131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002–2005.

216. mál
[16:31]

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að ekki er horfið frá þeim markmiðum sem þarna eru þó að þetta sé horfið úr skýrslunni.

Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að það gleður mig mjög að sjá eftirfarandi texta í þessum kafla og það segir mér að spurningar okkar m.a. til hæstv. samgönguráðherra hafa borið árangur, vegna þess að hér stendur, með leyfi forseta:

„Innan Símans er verið að kanna möguleika á háhraðasambandi í dreifbýli eftir hagkvæmari leiðum.“

Það er þá í gegnum örbylgjusamband eða annað slíkt. Guð láti á gott vita. En betra hefði verið ef þetta hefði verið gert fyrr.

Við hæstv. samgönguráðherra áttum orðaskipti í gær út af ISDN-tengingum sem eru til nokkurra þéttbýlisstaða á landinu. Það hef ég gagnrýnt og tel mjög miður vegna þess að fjarskipti efla byggðirnar, eins og hæstv. samgönguráðherra sagði. Ég tók ISDN sem dæmi og líkti því við Trabant og sagðist viss um að hæstv. samgönguráðherra yrði ekki ánægður ef hann þyrfti að keyra á Trabant meðan aðrir ráðherrar væru á Bensum. Það er ekki eingöngu þetta með ISDN-ið heldur er líka „bensínið“ (Forseti hringir.) á Trabantinn dýrara vegna þess að dýrara er að kaupa þjónustuna í gegnum (Forseti hringir.) ISDN en ADSL.