131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Veggjald í Hvalfjarðargöng.

75. mál
[18:18]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Áhugi þingmanna sem hér hafa talað og flutningsmanns á þeirri tilhögun mála í Hvalfjarðargöngum að veggjaldið sé tekið til endurskoðunar og eins og tillagan gerir ráð fyrir, annaðhvort fellt niður eða lækkað verulega, er vissulega skiljanlegur. Það er auðvelt að skilja íbúa á Akranesi og nærsveitum sem daglega eða mjög reglubundið fara þessa leið, að þeir vilji sitja við sama borð og aðrir og þurfi ekki að borga sérstakan vegtoll á sinni dags daglegu ferð um þjóðvegakerfið. Ég get mjög vel skilið þau sjónarmið.

Ég hlýt þó að mæla viss varnaðarorð hér, fyrst og fremst vegna þess að hér á í hlut verkefni sem ráðist var í á tilteknum forsendum. Þær lágu alveg skýrt fyrir. Það var reyndar ekki síst að frumkvæði heimamanna sem hrintu verkinu af stað með því að leggja upp með þær forsendur frá byrjun að um sjálffjármagnaða framkvæmd yrði að ræða sem í raun og veru gerði það að verkum að skriður komst á málin. Það var þannig að jarðgöng undir Hvalfjörð voru hvergi inni á vegáætlun og hvergi í sjónmáli á grundvelli þeirrar áætlanagerðar í vegamálum eða samgöngumálum sem voru uppi í kringum 1990 þegar þetta mál komst á verulegan skrið.

Auðvitað er sama uppi á teningnum í dag ef það sem eftir stendur af skuldum vegna þessarar framkvæmdar yrði fært yfir á Vegagerðina og tekjustofna hennar og tekið inni í vegáætlun, þá verða að sjálfsögðu þeir fjármunir sem færu í að afskrifa þetta mikla mannvirki ekki notaðir í annað. Það yrði þá að byggja á því að pólitísk samstaða tækist um að taka þetta inn í vegáætlun og nota hefðbundna tekjustofna Vegagerðarinnar til að borga verkið.

Ég vil líka taka undir það sem kom fram í máli hv. síðasta ræðumanns og hann tók að nokkru leyti af mér ómakið. Það er ekki hægt annað en hafa í huga hvaða fordæmi væri þá gefið gagnvart framkvæmdum sem menn leggja af stað með á tilteknum forsendum, þ.e. að innheimt yrði veggjald og framkvæmdirnar stæðu að verulegu leyti undir sér sjálfar. Líklegt er að sambærileg rök gætu fljótlega átt við í fleiri tilvikum og þá yrði horfið frá þessu. Ég nefni strax tvö dæmi sem rædd hafa verið á sömu forsendum, þ.e. jarðgöng undir Vaðlaheiði og Sundabraut. Í báðum tilvikum hafa menn gefið sér að um vegtoll yrði að ræða, sem stæði að verulegu leyti eða jafnvel alfarið undir viðkomandi framkvæmd. Það er ansi líklegt að menn yrðu fljótt tortryggnir í garð slíkra hugmynda og reiknuðu með að hið sama gæti orðið uppi á teningunum, að þær kæmu síðan eftir eitthvert árabil og ryddu sér þannig braut inn í vegáætlun og tækju mikið pláss til sín, svo ég tali nú ekki um framkvæmd af stærðargráðu Sundabrautar upp á kannski 15 milljarða kr. eða svo. Það verður því líka að hafa fordæmið sem hér er á ferðinni í huga.

Sumir hafa líka nefnt möguleikann á því, ef ég hef heyrt rétt, að lagður yrði vegur yfir Stórasand í einkaframkvæmd og jafnvel komið niður á Þingvöll, hvort sem gjaldtökuhliðið yrði nú í þjóðgarðinum eða einhvers staðar annars staðar. Ég held að það verði að ræða þessa hluti alveg eins og þeir liggja fyrir, því þótt við viljum sýna mikinn skilning og velvilja í garð slíkra sjónarmiða þá geti verið erfitt að réttlæta aðstöðumun af þessu tagi út frá ýmsum öðrum forsendum.

Staðreyndin er líka sú að fjármögnun sérstakra vegaframkvæmda víða í löndunum í kringum okkur hefur verið að færast í auknum mæli yfir á þetta form. Við þekkjum stórframkvæmdir eins og Eyrarsundsbrúna. Við þekkjum samgöngumannvirkin í kringum Ósló og mörg önnur slík. Í þau hefði ekki verið ráðist og þau alls ekki orðið á döfinni nema vegna þess að samkomulag tókst um að þau yrðu a.m.k. að verulegu leyti fjármögnuð með gjöldum.

Ég tel hins vegar að þarft sé að fara yfir þetta hvort sem um er að ræða tillöguflutning eða fyrirspurnir eða hvað sem í þá átt gengur, ég tel tímabært og eðlilegt að slíkt komi fram. M.a. vegna þess að það eru álitamál uppi sem er sjálfsagt að fara yfir, þegar verkið eða áætlunartímabilið er þetta langt komið eins og raun ber vitni. Þar á ég við hluti eins og t.d.: Hversu hratt á að borga framkvæmdina upp? Hversu skammur á afskriftartíminn á mannvirki af þessu tagi að vera? Það skiptir talsverðu máli. Hvernig á að haga gjaldskránni? Hver eiga að vera hlutföll t.d. milli lausaumferðar og þeirra sem fá meiri afsláttarkjör út á reglubundin afnot af mannvirkinu? Ég tel að þar megi vel ganga lengra í þá átt að hlífa þeim sem nota þetta að staðaldri og leggja meiri hluta greiðslubyrðarinnar á lausaumferð. Ég tel ekkert að því að þeir sem nota Hvalfjarðargöngin einstöku sinnum og eiga erindi af og til norður eða vestur um land í fríum, borgi þúsund krónur eða meira. Augljóst mál er hins vegar að hundruð króna í hverri einustu ferð fyrir aðila sem nota þetta að staðaldri er tilfinnanleg gjaldtaka.

Svo ég tali nú ekki um að ríkið á auðvitað ekki að hafa þetta að sérstakri féþúfu í gegnum skattkerfið. Þar finnst mér vera svigrúm til að koma verulega til móts við þessi sjónarmið, t.d. með því að fella niður virðisaukaskattinn og nota allt það svigrúm sem þar skapast til aukinna afslátta fyrir fastanotendur en hreyfa ekki við gjaldskránni til lækkunar fyrir lausaumferð. Það kæmi væntanlega eitthvað til móts við þessi sjónarmið og gæti sætt menn við þau.

Það má heldur ekki horfa fram hjá því að rekstrarkostnaður mannvirkis af þessu tagi er umtalsverður, a.m.k. á kílómetra borið saman við almenna vegi. Að tekið sé tillit til slíks að einhverju leyti hlýtur að teljast eðlilegt sjónarmið í ljósi forsögu málsins og hvernig til þessa var stofnað.

Það er atriði í sjálfu sér þegar samið er um hlutina eða í þá er ráðist á tilteknum forsendum að menn virði þær forsendur og reyni eftir föngum og eins og sanngirnisrök mæla fyrir um að láta þær halda. Annars held ég að í framtíðinni verði erfitt að skapa tiltrú og samstöðu um hluti af þessu tagi ef menn verða of ístöðulitlir í því að halda sig við það sem samið hefur verið um.

Ég á a.m.k. ákaflega erfitt með annað, herra forseti, í ljósi aðildar minnar að þessu máli á sínum tíma en að halda þessum hlutum til haga, svo það sé rifjað upp og á það minnt hvernig að þeim var búið á sínum tíma. Það er staðreynd og einnig er með öllu óvíst að ráðist hefði verið í Hvalfjarðargöng, eða þá a.m.k. hvenær, ef það hefði ekki einmitt verið gert á nákvæmlega þeim forsendum sem alltaf lágu fyrir, að verkið ætti að standa undir sér sjálft. Enda ættu menn þá valið og það er eðlismunur á þessari framkvæmd og ýmsum öðrum að það er í sjálfu sér valkvætt hvort menn nýta sér þann kost eða ekki.