131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[15:21]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvort mér misheyrðist eitthvað í máli hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, en ég heyrði ekki betur en úr ræðustóli hafi komið frá honum mikill fúkyrðaflaumur í minn garð og félaga minna í Framsóknarflokknum, þar sem talað var um níðingshátt og rýting í bak og annað slíkt. Mér finnst það ekki sæmandi úr ræðustóli Alþingis. Ef hv. þm. finnur einhver sambærileg orð úr mínum munni, þá skal hann benda á þau í andsvari sínu á eftir. Annars ætla ég ekki að rekja frekar munnsöfnuð hv. þm. sem mér finnst oft og tíðum ekki til sóma, hvort sem það er úr þessum ræðustóli eða á öðrum vettvangi.

Við verðum að sætta okkur við fiskveiðistjórnarkerfið og við hljótum að geta rætt það á málefnalegum nótum að við erum ósammála um leiðir í fiskveiðistjórnarkerfinu og í kvótakerfinu.

Fyrirtæki eins og Þormóður rammi – Sæberg skapar á annað hundrað störf á Siglufirði og Ólafsfirði. Þetta er mjög mikilvægur vinnustaður. Nýlega var sett á fót fyrirtæki í Ólafsfirði sem ágætur maður, Sveinn Jónsson, bóndi á Kálfskinni, og er okkur framsóknarmönnum að góðu kunnur, hefur nú stofnsett og þar vinna um 20 manns. Ég mundi ekki útiloka að það geti orðið vöxtur í því.

Það eina sem ég hef sagt í þessum málflutningi — ég hef ekki komið inn á málefni dagabáta sem reyndar eltu fiskinn á sínum tíma hringinn í kringum landið og höfðu oftar en ekki aðstöðu á fleiri en einum stað, þannig að ég veit ekki hversu mikil byggðafesta var í því — er að ég vil verja arðinum af núverandi sjávarútvegskerfi af auðlindagjaldinu til nýsköpunar og uppbyggingar í hinum dreifðu byggðum.