131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Umgengni um nytjastofna sjávar o.fl.

215. mál
[19:25]

Kristján L. Möller (Sf):

Herra forseti. Ég kem hér til þess að lýsa yfir stuðningi mínum og þakka hv. þm. Örlygi Hnefli Jónssyni fyrir það frumkvæði sem hann hefur haft að því leggja fram þetta frumvarp til laga, þessa breytingu á ýmsum lögum. Ég er einn af flutningsmönnum og sit í sjávarútvegsnefnd og fagna því að þetta mál komi til okkar. Nú þegar hv. 1. flutningsmaður hefur mælt fyrir málinu vil ég segja að það er sérstaklega gott að hann skuli hafa fært það hér inn. Það er tími til kominn að það sé gert.

Ég þekki dæmi, virðulegi forseti, um það sem mundi í þessu sambandi flokkast undir smávægilegt gáleysi. Útgerðarmenn á litlum bát, einyrkjar eins og hér er fjallað um, sem róa á smábátum sínum án mikilla aflaheimilda finna þungt fyrir þessum refsingum. Gáleysið sem um er að ræða var að viðkomandi útgerðarmanni láðist að merkja einn drekann upphafsstöfum og skráningarnúmeri viðkomandi báts. Svo kom eitthvert apparatið til eftirlits, Fiskistofa eða hvað það nú var, og sá að þetta var ómerkt. Það var kært og sektin var 400 þús. kr. Þetta er mjög alvarlegt mál. Við getum tekið annað dæmi bara að merking af línubelg eða einhverju svoleiðis fari af og sjáist ekki tiltekið tímabil. Þá er hægt að sekta svona.

Ég tek því undir það enn einu sinni sem hér er sett fram að lágmarkssektarákvæði verði fellt úr gildi og það lagt í hendur dómara að meta fésektina eftir því hvað brotið er alvarlegt og hvort það er framið af ásetningi eða gáleysi. Þetta er mikilvægt atriði.

Það var líka fróðlegt fyrir mig að heyra um hitt atriðið sem hv. þingmaður nefndi áðan, allar þessar reglugerðir, þessar 311 eða hvað þær voru nú margar, á sviði sjávarútvegs. Við sjáum náttúrlega hvílíkt reglugerðafargan er í kringum þetta mál.

Virðulegi forseti. Ég vil segja það enn einu sinni vegna flutnings þessa máls að það er mjög ánægjulegt að hv. þingmaður skuli hafa tekið sig til og flutt það hér inn. Það er í raun undarlegt að það skuli ekki hafa verið gert fyrr og ég lýsi yfir fullum stuðningi við málið þegar það kemur til hv. sjávarútvegsnefndar.