka og fyrir því eru sanngirnisrök og það er réttlætismál að óheimilt sé að innheimta uppgreiðslugjald þegar fólk er að endurfjármagna lán sín. Þetta er mjög mikilvægt mál einmitt nú um stundir og skora ég á hana að beita afli sínu til þess.