131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[15:14]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér þykir miður ef hv. þm. Sigurjón Þórðarson hefur ekki hlustað betur en þetta á mál mitt. Ég fór sérstaklega yfir vanda byggða við utanverðan Tröllaskaga og hvaða úrbætur ég vildi sjá í atvinnumálum á þeim stöðum.

Mér þykir miður að einn hv. þingmaður skuli ætla að halda hér utandagskrárumræðu um málefni eins sveitarfélags á landsbyggðinni sem er að mörgu leyti í mjög svipaðri aðstöðu og mörg önnur sveitarfélög. Af hverju erum við að beina sjónum okkar sérstaklega að þessu eina sveitarfélagi? Er það til þess að auka jákvæða umfjöllun um viðkomandi sveitarfélag? Hver er tilgangurinn?

Ég leyfi mér að stórefast um (Gripið fram í: Má ekki ...?) að hv. þm. Sigurjón Þórðarson viti mjög mikið um atvinnuástand á Siglufirði. Þar er nýlega búið að stofna fiskmarkað. Þormóður rammi – Sæberg fær ekki fólk í störf sem hann auglýsir eftir á Siglufirði. Þar eru 15 einstaklingar á atvinnuleysisskrá og alveg sama hvað Þormóður rammi – Sæberg auglýsir eftir starfsfólki, hann nær ekki að fullmanna starfsemi sína. 25 ný störf hafa orðið til á sl. tveimur árum við iðgjaldaskráningu Sparisjóðs Siglufjarðar á vegum sparisjóðanna og KB-banka. Það er því margt mjög jákvætt að gerast og ég er ekki að segja að það sé einhver glæsimynd af Siglufirði, en hvað vill hv. þingmaður? Við erum að fara í mjög miklar samgöngubætur sem eru göng um Héðinsfjörð. Búið er að vinna mjög mikið í ofanflóðavörnum við Siglufjörð upp á um 2 milljarða, þannig að stjórnvöld hafa verið að auka öryggi íbúa og munu bæta samgöngur við íbúa Siglufjarðar.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að ég veit ekki hvað hv. þingmanni gengur til að taka sérstaklega út eitt sveitarfélag á landsbyggðinni og ætla að draga upp sérstaklega dökka mynd af því ástandi sem þar er. Þar með er ég ekki að segja að ástandið þar sé eitthvað betra en annars staðar á mörgum stöðum á landinu.