131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Veggjald í Hvalfjarðargöng.

75. mál
[18:31]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Meinið er að hæstv. samgönguráðherra situr hljóður og hefur enga grein gert fyrir því hvaða stefna er uppi. Hann lýsti því yfir 5. desember í fyrra að nefnd sem væri einmitt að fjalla um þessi málefni, þ.e. einhverja stefnu um veggjöld eða gjaldtöku af samgöngumannvirkjum, ætti að skila eftir áramótin en ekkert hefur bólað á því hvaða stefnumörkun er í gangi á vegum ráðuneytisins eða hæstv. ráðherra. Það hefði verið gott ef hæstv. ráðherra hefði komið inn í umræðuna, eins og ég óskaði eftir í upphafi hennar, og gert mönnum grein fyrir því hvernig málin standa.

Ég er sammála hv. þm. og vil ekki útiloka að veggjöld séu notuð til uppbyggingar á samgöngumannvirkjum, en menn verða að finna sanngjarna leið sem lendir ekki á tiltölulega fáum með miklum þunga eða tiltölulega takmörkuðum svæðum með miklum þunga. Það verður ekki gert nema með einhverri samræmdri áætlun sem tekur til þeirra mannvirkja sem væru byggð upp með þessum hætti. Fram að þessu hafa menn talað um Sundabrautina og Hvalfjarðargöngin og það mundi þýða að mjög ójafnt væri skipt hvað þá hluti varðaði.