131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Brottfall úr framhaldsskóla.

189. mál
[15:21]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi Björgvin G. Sigurðsson spyr mig hvort til standi að grípa til sérstakra aðgerða til að minnka brottfall úr framhaldsskólum. Í upphafi svars míns við þessari fyrirspurn vil ég sérstaklega leggja áherslu á að íslenska framhaldsskólakerfið er mjög sterkt. Í boði eru um 100 námsleiðir, þar af 87 iðn- og starfsnámsbrautir.

Það sem einkennir kerfi okkar er sveigjanleikinn sem einstaklingar nýta sér óspart og við viljum alls ekki draga úr. Ég tel að sú aukna aðsókn sem verið hefur í framhaldsskóla landsins undanfarin tvö ár og lækkun brottfalls á sama tíma gefi til kynna að brottfall sé á undanhaldi.

Í lögum um framhaldsskóla er skýrt mörkuð sú stefna stjórnvalda að allir nemendur sem lokið hafa grunnskólanámi skuli eiga kost á að hefja nám á framhaldsskólastigi og allir nemendur eigi að geta fundið þar nám við hæfi. Jafnframt er lögð áhersla á að námsval nemenda sem innritast í framhaldsskóla taki mið af námsstöðu þeirra við lok grunnskóla. Það er mikilvægt. Þannig eru meiri líkur á að nemendur ráði við það nám sem þeir leggja stund á og minni líkur á brottfalli úr námi. Ég tel því að á síðustu árum hafi margt verið gert til að sporna gegn brottfalli úr framhaldsskólum. Verður áfram unnið í anda þess sem hér hefur komið fram, enda sýna tölur að dregið hefur úr brottfalli á framhaldsskólum á síðustu árum. Þannig hefur t.d. komið í ljós að brottfall fyrsta árs nemenda úr framhaldsskólum minnkaði frá skólaárinu 1999–2000 til skólaársins 2002–2003 úr 16,5% í 11,5%. Brottfall frá hausti 2002 til haustsins 2003 var í heild 19,3% ef miðað er við nemendur í dagskóla, kvöldskóla og fjarnámi. Fimm árum áður var brottfallið þremur prósentustigum hærra eða 22,3%. Sé hins vegar einungis miðað við dagskólanemendur í fullu námi var brottfall milli áranna 2002 og 2003 12,4%. Jafnframt sýna tölur frá Hagstofu Íslands að hlutfallsleg þátttaka aldursárganganna 16–20 ára í námi á framhaldsskólastigi hefur farið mjög vaxandi á síðustu árum.

Einnig hefur komið í ljós að frá árinu 2000 hefur prófþátttaka nemenda í framhaldsskólum verið að aukast. Eftir þeim gögnum sem liggja fyrir hefur nýting eða virkni aukist um tæp 5% á þessum árum eða úr tæplega 78% í tæplega 83%. Í aðalnámskrá framhaldsskóla frá árinu 1999 segir að framhaldsskóli skuli leitast við að draga úr brottfalli nemenda, m.a. með skýrari námskröfum, aukinni upplýsingamiðlun um námskröfur, fjölbreyttara námsframboði, ekki síst starfsnámi og upplýsingum um starfsmöguleika að námi loknu. Í námskránni er lögð áhersla á að skólar bjóði upp á fjölbreytt nám þannig að allir nemendur geti fundið nám við hæfi. Með reiknilíkani og samningum við skóla um árangursstjórnun hefur frá árinu 1998 verið unnið gegn brottfalli í framhaldsskólum. Hafa fjárveitingar til framhaldsskóla frá þessum tíma miðast við þann fjölda nemenda sem þreytir próf og fjölda þreyttra eininga en ekki fjölda innritaðra nemenda. Í þessu kerfi er því innbyggður hvati fyrir framhaldsskóla til að vinna gegn brottfalli þar sem fjárveitingar eru háðar því hve vel gengur að halda nemendum við nám í skóla. Jafnframt hefur verið unnið að því að skapa nemendum skilyrði við hæfi, svo sem með viðleitni til að efla starfsnám og almenna braut. Til dæmis er nú í gangi mjög merkileg tilraun um starfsnám á vinnustöðum sem lofar góðu og lýkur þeirri tilraun árið 2005.

Með starfrækslu almennra námsbrauta í mörgum framhaldsskólum hefur verið reynt að koma til móts við ólíkar þarfir og mismunandi undirbúning nemenda úr grunnskóla og búa þá þannig undir frekara nám á framhaldsskólastigi. Frá árinu 2002 hefur verið gert sérstakt átak í að styrkja almennu námsbrautirnar og hafa fjárframlög til þeirra verið hagstæðari en til annarra námsbrauta. Skólum er nú gert kleift að hafa námshópa á almennum brautum minni en áður tíðkaðist.

Gera má einnig ráð fyrir, herra forseti, að stytting námstíma til stúdentsprófs, úr fjórum árum í þrjú, muni að einhverju leyti draga úr brottfalli. Námstími á framhaldsskólastigi hér á landi er lengri en almennt gerist í nágrannalöndunum og því er meiri hætta á að nemendur hætti námi eða geri hlé á námi sínu þegar námslok eru langt undan.